11.11.1974
Neðri deild: 7. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. um ráðstafanir í sjávarútvegi og um ráðstöfun gengishagnaðar er til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út 20. sept. s.l. Í sambandi við frv. ætla ég að leitast við að skýra nokkuð einstakar greinar þess.

Í 1. gr. er gert ráð fyrir að nýtt fiskverð taki gildi frá og með 1. sept. s.l. þrátt fyrir ákvæði laga nr. 75/1974 um viðnám gegn verðbólgu, sem bundu almenna fiskverðið til septemberloka. Þetta ákvæði er í samræmi við yfirlýsingu sem gefin var í grg. frv. til l. nr. 78 1974, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi ísl. krónu, enda kemur gengisbreytingin 29. ágúst s.l. þegar til áhrifa á hag sjávarútvegsins um mánaðamótin á eftir. Greinin felur og í sér eins konar ramma fyrir hækkun almenns fiskverðs frá því verði sem gilt hefur á þessu ári, sbr. tilkynningu Verðlagsráðs sjávarútvegsins nr. 10 1974. Ástæður þessa eru einkum tvær: takmarkað svigrúm fiskvinnslunnar, einkum frystingar, til að greiða hærra fiskverð og þörfin á að tryggja samræmi í tekjuþróun stétta í milli, en þá var búist við, sem seinna kom á daginn, að settar yrðu takmarkanir á hækkun taxta og tekna annarra stétta. Áhrif þessarar 11% hækkunar skiptaverðs eru sem hér segir, miðað við áætlað ársúthald á þessu ári, og er þá reiknað með 11% hækkun á allan afla sem landað er innanlands annan en loðnu til bræðslu:

Hækkun á aflaverðmæti bátaflotans nemur 610 millj. kr., þar af er hlutur áhafnar 260 milljónir kr., en hlutur bátsins 350 millj. kr. Hækkun á aflaverðmæti togaraflotans nemur um 350 millj. kr., þar af er hlutur áhafnar 110 millj., en skipshluturinn 240 millj. Hækkun á hráefniskostnaði frystingarinnar er 680 millj., þar af er almennt fiskverð 610 millj. Hækkun hráefniskostnaðar saltfisks- og skreiðarverkunar er 320 millj.

Um 2. og 3. gr. frv. sem fjallar um stofnfjársjóðsgjaldið vil ég taka fram, að í lögum sem voru í gildi áður en þessi brbl. voru gefin út voru tvenns konar ákvæði um gjöld til stofnfjársjóðs vegna heimalandana, 10% af almennum fiskafla, loðna og rækja meðtalin, en 20% ef um var að ræða síld eða humar.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að yfirleitt verði gjaldið hér eftir af öllum afla eitt og sama eða 15%. Þessi breyting felur þó í sér verulega hækkun meðalgjaldsins eða um nálæg 2 4.6%, sem veldur hækkun hráefniskostnaðar hjá fiskvinnslunni að sama skapi. Aðalástæðan til þess að hækka stofnfjárframlagið er hin mikla hækkun sem gengissigið og gengisbreytingarnar á þessu ári hafa valdið á stofnfjárkostnaði útvegsins og hin erfiða staða útgerðarinnar yfirleitt.

Í 3. gr. frv. er gerð hliðstæð breyting á stofnfjársjóðsgjöldum þegar landað er erlendis. Áhrifum þessara breytinga á hag sjávarútvegsins má lýsa sem hér segir, miðað við áætlað ársúthald 1974 og aflaverðmætið eftir hækkunina sem brbl. gerðu ráð fyrir:

