14.12.1974
Neðri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

66. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki tefja umr. um þetta mál, það eru aðeins örfá orð við þessa 1. umr.

Ég vil sérstaklega taka undir það, sem hér hefur komið fram í þessum umr., að sú vanræksla, sem orðið hefur um áraraðir að því er varðar verknámskennslu í skólakerfi hér á landi, er til vansæmdar að mínu áliti og það er því sérstaklega þess vert að taka undir það, að hér er hreyft mikilsverðu máli, og mér finnst ástæða til þess að taka undir þakkir til flm., sem gerði grein fyrir þessu máli hér í framsögu, því að hér er sannarlega um mikilsvert mál að ræða. Ég vænti þess að n., sem þetta mál fær til meðferðar, skoði það gaumgæfilega og í áframhaldi af því leggi hart á um það að hér verði virkilega tekið til höndum og málum hrint í framkvæmd.

Það verður að segjast eins og er að það er til vansæmdar íslensku skólakerfi að ekki skuli hafa verið á undanförnum árum og áratugum betur sinnt þessum þætti skólamála, sem er í reynd undirstöðuatriði að því er varðar fjölda atvinnugreina landsmanna. Ég vil því nota tækifærið hér við 1. umr. málsins til að taka undir með flm. og leggja áherslu á, að hér verði vel að verki staðið og málið skoðað gaumgæfilega og í áframhaldi af því verði hrundið í framkvæmd því sem þarf að gera og að það verði gert á sem allra skemmstum tíma.