14.12.1974
Efri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

84. mál, útvarpslög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta lagafrv., sem fram fór í gær, heiðraði hæstv. menntmrh. þessa d. ekki með nærveru sinni. Hann kaus að vera staddur annars staðar meðan frv. var rætt. Samflokksmenn hans í þessari hv. d. tóku ekki til máls, gerðust ekki til andsvara gegn gagnrýni á þetta frv., sem var þó býsna hörð. Þeir létu við það sitja, ef svo má segja, að rétta upp við afgreiðslu málsins, að rétt upp, — mér liggur nú við að segja skottin — hendurnar.

Þetta mál hefur ekki verið rætt á eðlilegan hátt í d. Í menntmn, þessarar d. hlaut frv. ekki eðlilega afgreiðslu og nú æski ég þess, að menntmrh. heiðri d. með nærveru sinni, þannig að hann geti svarað fyrir ýmsa gagnrýni, sem komið hefur fram á þetta frv. hans, og mun ég gera hlé á máli mínu á meðan hæstv. menntmrh. er sóttur. (Forseti: Það verður athugað hvort hæstv. menntmrh. er í húsinu.)

Herra forseti. Þar sem hæstv. menntmrh. hefur nú orðið við ósk okkar um að heiðra okkur með stuttri heimsókn hér í d. meðan rætt er um frv. hans um breyt. á l. ríkiútvarpsins, þá vil ég fyrst víkja til hans þeirri spurningu hvort honum sé ljóst, að frv. hans hefur fengið mjög svo óviðurkvæmilega og allt að því óþinglega meðferð hér í d., þar sem menntmn. d. hylltist til þess að halda fund um málið þegar andstæðingar frv. gátu ekki sótt fundinn, einnig að málið var afgr. í n. án þess að leitað væri álits lærðra aðila sem sjálfsagt var um svo nauðsynlega breyt. á l. sem hann hafði gert grein fyrir, er hann mælti með frv. Ég vil ítreka hér þá staðhæfingu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, forseta þessarar hv. d., að í grg. með frv. um lagabreyt. kom engin ástæða fram önnur en sú, að núv. útvarpsráð endurspeglaði ekki styrkleikahlutföll á Alþ. eins og þau væru núna. Einnig vil ég ítreka fsp. hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar í því sambandi til hæstv. menntmrh. um það, hvernig hann hefði þá brugðist við því, hvort hann hefði borið fram lagafrv. um þessa breyt. á l. um ríkisútvarpið ef mynduð hefði verið vinstri stjórn, eins og til stóð um tíma, upp úr þeim þingmeirihluta sem hér var á Alþ., hvort þá hefði verið borið fram frv. í áttina við þetta. Það útvarpsráð, sem nú situr hefði getað endurspeglað meirihlutavald á þingi.

Sannleikurinn er náttúrlega sá, að hér er ekki um það að ræða, að l. séu talin óheppileg, heldur mennirnir, sem kosnir voru skv. þessum l. Ríkisstjórnarflokkarnir ráða yfir dagblöðum núna, sem seljast í 60 000 eintökum, á að giska sexföldum blaðakosti á við stjórnarandstöðuna. Nú á að gera enn þá betur og treysta enn betur áróðursaðstöðu ríkisstj. og við getum gert okkur nokkuð í hugarlund, hvers konar málstaður það sé, sem þarfnast þessarar hervæðingar andans, sem hér á að framkvæma.

Nú skyldum við ætla að það væri rétt, sem flutningsaðili, hæstv. menntmrh., heldur fram, að ætlunin sé aðeins að leiðrétta það ákvæði útvarpslaganna, sem fjallar um kjör útvarpsráðs. Væri svo að aðeins þetta væri ætlunin, þá skyldum við einnig ætla, að löglega kjörnu útvarpsráði, sem nú situr, væri ætlað að sitja út kjörtímabil sitt skv. gömlu lögunum. Væri það aðeins tilgangur hæstv. menntmrh. að bæta löggjöfina, en ekki sá að losa sig við ákveða einstaklinga væri náttúrlega látið við það sitja að breyta l. á þá lund, að næsta kjör útvarpsráðs væri látið fylgja alþingiskosningum og núv. útvarpsráð sæti þá áfram að störfum fram á árið 1975, en þá yrði kjörið nýtt útvarpsráð er sæti fram yfir næstu alþingiskosningar.

