11.11.1974
Neðri deild: 7. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í ræðu sinni áðan sagði hæstv. sjútvrh. eitthvað á þá lund, að það mál, sem hér er til umr., hafi þann kost að allir séu á móti því. Það er kostur að allir hafa mótmælt þessu, sagði hæstv. ráðh. Það er rétt og satt, að áður en ríkisstj. gerði þær ráðstafanir, sem nú er verið að leita staðfestingar Alþ. á, voru atvinnurekendur í sjávarútvegi óánægðir með sinn hlut. Ef það hefur verið tilgangurinn að gera sjómennina líka óánægða, þá hefur það tekist. Og ef það er markmið þessarar ríkisstj. í sínum stjórnarstörfum að gera alla landsmenn jafnóánægða með sínar gerðir, þá er það að takast, og það er þá í annað skipið á mjög stuttum tíma, sem Framsfl. hefur náð því markmiði.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni, bæði hér áðan og eins í sjónvarpinu ekki alls fyrir löngu, að þær ráðstafanir, sem hann gerði 20. sept. s.l. með útgáfu brbl., sem hann leitar staðfestingar Alþ. á nú, hafi ekki rýrt kjarasamninga sjómanna, hafi ekki skert hlutaskiptareglur þær, sem um hefur verið samið. Þetta er skoðun hæstv. ráðh. Sjómenn hafa sínar skoðanir á þessu máli. Í viðtali við dagblaðið Þjóðviljann skömmu eftir að ráðh. tilkynnti um þessar ráðstafanir sagði Jón Sigurðsson, formaður Sjómannasambands Íslands, svo með leyfi forseta:

„Lögin skerða verulega kjör togarasjómanna og þeirra sjómanna, sem eru svo heppnir að vera á bátum, sem afla meira en sem nemur kauptryggingu, en kauptrygging háseta á bátum er aðeins 51 þús. kr. á mánuði í grunn. Vinnuskylda þeirra er svo frá 12 og upp í 18 stundir á sólarhring og ef ekkert verður að gert af hálfu samtaka sjómanna vegna þessara laga, þá verður aðeins um kauptryggingu að ræða á mun fleiri bátum en verið hefur, en lögin skerða fyrst og fremst hlut fiskimanna. Þess vegna er einsýnt, að hækka verður kauptrygginguna verulega frá því sem nú er.“

Þetta sagði forseti Sjómannasambands Íslands. Og 9. þing Sjómannasambands Íslands, sem haldið var nokkru siðar, tók í sama streng. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Þingið mótmælir harðlega þeim brbl., er sett voru 20. sept. s.l., þar sem ráðin voru tekin af Verðlagsráði sjávarútvegsins með því að ákveða, að fiskverð mætti ekki hækka meira en um 11% þrátt fyrir það að fiskverð hafi staðið í stað síðan í jan. s.l. Jafnframt mótmælir þingið harðlega þeim skerðingum á hlut fiskimanna, er framkvæmdar voru með nefndum brbl., þar sem hækkuð var gjaldtaka í Stofnfjársjóð fiskiskipa og að auki tekið nýtt gjald í svonefndan olíusjóð, en hækkunin á gjaldinu í Stofnfjársjóð og hið nýja olíugjald nemur um 9–11,5% til tekjurýrnunar fyrir sjómenn.“

Þetta er álit 9. þings Sjómannasambands Íslands á ráðstöfunum, sem hæstv. sjútvrh. segir hér og annars staðar að skerði ekki umsamin kjör sjómanna. Það sem er verið að gera með þessum ráðstöfunum er einfaldlega það að færa til gríðarlega mikla fjármuni innan einnar atvinnugreinar. Það er verið að færa til gríðarmikla fjármuni innan sjávarútvegsins, frá launþegunum til atvinnurekendanna. Það má deila um, hversu há þessi upphæð er. Sjómenn telja sjálfir, að hún nemi 1800 millj. kr.