Það er þá fyrst að breyting almennra stofnfjárgjalda úr 10 og 20% í 15% á heimalöndun bætir afkomu bátaflotans um 330 millj., en bætt afkoma togaraflotans er áætluð 160 millj. kr. Kostnaðarauki frystingarinnar er áætlaður 295 millj. kr. og kostnaðarauki saltfisks- og skreiðarverkunar 135 millj. kr. Kostnaðarauki fiskmjöls- og loðnuverksmiðja er áætlaður 60 millj. kr., og er þá miðað við áætlað loðnuverð aðeins 2.20 kr. pr. kg til skipta. Hækkun stofnfjársjóðsgjalds í siglingum úr 16 í 21% er talin bæta afkomu bátaflotans um 40 millj. kr. og afkomu togaraflotans um 35 millj. kr. Hækkun á olíuverði á árunum 1973 og 1974 hefur valdið útgerðinni gífurlegum kostnaðarauka. Sala á olíu til íslenskra fiskiskipa hérlendis miðast þá við verð frá því í fyrrahaust, sem var 5.80 pr. gasolíulitra og kr. 3 330 á tonn af algengustu brennsluolíu — fuelolíu. Verð á þessum vörum er í dag kr. 14.30 gasolíulítrinn en 10 060 kr. tonnið af brennsluolíunni, hvort tveggja án söluskatts. Gasolíuverðið skiptir hér þó langmestu máli, því að 92–95% af olíukostnaði fiskiskipaflotans er gasolía. Það ríkir enn þá óvissa um olíuverðið í heiminum, en í þeim áætlunum sem víð var miðað þegar gengisbreytingin var framkvæmd var reiknað með að fullt verð á gasolíu til fiskiskipa yrði kr. 13.30 á lítra á næstu missirum, eftir að reiknað hafði verið með áhrifum gengisbreytingarinnar, en verðið er kr. 14.30 nú.

Ef við lítum á hvað fiskiskipaflotinn fer með af gasolíu yfir árið, þá er talið að — hann muni fara, miðað við kr. 14.30 á lítra, með tæplega 2600 millj. kr. í olíu á ársgrundvelli, en samkvæmt brbl. er gert ráð fyrir að útgerðin standi sjálf undir olíuverðinu eins og það var í nóv. 1973, eða kr. 5.80 á lítra, sem er nálægt því að vera um 1050 millj. kr. Munurinn er því um 1530–40 millj., sem verður að greiða niður í gegnum hinn svokallaða olíusjóð.

Framan af árinu 1974 var ætlunin að leysa olíuvanda fiskveiðanna með sérstöku loðnuútflutningsgjaldi sem reyndist fjarri því að duga og hverfur alveg við ríkjandi aðstæður, og því var mjög erfitt að taka allan viðbótarkostnaðinn vegna olíuhækkananna úr 5.80 í 13–14 kr. pr. gasolíulítra inn í kostnað útgerðarinnar að óbreyttum hlutaskiptum, því að fiskverðshækkunin er ódrjúg til þess að mæta skelli af þessu tagi, auk þess sem þá væru tekjur sjómanna hækkaðar sérstaklega af tilefni versnandi afkomu útvegsins, sem má segja að skjóti nokkuð skökku við. En i 4. gr. frv. er gert ráð fyrir að olíukostnaðaraukinn verði greiddur af sérstökum sjóði sem myndaður verður af útflutningsgjöldum, 4% almennu gjaldi og 1.5% aukagjaldi af saltfiski og skreið sem hafa haft sterkari markaðsstöðu en aðrar greinar sjávarútvegsins að undanförnu. Er talið að þetta 4% gjald af hinum almenna útflutningi muni gefa um 820 millj. kr., en 5.5% gjaldið af saltfiski og skreið um 410 millj. kr., eða samtals um 1 230 millj. kr. Má segja að þá sé tekið mið af því að standa undir niðurgreiðslunum miðað við nokkurn veginn 13.30 pr. litra, en verðið er 14.30, svo það er sjáanlegt að hér vantar nokkra tekjuöflun til þess að standast þær áætlanir sem gerðar hafa verið.

Nú nýlega hefur verið gefin út reglugerð um greiðslur úr olíusjóðnum sem tók gildi frá og með 1. okt. Þar er gert ráð fyrir að olían verði greidd niður í kr. 5.80 fyrir öll fiskiskip, enda greiða öll fiskiskip, bæði þau sem landa afla sínum hér heima og þau sem eru við veiðar í Norðursjó eða í siglingum með fisk, til þessa sjóðs og þótti því eðlilegt að taka þann hátt upp, enda við það miðað þegar brbl. voru sett.

