14.12.1974
Efri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

49. mál, ráðning starfsmanna og húsnæðismál ríkisstofnana

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Síðara frv., sem ég gat um áðan, er frv. á þskj. 52 og 137 um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana. Með l. nr. 48 1958 voru lögfest ákvæði varðandi starfsmannahald ríkisins. Lög þessi segja fyrir um það með hvaða hætti skuli fjalla um ráðningar starfsmanna í þjónustu ríkisins og um húsnæðis- og bifreiðakostnað ríkisins. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er endurskoðun á þessum l. að fenginni reynslu. Gert er ráð fyrir því að þeir annmarkar, sem komið hafa fram varðandi þá löggjöf sem ég gat um áðan, væru sniðnir af og hægt yrði með þeim ákvæðum endurskoðuðum að ná betri árangri í sambandi við ráðningu opinberra starfsmanna.

Það er staðreynd að gjarnan þegar ríkisstofnanir hafa ekki fengið jákvætt svar við beiðni sinni um fjölgun opinberra starfsmanna, þá hefur í vaxandi mæli verið farið inn á þá braut að ráða opinbera starfsmenn svokallaðri lausráðningu og þannig gengið fram hjá þeim lagaákvæðum sem um þessi mál hafa gilt. Til þess að koma í veg fyrir þetta eru gerðar hér till. um breytingar, þannig að bæði rn. viðkomandi stofnunar svo og fulltrúar stofnunarinnar sjálfrar fái tækifæri til þess að skýra og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum hjá ráðningarnefnd ríkisins, áður en til afgreiðslu viðkomandi máls kann að koma. Auk þess eru till. gerðar um það, að leggi viðkomandi ráðh. svo ríka áherslu á þá mannafjölgun, sem í einstökum tilfellum er farið fram á, þá hafi hann tækifæri til þess að taka málið upp á ríkisstjórnarfundi í stað þess að í dag er málinu lokið með synjun hinnar svokölluðu bremsunefndar. Þetta eru að mínum dómi skynsamlegri vinnubrögð gagnvart stofnunum og rn., og vonast ég til að það leiði til þess að ráðningar opinberra starfsmanna komist í betra horf.

Þá er gert ráð fyrir í þessu frv. að við framlagningu fjárlagafrv. ár hvert verði lögð fram skrá um opinbera starfsmenn og í frv. gert ráð fyrir hvað það geri ráð fyrir mikilli aukningu, — tæplega má reikna með að fækkun sé, þó getur það að sjálfsögðu komið fyrir, — þannig að þinginu sé gert grein fyrir hver sé fjöldi opinberra starfsmanna við afgreiðslu fjárl. hverju sinni.

Við framlagningu frv. í hv. Nd. var í frv. till. um skilgreiningu á því hverjir væru fastir starfsmenn og hverjir lausráðnir starfsmenn. Það kom fram eftir athugun hjá stjórn BSRB og BHM, en ég hafði fengið þeim frv. til skoðunar til gagnrýni á því, að í þessu frv. væri ekki ástæða til að hafa skilgreiningu á þessu, því að hér væri um að ræða réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og þess vegna eðlilegt að skilgreining á þessu væri í þeirri löggjöf, enda hefur nefnd unnið s.l. ár að endurskoðun þeirrar löggjafar.

Ég gat mjög vel fallist á þessi sjónarmið og hét því og gerði grein fyrir því við 1. umr. málsins í Nd. að beita mér fyrir að hv. fjh.- og viðskn. Nd. breytti þessu, og á þskj. 137 er frv. breytt eftir 2. umr. Þær breytingar, sem á því voru gerðar, eru í samkomulagi við fjmrn., fjmrh. og stjórnir þessara tveggja samtaka og skilgreiningin tekin út úr frv.

Það hefur farið fram málflutningur og dómsuppkvaðning í tveimur málum sérstaklega varðandi réttindi opinberra starfsmanna. Árið 1971 var kveðinn upp dómur og komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að ráða starfsmann í þjónustu ríkisins með tilteknum uppsagnarfresti og skyldi starfsmaður því teljast æviráðinn, þótt í ráðningarbréfi hans væri ákvæði um 3 mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest. Þetta var dómur Borgardóms Reykjavíkur nú á þessu ári. Þessum dómi var áfrýjað og um það er getið í grg. frv. Nú hefur verið kveðinn upp dómur í Hæstarétti og vil ég láta þess getið hver niðurstaða hans var, en þar er, eins og komist er að orði, ríkissjóður sýknaður af kröfu þess aðila, sem málið höfðaði og það staðfest að heimilt sé að ráða menn til ríkisins með ákveðnum uppsagnarfresti.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Ég legg til, herra forseti að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn., og legg fram sömu ósk og áðan, að hv. þd. sjái sér fært að taka málið til afgreiðslu fyrir jólaleyfi.