16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

1. mál, fjárlög 1975

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil freista þess að koma á framfæri hér örfáum aths. við þetta frv. eins og það er nú.

Í aths. meiri hl. kemur fram að fjvn. hefur ekki haft tíma til að skoða raforkumálin og mun það bíða til 3. umr. Engu að síður vil ég leyfa mér að gera nokkrar aths. einmitt við raforkumálin í þeirri von að það verði tekið til greina fyrir 3. umr.

Ég held að við séum allir sammála um það, þm., að á sviði raforkumála þarf að gera ákaflega mikið átak. Við höfum keppst um það hér í þingsölum að lýsa mikilvægi þeirra mála, nauðsyn þess að virkja okkar fallvötn til upphitunar okkar húsnæðis, nauðsyn þess að leggja byggðalinu, dreifa raforku um landið o.s.frv. Mér sýnist því með tilliti til þessa nokkuð alvarlega stefna með fjárveitingar á þessu mikilvæga sviði.

Við Orkustofnun er að vísu hækkun sem nemur 32 millj. kr. í 274 millj. rúmar, en ég hygg að allir muni sjá að sú hækkun nemur ekki verðhækkun á þessu eina ári, langt frá því. Þó verður þetta að sumu leyti alvarlegra, sýnist mér, þegar litið er á sundurliðun sem að vísu kemur ekki fram í þessu fjárlagafrv., en ég hef aflað mér upplýsinga um. Til vatnsvirkjunarrannsókna var farið fram á 138.8 millj. kr., en í meðferð fjárlagastofnunar var það skorið niður í 105.9 millj. kr. Í þessu sambandi er m.a. skorinn niður liður sem var til rannsókna á vatnsvirkjun á Vestfjörðum úr 9.84 millj. kr., sem ekki getur talist há upphæð, niður í 3.22 millj. kr. Ég held að það sé alveg ljóst og þurfi ekki að fara um það mörgum orðum, að ákaflega litlar rannsóknir verða framkvæmdar fyrir 3 millj. kr. á svæði eins og Vestfjörðum.

Ég ætla ekki að fara að flytja hér langa ræðu um raforkumál Vestfjarða. Hér hafa þm. keppst við að lýsa ástandi í hinum ýmsu landshlutum. Ég hygg að við þm. Vestfjarða getum farið svipuðum orðum um ástandið þar. Þar kemur ný virkjun í gagnið, Mjólká, á næsta ári eða í lok næsta árs vonandi, en hún gerir ekki meira en að fullnægja þeirri þörf sem þegar er orðin og fullnægt er nú á heldur slakan máta, vil ég leyfa mér að segja, með dísilvélum og fullnægir á engan máta vaxandi þörf fyrir upphitun. Þar er leitað að frekari lausn þessara mála. Verið er að skoða virkjunarmöguleika vítt og breitt og einnig þann möguleika, að tengja landshlutann væntanlegri byggðalínu. Þessar rannsóknir verða með engu móti framkvæmdar fyrir 3 millj. kr., það er alveg ljóst.

Ég get einnig nefnt það, til fróðleiks að áætlað var til rannsókna í Skagafirði, jökulsánum þar, 5.56 millj. kr. Þar eru einkum tveir virkjunarstaðir sem verið er að athuga. Þetta var skorið niður í 2 millj. kr. Þarna er svipaða sögu að segja. Er fjárlagastofnunin með þessu að marka aðra stefnu í raforkumálum en mér sýnist greinilega koma fram hér á Alþ.? Því þarf að svara áður en fjárlagafrv. er afgr.

Á síðasta ári var varið til vatnsvirkjunarrannsókna 89.3 millj. kr. Þær hækka nú upp í 105.9 millj. kr. Hækkunin er ákaflega lítil og að mínu viti fullnægir hvergi nærri þeirri gífurlegu þörf sem ég hef farið um örfáum orðum. Við alþm. verðum sannarlega að taka afstöðu til þessarar stefnumörkunar áður en frv. til fjárl. er afgr.

Svipað má segja um jarðhitarannsóknir. Á yfirstandandi ári var varið 119.5 millj. kr. til þeirra. Farið var fram á 155.2 millj., en gert er ráð fyrir t frv. 119.2. Þess má geta, að rannsóknir á Þeistareykjum eru algjörlega skornar niður úr 19 millj. í ekkert og Kröflurannsóknir úr 19.4 í 14 millj. kr. Vel má vera að fresta megi athugun á Þeistareykjum, en ég hygg að ekki verði frestað eða dregið úr rannsóknum á Kröflu vegna þeirrar virkjunar sem þar er fram undan og stefnt er að tilbúin verði a.m.k. ein vél„ ef ekki fleiri, 1978. Á því er mjög brýn nauðsyn, á því leikur enginn vafi.