5. og 6. gr. frv. fjalla fyrst og fremst um útflutningsgjaldið og Tryggingasjóð fiskiskipa. Útflutningsgjald af sjávarafurðum er hækkað frá fyrri lögum um mjög svipað hlutfall og gengissigið og gengislækkunin hafa breyst á þessu ári. Má segja að það sé nákvæmlega það sama.

Ef þessi breyting hefði ekki verið gerð á útflutningsgjaldinu má ætla að tekjur af því hefðu numið um 1 milljarði á heilu ári, eftir að reiknað hefur verið með áhrifum gengisbreytingarinnar frá 29. ágúst, en af því mundu renna um 850 millj. kr. til Tryggingasjóðs fiskiskipa. En eins og fram kemur í frv. fara 87.8% af heildarútflutningsgjaldi af sjávarafurðum til þess að greiða vátryggingargjöld fiskiskipa samkvæmt reglum sem sjútvrn. setur á hverjum tíma.

Annar stærsti útgjaldaliðurinn af útflutningsgjaldinu er framlagið til Fiskveiðasjóðs, sem er 7.5%, og svo til Fiskimálasjóðs 2%, til smíði haf- og fiskirannsóknaskips 1.2%, til bygginga í þágu rannsóknastofnana sjávarútvegsins 0.5%, til Landssambands ísl. útvegsmanna 0.5% og til samtaka sjómanna samkvæmt reglum, sem sjútvrn. setur, 0.5%. Þeir síðasttöldu hækkuðu hlutfallslega eins og greiðsla til vátryggingasjóðsins, en aðrir lækkuðu hlutfallslega, því að öll hækkunin var látin koma á vátryggingasjóð.

Ég ætla ekki að fullyrða um það, að þessi tekjuöflun verði nægjanleg til þess að standa undir greiðslu vátryggingagjaldanna á næsta ári. Miðað við bæði þann mikla flota sem við er að bætast og þær miklu breytingar sem verða á verðlagi skipa tel ég mjög vafasamt að þetta gjald komi til með að nægja og persónulega tel ég að það sé nálægt því að vanta um 150 millj. til þess að standa undir þessu gjaldi miðað við hliðstæðar reglur og gilt hafa undanfarin ár.

Um 7. og 8. gr. frv., sem fjallar um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, þá er að öllum reglum Verðjöfnunarsjóðs óbreyttum svo og viðmiðunarverði og viðmiðunargengi fyrir aðrar afurðir en loðnuafurðir sem reiknað væri með að hvorki greiddu né fengju greitt úr sjóðnum — staðan eftir síðustu gengisbreytingu sú, að frystihúsin ættu þrátt fyrir slæma stöðu að greiða á heilu ári um 1000–1200 millj. kr. í sjóðinn og saltfisksframleiðendur svipaða fjárhæð. Geta frystihúsanna til þess að mæta innlendum hækkunum, fiskverðshækkun og launahækkunum, væri því engin miðað við þessar aðstæður. En með 7. og 8. gr. eru Verðjöfnunarsjóðnum sköpuð skilyrði til rýmri meðferðar beggja þessara greina með því að hækka hámarkshlutfall tekna og verðbóta Verðjöfnunarsjóðs úr helmingi í 3/4 hluta fráviks markaðsverðs frá viðmiðunarverði. Til þess að gefa hugmynd um mikilvægi þessa má nefna að væri þessum reglum beitt til hins ítrasta þannig að viðmiðunarverð beggja greina hækkaði til samræmis við hið nýja gengi og síðan rynni 3/4 af fráviki markaðsverðs frá viðmiðunarverði í eða úr sjóðnum þá næmi greiðsla til frystingar 700–1000 millj. kr. á heilu ári, en frá söltun um 1 200 millj. kr. á heilu ári. Verðbætur til frystingar af þessari stærðargráðu verða að teljast forsenda þess að frystingunni dugi gengisbreytingin síðasta til þess að hafa viðunandi afkomu.