Það er einkennandi fyrir ráðstafanir hæstv. ríkisstj., að þær fela ekki í sér neina utanaðkomandi aðstoð til sjávarútvegsins, heldur aðgerðir, sem miðast við að flytja fé frá launþegunum í þessum atvinnurekstri yfir til atvinnurekendanna, því að hver er sú utanaðkomandi aðstoð, sem verið er að færa að sjávarútveginum og fyrirtækjum hans í þessu frv. Það er hvergi frá henni greint. Þetta er einfaldlega frv. um tilfærslu á fé innan einnar atvinnugreinar, frá launþegunum, sem hirða sin laun í þessum atvinnuvegi, og yfirtilfyrirtækjanna.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. lýsti hér áðan, að afkoma í sjávarútvegi var mjög örðug og slæm, þegar hann tók við, og það öfundar hann enginn maður, ekki einu sinni stjórnarandstæðingur eins og ég, af því erfiða verkefni sem hann hefur við að glíma. En hann hefur tekið það fram, bæði í ræðu sinni hér og annars staðar, að hagur útgerðarinnar, þ.e.a.s. hagur atvinnurekendanna í útgerð og fiskvinnslu muni batna um þetta og þetta mikið eða réttara sagt hallinn á þeirra rekstri muni minnka um þetta og þetta mikið þegar þessar ráðstafanir hafa verið gerðar. En einhver verður væntanlega að borga fyrir það. Og ef það er ekki sótt út fyrir atvinnugreinina, eins og ekki er hægt að halda fram að gert sé með þessu frv., hver er það þá sem greiðir? Hver er það, sem borgar þennan halla, sem verið er að jafna fyrir útgerðarmenn og aðra atvinnurekendur í sjávarútvegi? Auðvitað getur það þá ekki verið annar aðili en sá, sem þeir borga launin, þ.e.a.s. launþegar í útveginum. Svo er alveg fáránlegt að heyra því haldið fram hér og annars staðar, að með þessum ráðstöfunum sé ekki verið að skerða kjör sjómanna og annarra launþega.

Það er mjög einkennandi við íslenskan atvinnurekstur og þá einkum og sér í lagi í sjávarútvegi, hversu lítið eigið fé er bundið í þessum fyrirtækjum. Það má segja, að fyrirtækin séu keypt meira eða minna fyrir fé almennings. Þau eru rekin meira eða minna með styrkjum úr sjóðum, sem almenningur borgar í, og þegar reksturinn skilar ekki lengur þeim arði, sem eigendurnir vonast eftir, þá er gengið á hlut launþeganna í þessum atvinnuvegi og þeir látnir borga brúsann.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni hér áðan, að það hafi verið hafnar mjög nákvæmar athuganir og útreikningar á afkomu einstakra atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi. Ég vildi gjarnan spyrja ráðh. að því, hvort víð megum eiga von á því, sem sitjum í sjútvn. þessarar hv. d., að fá þessa útreikninga til athugunar, þegar við förum að fjalla um það mál, sem hér er um að ræða, einfaldlega vegna þess að mér býður það mjög í grun, að afkoma hinna einstöku fyrirtækja í sjávarútvegi sé ákaflega misjöfn, það séu e.t.v. ekki öll útgerðarfyrirtækin og allar fiskvinnslustöðvarnar, sem hafi ástæðu til þess að kvarta jafnmikið yfir slæmri afkomu og hæstv. ríkisstj. hefur gert fyrir hönd atvinnugreinarinnar. Það er að sjálfsögðu krafa þm., sem ætlast er til að samþykki ráðstafanir um að leggja stórkostlegar byrðar á bök launþega í einni atvinnugrein til þess að bjarga afkomu fyrirtækja í þessari grein, að þm. fái þá fyrst að sjá sem nákvæmasta skýrslu og sem nákvæmasta útreikninga á því, hvort þess sé virkilega þörf, — ekki að styrkja atvinnuveginn í heild um svo mikið fé, — heldur hvort þess sé virkilega þörf að styrkja hvern einn og einasta aðila, sem að atvinnurekstrinum stendur, um svo mikla fjármuni sem hér er um að ræða eða hvort ástæðan kunni e.t.v. að vera sú fyrir þessu mikla tapi, sem verið er að tala um að sé á þessari atvinnugrein, að sumir, sem stundi atvinnustarfsemi þar, kunni að reka fyrirtækið vel, en aðrir kunni ekki að reka fyrirtæki sín nema illa.

