13.12.1974
Neðri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

76. mál, nýting innlendra orkugjafa

Lúðvík Jósepsson [frh.]:

Herra forseti. Það er nú svo langt um liðið síðan þetta mál var hér síðast á dagskrá og ég varð að hætta mínum málflutningi í miðri ræðu, að ég á nú erfitt með að finna endann á þeirri ræðu og halda áfram og er þá kannske best, úr því sem komið er, að stytta mál sitt, enda sýnist mér vera þannig mætt á þessum fundi, að það taki því nú kannske ekki að fara að halda hér uppi löngum málflutningi.

Ég minnist þess þó, að ég hafði sérstaklega vikið að einum þætti, sem fram hafði komið í þessum umr., en það var sá þáttur, sem sneri að nýtingu innlendra orkugjafa hér á Suðvesturlandi í sambandi við húshitun, og fullyrðingar, sem hér höfðu komið fram frá hæstv. fjmrh. um það, að fyrrv. ríkisstj. hefði m.a. torveldað framkvæmdir í þeim málum fyrir Hitaveitu Reykjavíkur, sem hafði tekið að sér að koma upp hitaveitum á þessu svæði fyrir nálæg byggðarlög. Ég hafði bent á, að þetta væri rangt og væri auðvelt að sanna að þetta fengi ekki staðist. En fullyrðingar af þessu tagi hafa sést æðioft áður hér í blöðum af hálfu þeirra sjálfstæðismanna, þar sem þeir hafa haldið því fram, að fyrrv. ríkisstj. hafi ekki heimilað Hitaveitu Reykjavíkur að hækka hitaveitugjöld, þannig að hún gæti í rauninni staðið undir þeim verkefnum með eðlilegum hætti, sem hún hafði þarna tekið að sér. En það er auðvelt að sjá það, að þó að fyrrv. ríkisstj. hafi að vísu ekki heimilað Hitaveitu Reykjavíkur allar hækkanir á hitaveitugjöldum um leið og óskir komu fram, þá heimilaði hún þó mjög miklar hækkanir og að mínum dómi meiri hækkanir en hafa verið forsvaranlegar í raun og veru miðað við þau verðlagsmál, sem við vorum að glíma við á þessum tíma.

Ég tók eftir því, að í umr. í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir nokkrum dögum hafði það komið fram, að hitaveitugjöld höfðu hækkað hér á eins árs tímabili, frá des. á s.l. ári og fram í des. nú, um 110%. Þetta geta menn borið saman við t.d. almenna kauphækkun á þessu tímabili, sem er langt undir þessu marki. Það er því enginn vafi á því, að Hitaveitan hefur fengið að hækka sín gjöld og auka sinar tekjur og hefði getað af þeim ástæðum staðið við þá samninga, sem hún hafði gert um framkvæmdir í hitaveitumálum hér í nálægum byggðarlögum.

Ég skal svo ekki fara um þetta mörgum orðum, en vil aðeins til viðbótar til sönnunar á mínu máli í þessum efnum vitna í bréf, sem borgarstjórinn í Reykjavík skrifaði til þess rn., sem ég hafði með að gera á þeim tíma, þann 11. jan. 1974 eða í ársbyrjun þessa árs. Í þessu bréfi segir borgarstjórinn í Reykjavík, þegar hann er að gera grein fyrir þessu máli, að samkv. áætlunum, sem gerðar hafi verið um hitaveituframkvæmdir í þessum nágrannabyggðarlögum Reykjavíkur, þ.e.a.s. í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðahreppi, og einnig í Reykjavík sjálfri, hafi verið áætlað, að kostnaður við þessar framkvæmdir mundi nema 1660 millj. kr., þar af, eins og segir í bréfinu, 1296 millj. kr. vegna virkjana aðalæða og dreifikerfa í áðurnefndum þremur sveitarfélögum og 364 millj. kr. vegna dreifikerfis í Reykjavík, sem sagt, samtals 1660 millj. kr. En í þessu bréfi segir orðrétt — með leyfi hæstv. forseta — á þessa leið:

„Greiðsluyfirlitið, sem fylgir þessu bréfi, sýnir enn fremur, að Hitaveitan muni hafa til ráðstöfunar eigið fé á þessum sömu árum um 1450 millj. kr. til hitaveituframkvæmdanna, vaxtagreiðslna og umsaminna afborgana eldri lána.“

Eins og ég segi, hér fylgir með alveg grg. yfir þessi ár, þar sem sýndur er tekjuafgangur Hitaveitunnar, það fé, sem hún hefur laust vegna afskrifta, og það er hvorki meira eða minna en þetta. Það fer því auðvitað ekkert á milli mála, að afkoma Hitaveitunnar hefur verið þannig, að menn hafa verið að gera ráð fyrir því, að þeir gætu haft lausa fjármuni út úr rekstri Hitaveitunnar nægilega mikla til þess að annast allar þessar stofnframkvæmdir í byggðarlögunum hér í kring. Sannleikurinn er auðvitað sá, ef menn vilja snúa málinu þannig, að hér hafa verið uppi kröfur um það, að þeir, sem nota hitaveituvatnið hér í Reykjavík, ættu að borga í verði umfram það, sem nauðsynlegt var, allar þessar stofnframkvæmdir nú.