9. gr. laganna fjallar um ráðstöfun gengishagnaðar, en þegar Alþ. afgr. frv. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi ísl. krónunnar, þá segir að áður en því sé ráðstafað eigi að greiða af því skv. þremur atriðum: Í fyrsta lagi hækkanir á flutningskostnaði og öðrum sambærilegum kostnaði við útflutning vegna þeirra afurða, sem framleiddar hafi verið fyrir 1. sept. á þessu ári, en fluttar út eftir gengisbreytinguna. Er talið að þessi kostnaður muni nema um 100 millj. kr., sem þá dragast frá þeim hugsanlega gengishagnaði sem verður á öllum birgðum. Í öðru lagi átti að greiða halla sem sjáanlegur var vegna niðurgreiðslu á olíu til fiskiskipa fram til 1. okt. 1974. En eins og ég sagði áðan þá brást að töluverðu leyti sá tekjustofn, sem átti að standa undir olíuniðurgreiðslunni, og er talið að muni skorta um 300 millj. kr. til þess að standa undir þessari niðurgreiðslu til 1. okt. Í þriðja lagi átti að verja í gengisbætur vegna innstæðna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, ákvæði laga frá 4. apríl 1972, nr. 18, 400 millj. kr. Ég hygg að það hafi flestir eða allir aðilar i sjávarútvegi verið þeirrar skoðunar, að það ætti ekki að taka af gengishagnaði til þess að bæta Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins upp þrátt fyrir ákvæði þessara laga sem Alþ. afgreiddi rétt áður en því var slítið á s.l. hausti. Og nú fyrir nokkru tók ríkisstj. ákvörðun um að flytja till. þess efnis, að þessar 400 millj. kr. verði ekki teknar af gengishagnaði, og er því sjáanlegt að þegar gengishagnaðurinn .er áætlaður 1650 millj. kr. koma til ráðstöfunar 1250 millj. kr., þegar allar afurðir eru farnar úr landi og eru greiddar. Samkvæmt 9. gr. þessara laga segir að það eigi að verja því sem eftir verði á þennan hátt til þess að auðvelda eigendum skuttogara að standa í skilum með greiðslur afborgana og vaxta af stofnlánum, og til þess að tryggja rekstrargrundvöll skuttogaranna, í öðru lagi til þess að greiða hluta gengistaps vegna erlendra skulda eigenda fiskiskipa, í þriðja lagi til þess að greiða fram úr greiðsluvandræðum fiskvinnslufyrirtækja, sem átt hafa í söluerfiðleikum á árinu 1974, og í fjórða lagi til annarra þarfa innan sjávarútvegsins. Síðan segir: „Heimilt er bæði að veita lán og óafturkræf framlög af fjármagni sjóðsins til ofangreindra þarfa. Óafturkræf framlög skulu nánar ákveðin með lögum. Sjútvrn. setur nánari neglur um framkvæmd þessarar greinar.“

Þessi grein er höfð svona opin, hvorki tekið fram um upphæðir í millj. kr. né hlutfall af hugsanlegum gengishagnaði, og er það gert viljandi og þar réði sú afstaða mín að ég taldi að það þyrftu að liggja fyrir gleggri upplýsingar, enda væri nægum tími til að setja þær inn í frv. í þeirri nefnd, sem fær það til meðferðar, og þær upplýsingar koma vafalaust til með að liggja betur fyrir en þegar brbl. voru sett, og skal ég síðar koma að því.