Hæstv. ráðh. sagði enn fremur og viðurkenndi í ræðu sinni áðan, að þær ráðstafanir, sem hér væru gerðar, mundu koma ákaflega misjafnt niður á mönnum, þ.e.a.s. geta manna til að gangast undir þær væri ákaflega misjöfn. Hann talaði um, að það þyrfti kannske ekki að vorkenna sjómönnum á skuttogurum, en þeim mun meiri ástæða væri til að vorkenna sjómönnum á bátaflotanum, þeir ættu e.t.v. erfiðara með að sætta sig við þá kjaraskerðingu, sem í þessu máli felst. En ef hæstv. ráðh. er þeirrar skoðunar að aðstaða manna til þess að axla þær byrðar, sem hann ætlar á þá að leggja, sé misjöfn, hvers vegna beitir hann þá ekki einhverjum aðferðum til þess að bæta úr því misrétti, sem hann er að tala um að eigi sér stað innan atvinnugreinarinnar, og kemur í veg fyrir að fólk, sem er illa statt í atvinnugreininni, þurfi að taka á sig hlutfallslega jafnmiklar byrðar og fólk, sem hann telur sjálfur að sé nokkuð vel statt og enginn þurfi að vorkenna? Ef þessi skoðun hans er rétt, hvers vegna hegðar þá hæstv. ráðh. sér ekki í samræmi við hana og hlífir þeim, sem hann telur ástæðu til að hlífa, en leggur byrðarnar á bök hinna, sem hann telur að líklegt sé að hafi meiri getu til þess að þola það?

Í 1. gr. þessa frv., sem hér hefur verið lagt fram, er rætt um að binda hækkun almenns fiskverðs við 11%, eins og raunar hefur þegar verið gert með brbl. Þegar þessi ákvörðun var tekin af hæstv. ráðh., að gefa út brbl. um þetta efni, var verið að reyna í Verðlagsráði sjávarútvegsins að ná samkomulagi um fiskverðshækkun. Hvers vegna mátti ekki reyna það til þrautar, áður en ríkisstj. grípur inn í og ákveður upp á eigin spýtur, hve mikil þessi hækkun megi verða? Hvers vegna var þá ekki fyrst reynt að sjá til, hvort samkomulag gæti ekki tekist af þeim aðilum, sem eiga um þetta mál að fjalla? Og gerir ríkisstj. sér grein fyrir því, hvað hún setur hættulegt fordæmi með svona einhliða ráðstöfunum? Þetta mál varðar beinlínis kjarasamninga einnar stéttar í landinu, sjómannastéttarinnar, vegna þess að hluta sinnar kauphækkunar getur hún fengið með fiskverðshækkun. Það er verið að reyna að ná samkomulagi um þetta mál, þegar ríkisstj. grípur inn í og leggur línuna upp á sitt eigið eindæmi. Og má þá vænta þess, að ef aðrir launþegar í landinu reyna í frjálsum kjarasamningum við atvinnurekendur að ná fram kauphækkun, þá megi þeir eiga von á því að fá frá ríkisstj. brbl. eða lagafrv. á Alþ., eftir því á hvaða árstíma setið er víð samningaborðið, þar sem segir, að þess skuli gætt, að hækkun almenns kaupgjalds í landinu verði að meðaltali ekki meira en 11%, 10%, 9%, eftir því hvernig stendur í bólið hjá ráðh. i það og það skiptið. Það er verið að setja þess konar fordæmi með þessari grein. Það var algerlega þarflaust af ríkisstj. að grípa til þessarar ráðstöfunar, einfaldlega vegna þess að það var enn ekki útséð um það, þegar brbl. voru gefin út, hvort ekki næðist samkomulag í Verðlagsráðinu um fiskverðshækkun sem bæði fiskkaupendur og fiskseljendur gætu sætt sig við.