Eins og ég hef sagt hér áður, leikur enginn vafi á því, að þetta fyrirtæki hefur fengið að verðleggja sína þjónustu á allt annan hátt en aðrir aðilar hafa fengið leyfi til af verðlagsyfirvöldum, og stjórnvöldum nú á síðari árum. Það hefur sem sagt verið gert ráð fyrir því, að fyrirtækið fengi að safna upp mjög álitlegum greiðsluafgangi til þess að standa undir þessum framkvæmdum. Það hefur svo einnig legið fyrir allan tímann, að fyrirtækinu hefur staðið til boða að taka lán til framkvæmdanna, eins og nauðsynlegt hefur verið, að því leyti til sem eigin fjármunir fyrirtækisins hrykkju ekki til. Allar fullyrðingar um, að fyrrv. ríkisstj. hafi ekki heimilað þessu fyrirtæki að hækka tekjur sínar til samræmis við eðlilegar þarfir, eru algerlega út í hött og allar afsakanir, sem menn hafa haft uppi um það, að þeir hafi ekki staðið við gerða samninga um framkvæmdir í þessum efnum fyrir nálæg byggðarlög, af því að ríkisstj. hafi ekki viljað verða við beiðnum þeirra, sem stjórnuðu þessu fyrirtæki, eru líka rangar, svo að ekkert af þessu fær staðist. En hitt gefur svo auðvitað auga leið, að stjórnvöld hljóta að reyna að hafa einhvern hemil á því, hvernig þýðingarmikil gjöld hækka á tímum eins og hefur verið nú á síðustu árum og eru enn, og ég efast ekkert um það, að núv. ríkisstj. hlýtur að vilja taka þarna eitthvert tillit til, jafnvel þótt kaupgjaldsvísitalan sé bundin föst í bili, því að hún gerir sér auðvitað grein fyrir því, að látlausar hækkanir, sem koma auðvitað inn í vísitöluútreikninga, segja til sín fyrr en seinna. Það er því engin leið út úr þessum vanda að ætla að hækka þetta endalaust og þrotlaust.

Ég minni líka á það, að í umr. í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir fáum dögum kom það einnig fram, að á eins árs tímabili höfðu verið samþykktar hækkanir á rafmagnsgjöldum hér hjá Rafmagnsveitunni, sem næmu hvorki meira né minna en 180%. Þessir aðilar þurfa sannarlega ekkert að kvarta undan því, að þeir hafi ekki fengið sínar hækkanir. En þessi fyrirtæki bæði, bæði Rafmagnsveitan, sem stendur líka í miklum umsvifum og hefur alltaf staðið, og Hitaveitan, þetta eru mjög góð fyrirtæki, sem vinna þarft verk, og það er auðvitað afar þýðingarmikið, að hægt sé að koma áfram hitaveituframkvæmdum á þessu svæði og ber auðvitað að hlúa að því, að það sé hægt, en það tel ég, að hafi verið gert eftir eðlilegum leiðum. Það blessast hvergi að ætla að stilla þessum hlutum þannig, að fyrirtækin eigi að geta staðið í stórfelldum stofnframkvæmdum eingöngu með rekstrarafgangi viðkomandi árs.

En eins og ég sagði hér í upphafi míns máls, þá er það langt síðan þessar umr. voru, að ég held að ég hefji mig ekki mikið hærra til flugs í þessu, ekki nema þá einhverjir aðrir komi til og fari að gefa nýtt tilefni til, og skal ég því láta máli mínu lokið að þessu sinni. En aðalatriðið varðandi þær umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, er auðvitað að það séu gerðar allar hugsanlegar tilraunir til þess að reyna að nýta innlenda orkugjafa í stað þeirra erlendu, sem við notum nú. Til þess þarf að hafa hraðan á. Það er ekki aðeins, að við stefnum þannig að því að leysa yfirvofandi vandamál, eins og í raforkumálum og hefur verið rætt nú síðustu dagana í raforkumálum Norðurlands, Austurlands og viðar á landinu. Það er auðvitað enginn vafi á því, að það er skaðlegt að tefja það að koma á raforkulínusamtengingunni á milli Suðurlands og Norðurlands. Það væri auðvitað hægt, þegar sú samtenging er komin á, að losa sig við allmikinn kostnað af erlendum orkukaupum og koma þessu yfir á innlenda notkun og að því ber að vinna og það má ekki tapa þarna neinum tíma. En mér sýnist, miðað við þær upplýsingar, sem hér liggja fyrir nú, að þá hafi því miður tekist þannig til, að samtengingarlínan á milli Suður- og Norðurlands hafi nú dregist um a.m.k. 3 mánuði umfram það, sem hefði þurft að vera, sennilega vegna þess að það hefur verið uppi einhver ágreiningur um það, hvort ætti að halda þessari framkvæmd áfram eða ekki.

Þetta er auðvitað kjarni þessa máls, hvort við gerum allt sem unnt er til þess að hraða þessum málum, því að ég hygg að allir séu sammála um það, að að þessu beri eð stefna, að nota innlendar orkulindir, en hverfa hið fyrsta frá notkun þeirra erlendu, af því. að það muni verða okkur mjög til sparnaðar, þegar á heildina er lítið.