Eins og öllum er kunnugt voru miklir og eru miklir erfiðleikar hjá útgerðinni og því var tekin sú ákvörðun að verja þegar nokkurri upphæð af væntanlegum gengishagnaði til þess að bæta stöðu einkum togaranna, og voru greiddar í gegnum aflatryggingasjóð af væntanlegum gengishagnaði liðlega 80 millj. kr. til 31 skuttogara en það eru um 13 345 kr. á hvern úthaldsdag fyrir tímabilið frá 1. jan. til 30. júní á þessu ári. Enn fremur varð það ofan á að greiða sömu upphæð á úthaldsdag fyrir hina stærri skuttogara sem eru 13 talsins, en skýringin á því að þeir fá sömu upphæð og minni skuttogararnir er sú, að aflatryggingasjóður hefur greitt bætur til stærri skuttogara á þessu sama tímabili, 1. jan. til 30. júní, en hinir minni skuttogarar hafa ekki verið bótaskyldir. Þá voru enn fremur greiddar vegna síldveiðiskipa í Norðursjó rúmlega 191/2 millj. kr. fyrir tímabilið frá því að veiðar hófust í sumar og til 15. sept. og var greitt á úthaldsdag allra 58 skipa, sem veiðar stunduðu, og greiðsla á hvern úthaldsdag nam 4 273 kr. Þessi ákvörðun um greiðslu til Norðursjávarskipanna var tekin fyrst og fremst vegna þess að þau höfðu ekki fengið neina olíu niðurgreidda nema þegar þau fóru héðan frá landinu og urðu að borga olíu á svipuðu verði og olían kostar hér, það skakkaði sáralitlu, og þegar tekið er tillit til þess, að flest af þessum skipum hafa lagt mest til loðnusjóðsins til þess að standa undir niðurgreiðslu á olíunni, og jafnframt þess, að rekstur þeirra gekk með allra lakasta móti á s.l. sumri taldi ríkisstj. rétt og eðlilegt, að þessar greiðslur yrðu inntar af hendi á þennan hátt.

Í framhaldi af þessu hefur verið unnið að því í samráði og samstarfi við Seðlabankann og höfuðviðskiptabanka sjávarútvegsins, Útvegsbankann og Landsbankann, að gera könnun á stöðu sjávarútvegsins og sú könnun stendur nú yfir. Það hefur verið skrifað öllum aðilum i sjávarútvegi og þeir hvattir til að senda nákvæmar upplýsingar um stöðu síns fyrirtækis með það fyrir augum að reyna að gera hér bætur á, þannig að koma lausaskuldum útgerðarinnar í föst lán til fárra ára og reyna að ná sem víðtækustu samstarfi við fjárfestingarlánasjóði, að þeir breyti vanskilaskuldum einnig í föst lán til nokkurra ára. Á þessu stigi get ég ekki skýrt frá hvernig þessi staða er, því að margir aðilar hafa óskað eftir fresti til þess að skila upplýsingum til hagdeilda bankanna, en þær eru að koma inn þessa dagana. En eitt get ég fullyrt, að það eru mjög miklir erfiðleikar hjá minni útgerðinni og nauðsyn að bregðast fljótt við til þess að koma henni til hjálpar og það sem allra fyrst. Að vísu er þetta mjög mismunandi eftir því hvar á landinu þessi útgerð er, og ég hygg að ég megi segja að erfiðleikarnir séu nú langmestir hér á Suðvesturlandi og langmestir á Suðurnesjum eins og málin standa í dag. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst stórminnkandi afli. Sama er að segja um útgerðina á Eyrarbakka, Stokkseyri og í Vestmannaeyjum: stórminnkandi afli og versnandi afkoma. Bankarnir hafa mikinn hug á því í samráði og samvinnu við sjútvrn. að láta þessa staði eða þessa útgerð ganga fyrir um afgreiðslu og allt verði gert til þess að hraða því eins og frekast er unnt. Þeirri n., sem fær þetta frv. til meðferðar, mun ég senda beiðni frá síldarútvegsnefnd, þar sem hún fer fram á að útflutningsgjald af saltsíld og saltsíldarflökum verði flokkað undir lið 1 í 2. gr. l. og enn fremur verði heimilt að draga frá fob-verðmæti saltsíldar og saltsíldarflaka vegna umbúðarkostnaðar og 1 300 kr. fyrir hver 100 kg. innihalds. Til skýringar á þessari ósk þá tekur síldarútvegsnefnd fram að tunnuverð hafi hækkað úr 500 í 1 300 kr. frá því að þessi frádráttarupphæð var fyrst ákveðin. Ég tel, að þessi beiðni síldarútvegsnefndar sé mjög eðlileg, og mun hafa samband við n., sem fær frv. til meðferðar og afgreiðslu, að taka tillit til þessara óska. Enn fremur óskar síldarútvegsnefnd eftir því, að heimilt verði að endurgreiða útflutningsgjöld af saltsíld og saltsíldarflökum framleiddum á árunum 1974 og 1975, eins og ákveðið var í l. frá 16. apríl 1973 varðandi saltsíldarframleiðslu áranna 1972 og 1973. Ég tel, að þetta mál þurfi frekari athugunar við, og mun einnig í sambandi við það hafa samráð við n. sem fjallar um þetta frv.