Svipaða sögu má segja um Rafmagnsveitur ríkisins. Þar eru ætlaðar til framkvæmda 680 millj. kr., af því er lántaka 660, en ég hygg, að farið hafi verið fram á um það bil 1 milljarð umfram það sem þarna er. Vel má vera að eitthvað megi lækka upphaflegar áætlanir. En ef litið er á það sem hefur komið fram í skýrslum til Alþ., t.d. um að styrkja dreifilínur um landið til þess að koma raforkunni til upphitunar, sem við viljum gera eins fljótt og unnt er, þá er vafalaust að þarna er þörfin gífurlega mikil. Ég vil eindregið leggja til að þetta verði endurskoðað og meiri lánsheimild veitt til þess að vinna megi ötullega að þessum mikilvægu málum. Ýmislegt mætti segja um áætlanir Rafmagnsveitna ríkisins, en ég mun nú ekki lengja umr. hér um of. En þó vil ég geta þess að í áætlunum Rafmagnsveitna ríkisins er gert ráð fyrir því að veita 93.7 millj. kr. til þess að ljúka Mjólká II og er þetta í frv. Hins vegar var jafnframt gert ráð fyrir því að miðla lítilli á yfir til Mjólkár I, en Mjólká í missir að verulegu leyti sitt vatn þegar Mjólká II kemst í gagnið. Það er nauðsynlegt, hjá því verður ekki komist, að sjá Mjólká í fyrir vatni, og sýnist mér að ekki sé gert ráð fyrir þeirri framkvæmd. Hún er nauðsynleg ef Mjólká II á að koma að þeim notum sem til er ætlast. Fleiri munu slík dæmi sem ég ætla ekki að rekja hér.

Ég geri mér grein fyrir því að til raforkumála þarf ákaflega mikið fjármagn og mjög miklu meira en gert er ráð fyrir í frv. Ég vil eindregið beina því til fjvn., að hún skoði þetta mál, og raunar ekki síður til ríkisstj., því að ég hygg að þar þurfi ríkisstj. sjálf að taka um ákvörðun.

Ég vil að lokum geta þess að ég er eindreginn stuðningsmaður þeirrar till., sem kemur fram á þskj. 153 um fjárveitingu til malbikunar að hluta á Ísafjarðarflugvelli. Þessu hefur verið lofað árum saman og sá dráttur sem orðið hefur á þessari framkvæmd hefur verið afsakaður með því að ekki væru til tæki til að framkvæma þetta. Nú eru tækin á staðnum og ég get ekki séð nokkra skynsemi í því að fresta nú þessari framkvæmd. Tækin verða þar á næsta sumri, síðan ekki nokkur ár, og verður að mínu viti ekki hjá því komist að gera þetta nú. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. samgrh., en vildi gjarnan fá að vita hjá honum nánar, áður en fjárlagafrv. er afgr., á hvern máta hann hugsar sér að leysa þetta mál.

Fyrst ég er staðinn upp get ég ekki annað en vakið athygli á aths. um fjárveitingu til landgrunnsrannsókna. Er ákaflega fróðlegt að lesa þá aths. Þar segir ósköp einfaldlega: „Landgrunnsrannsóknum er lokið.“ Ég hafði ekki heyrt þetta fyrr en ég sá fjárlagafrv., og kemur þar enn fram stefnumörkun hjá fjárlagastofnun sem þeir, sem að rannsóknum vinna, hafa ekki minnstu hugmynd um. Landgrunnsrannsóknir eru að hefjast, þeim er ekki lokið. Það er aðeins verið að ljúka fyrsta áfanga. En því virðist þetta sett þarna fram, að hagsýslustofnunin skar burt 5 millj. til landgrunnsrannsókna, sem menntmrn. lagði til að veittar yrðu, og skýrir það með því að landgrunnsrannsóknunum sé lokið, svo einfalt er málið. Ég vil eindregið leggja til, eins og ég hef farið fram á við fjvn., að þetta verði tekið inn, þannig að landgrunnsrannsóknum verði áfram haldið. Það þarf að endurskoða skipulag þeirra og það er í gangi. En ef þetta fellur niður kemur í eyða sem getur orðið til tjóns. í þessum rannsóknum, sem nú eru í gangi, er m.a. verið að undirbúa kortlagningu af hafsbotninum, sem við eigum enga. Ef við þurfum að leita að slíkum kortum verður að fara til þjóðverja og breta, en slík kort eru ákaflega mikilvæg fyrir fiskveiðar okkar íslendinga.

Ég vil einnig nota tækifærið og geta þess að ég hef lagt til við fjvn. að framlag til byggingasjóðs rannsóknastofnana í þágu atvinnuveganna verði hækkað um sem nemur 5.2 millj. kr. Fjárveiting til byggingar Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins var áætluð 26.8 millj. kr. í s.l. júní. Nú er þetta allt orðið hækkað og er áætlað nú 32 millj. kr. Það er til einskis að veita ekki fulla fjárveitingu. Það eru allir sammála um að ljúka beri við þessa byggingu, og til þess þarf, eins og ástatt er í dag, 32 millj. kr.