Það er svo auðvitað alger fjarstæða að halda því fram, að 2. gr. í þessu frv. hafi engin áhrif á kjarasamninga sjómanna. Það er slík fjarstæða, að mér dettur ekki í lifandi hug, að hæstv. ráðh, trúi því sjálfur. Þarna er ákveðið að taka 15% af óskiptu fiskverði í stað 10% áður, sem renna eigi til Stofnfjársjóðs fiskiskipa. Ég er sannfærður um það, að þegar hæstv. ráðh. ákvað að beita sér fyrir lagasetningu um þetta efni gerði hann sér grein fyrir því, að hann væri þarna að ráðast að kjörum sjómannastéttarinnar. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, hvert álit sjómanna sjálfra er á þessu máli.

Ég ætla ekki að fara ítarlega í efni þessa frv., þar sem mér mun gefast tækifæri til þess í þeirri n. þessarar hv. d., sem ég á sæti í og fá mun málið til athugunar, en ég ætla aðeins að vekja athygli á einu atriði og það er það, hversu vafasamur grundvöllur er undir ýmsum ákvæðum, sem í þessu frv. koma fram.

Í 4. gr. er t.d. sagt í b-lið, að af fob-verði útflutts saltfisks og skreiðar skuli taka 5.5% útflutningsgjald á sama tíma og tekið er 4% útflutningsgjald af fob-verði annarra sjávarafurða. Nú er ég sannfærður um, að hæstv. sjútvrh. er það mætavel kunnugt, að einmitt varðandi þessar tvær afurðir, saltfisk og skreið, eru horfur nú á erlendum mörkuðum ákaflega alvarlegar. Ýmsir mikilvægustu markaðir okkar fyrir þessar vörur eru í hættu. Við vitum t.d., að það er mjög óvíst, hver niðurstaðan verður á þeim mörkuðum, sem við höfum haft fyrir þessar afurðir í sunnanverðri Evrópu, og í öðrum löndum, t.d. í Suður-Ameríku, keppast ýmsir keppinautar okkar, eins og Norðmenn, við að undirbjóða hver annan og horfir ákaflega þunglega um sölu saltfisks og skreiðar. Og hræddur er ég um það, að í staðinn fyrir að taka meira gjald af þessum útflutningsafurðum en öðrum, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., kunni ríkisstj. að verða að horfast í auga við að þurfa e.t.v. að taka fé annars staðar frá til þess að greiða uppbætur eða aðstoð til þeirra, sem standa fyrir verkun eða sölu þessara afurða. Og ég er alveg sannfærður um það, að sjútvrh. er þessi þróun mjög vel kunn.

Það er nú einu sinni svo, að í upphafi skyldi endirinn skoða. Núv. hæstv. ríkisstj. starfar ekki eftir þessari reglu. Hún hefur ekki gert það á þeim skamma tíma sem hún hefur starfað. Og hún hefur ekki gert það með því máli, sem hún hefur lagt hér fram, vegna þess að hverjar hafa afleiðingarnar af svona afskiptum orðið og hverjar munu þær verða? Afleiðingarnar hafa orðið þær, að sjómannasamtökin í landinu hafa sagt upp kjarasamningum og búa sig til átaka. Afleiðingarnar geta orðið þær, að ríkisstj. muni á næstu mánuðum og næstu missirum eiga í stöðugri styrjöld við verkalýðshreyfinguna í landinu, sem lítur á svona aðgerðir sem beina ögrun við sig og beinan fjandskap við sig. Hættan er líka sú, að þegar upp verður staðið og ef ríkisstj. e.t.v. tekst að knýja þennan vilja sinn í gegn, þá muni reynast erfitt fyrir útvegsmenn á Íslandi að manna fiskiskipastól sinn, þegar búið er að gera kjör sjómanna þannig úr garði, að sennilega eru þeir orðnir einhver tekjulægsta stéttin, sem við þær aðstæður, sem fyrir hendi eru, þegar sífellt stærri hluti sjómannanna getur ekki aflað nema rétt fyrir kauptryggingu, sem er í dag í kringum 58 þús. kr. á mánuði fyrir 12 –18 klst. vinna á sólarhring. Ég býst við, að ekki séu mörgum stéttum í landi boðin slík kjör fyrir svo langan vinnudag. Og hæstv. ríkisstj. gerir sér e.t.v. ekki grein fyrir því, hvað það getur þýtt fyrir afkomu útgerðarinnar og þar með afkomu þjóðarbúsins að ætla að bjóða sjómönnum upp á slík býti.