Það er kannske til of mikils mælst af hæstv. menntmrh., sem hefur þó, ég skal gera þá játningu, fengið það orð á sig og ég hygg að verðugu að vera annað eiginlegra en að segja ósatt, það er kannske til of mikils mælst af honum nú eftir að hann hefur tekið sæti í íhaldsstjórn, að hann segði beinlínis satt um ástæðurnar fyrir þessu lagafrv. En það er ekki aðeins ætlunin að breyta l. um kjör útvarpsráðs. Ef hægt hefði verið að svipta núv. meiri hluta í útvarpsráði umboði sínu án þess að breyta l. hefði það verið gert, því að sannleikurinn er sá að l., sem nú eru í gildi um kjör útvarpsráðs, þessi lög eru æskileg. Það er ekki hægt að svipta núv. útvarpsráð umboði sínu með öðru móti en því að breyta góðum l. og skemma þau. Hlutverk hins nýja útvarpsráðs, sem á að kjósa eftir lagabreyt., á fyrst og fremst að vera það, ef unnt skyldi reynast að lengja lífdaga annars óhæfrar íhaldsstjórnar í landinu.

Hér hafa fyrr verið flutt spakleg erindi um fyrri aðferðir við að kjósa útvarpsráð. Sagt hefur verið frá uppgjöfinni við það að kjósa útvarpsráð utan vébanda Alþ., er forráðamenn Ríkisútvarpsins leituðu ráða með logandi ljósi til þess að losa stofnunina undan smáskítlegu valdi stjórnmálabraskara, en máttu gefast upp fyrir þeirri staðreynd, að utan veggja alþingishússins eru starfsaðferðir þeirra manna, sem vinna innan þessara veggja, jafnvel enn þá óprúttnari en þær, sem þykja þrátt fyrir allt hæfa virðingu Alþ., og þarf þá talsvert til. Síðan hefur útvarpsráð verið kosið á Alþ.

Ég vakti athygli hæstv. menntmrh. á því áðan, að ekki var leitað álits lögfróðra manna, þó að ekki væri um annað en það að löglega kjörið útvarpsráð verði nú án rökstuðnings svipt umboði sínu í sambandi við þessa lagasmíð. Þá er það ótalið, að hv. menntmn. þessarar d. skuli ekki sýna Ríkisútvarpinu, þeirri stofnun, sem hæstv. menntmrh. ber svo mjög fyrir brjósti, þá virðingu, að leita álits forstöðumanns hennar á þessu frv. áður en n. mælir með lögfestingu þess. Tilgangurinn er annar en sá að bæta l. um Ríkisútvarpið. Ég gæti rakið ykkur mörg dæmi um það, hvernig útvarpsráð kjörin eftir þeirri reglu, sem nú á að kjósa nýtt útvarpsráð eftir, hafa verið notuð til þess að treysta í sessi vondar ríkisstjórnir og verja þær fyrir eðlilegri gagnrýrni. Dæmin eru ákaflega mörg. Eitt dæmið, af því er þetta varðar nú raunverulega, stendur í holdlegum tengslum við hið virðulega Alþ., er um það, er starfsmaður Ríkisútvarpsins, sem aflaði útvarpsefnis af Keflavíkurflugvelli, lét sig henda það í stjórnartíð Stefáns Jóh. Stefánssonar að segja frá íslenskum hundi sem hann hitti fyrir á Keflavíkurflugvelli og var þar í fóstri amerískra hermanna, og gat þess að hundur þessi hefði heitið Sloppy Joe. Honum var vikið úr starfi vegna þess að nafn hundsins rímaði á móti nafni forsætisráðherra sem stundum var kallaður Stebbi Jóh. Dæmin um valdníðslu útvarpsráða sérkjörinna til þess að ganga erinda ríkisstj. í líkingu við þá ríkisstj., sem nú hefur verið kölluð yfir okkur, eru óteljandi. Nú á sem sagt að breyta l. um Ríkisútvarpið til þess að kjósa útvarpsráð, sem endurspegli, að því er mér skildist, vilja þess meiri hluta kjósenda, sem kaus meiri hluta á Alþ. Ef hæstv.. menntmrh. gæti haldið áfram að heiðra hv. Ed. með athygli sinni vildi ég bera fram fyrir hann þessa spurningu. Heldur hann að þeir kjósendur sem kusu Framsfl. í síðustu kosningum, hafi ætlast til þess af honum, að hann setti sérstaka löggjöf til að treysta yfirráð hernámssinna yfir Ríkisútvarpinu?