Áður en ég lýk máli mínu víl ég nefna það, að með þessum brbl. er hvergi breytt hlutaskiptum sjómanna, en því er ekki að neita, að allir þeir, sem vinna að sjávarútvegi, allt frá því að fiskur er dreginn úr sjó og þangað til hann er fluttur úr landi, taka þátt í því að bjarga útgerðinni frá því að verða fyrir stórfelldum skakkaföllum eða jafnvel stöðvast með því að taka á sig olíuhækkunina sem verður frá nóv. 1973, enda er það í beinu framhaldi af þeirri stefnu, sem fyrrv. ríkisstj. tók upp um síðustu áramót, að greiða olíu niður í það verð sem hún var í nóv. s.l., og ætlaði til þess hið svokallaða loðnuútflutningsgjald. En stefnan er sú sama, það er aðeins haldið áfram með öðrum hætti. Þessar tekjur eru nú teknar af öllum greinum sjávarútvegs á lokastigi eða þegar þær eru fluttar úr landi.

Útflutningsgjaldið tekur í raun og veru engum breytingum. Það fylgir aðeins, eins og ég sagði áðan, þeim breytingum sem verða á gengi íslensku krónunnar, fyrst hinu tíða gengissigi framan af árinu og síðan gengisbreytingunni í ágústlok. Önnur breyting verður ekki á því.

Í þriðja lagi er það stofnfjársjóðurinn. Þó að hann lækki í vissum greinum úr 20 í 15, þá hækkar hann fyrst og fremst ár 10 í 15 og hækkunin í heild nemur um 4.6%. En það verður að teljast eðlilegt, að tekið sé tillit til stórfelldrar kostnaðaraukningar sem útgerðin verður fyrir vegna sinna miklu erlendu skulda, að það sé greiddur hluti af þessari miklu kostnaðaraukningu vegna gengisbreytinga með þessum hætti.

Vitaskuld er það með þessi lög eins og önnur, að allir mótmæltu þegar l. voru gefin út, og ég verð að enda á því að láta í ljós ánægju mína yfir því, að það voru allir, sem mótmæltu, því að ef einhver ein grein hefði verið ánægð, þá held ég að það hefði verið hægt að segja og það með einhverjum rétti að þá hafi henni verið ívilnað, En einhvern veginn er það nú þannig, að það vill enginn taka á sig neinar fórnir, það á einhver annar að gera það, bara ekki ég sjálfur. En þannig er það nú, að gengisbreytingin hefur þau áhrif, að ef engar hliðarráðstafanir eru gerðar fá þeir hagnaðinn, sem selja afurðirnar úr landi, en þeir, sem frumhráefnisins afla, sjómenn og útgerðarmenn, fengju þá ekki neitt. Það er tryggt með þessum l. að setja á 11% fiskverðshækkun. Um þetta má deila óendanlega og ég skal alls ekki mótmæla því, að afkoma sjómanna á hinum minni bátum er engan veginn nógu góð, en hins vegar held ég að allir geti verið sammála um að afkoma manna á togurunum og þá sérstaklega minni skuttogurum er mjög góð og þeir þurfa síður en svo að kvarta. En hér var ekki gerður neinn greinarmunur á. Fiskverðshækkun kemur jafnt yfir. Ég sem sjútvrh. treysti mér alls ekki til þess að fara að færa á milli þessara tveggja greina. Það á fyrst og fremst að vera samningsatriði á milli sjómanna og útgerðar og ég vildi forðast það algerlega. En ég tel, að þessar hækkanir, sem hafa orðið, séu teknar á mjög réttlátan hátt, eins réttlátan hátt og hægt er að gera, og stærstu útgjöldin eru auðvitað vegna olíunnar, sem er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að allar greinar sjávarútvegsins á síðasta stigi taki þátt í.

Ég ætla svo ekki að hafa þetta lengra, en legg til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.