16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

1. mál, fjárlög 1975

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ræða sú, sem hæstv. fjmrh. flutti hér í kvöld, gefur ekki mikið tilefni til andsvara, því að hún var æðirýr og efnislítil. Hæstv. ráðh. kvartaði yfir því, að vakin væri athygli á að liðirnir önnur rekstrargjöld í fjárlagafrv. hækkuðu um 65.7% eftir að tiltekin atriði hafa þó verið dregin frá, og fór síðan að rekja til skýringar á þessari hækkun annarra rekstrargjalda ýmsar hækkanir sem erfitt hefði verið að komast hjá, svo sem niðurgreiðslur, laun og tryggingabætur. Engin þessara útgjalda, sem hann nefndi, falla undir liðinn önnur rekstrargjöld. Hæstv. ráðh. virðist því ekkert botna í því hvernig uppsetningu er háttað í því fjárlagafrv. sem hann leggur fram. Hann fimbulfambaði þannig um liði sem ekkert koma við þeirri hækkun sem orðið hefur á öðrum rekstrargjöldum, en þau hækka umfram almennt verðlag í landinu.

Þá kom það fram hjá hæstv. ráðh. að hann telur fyrir sitt leyti engan mun á því, hvort fjárlög hækka annars vegar vegna hækkaðra rekstrargjalda eða hins vegar vegna aukinna fjárveitinga til verklegra framkvæmda. Hann taldi að þm.þyrftu ekki að setja það svo mikið fyrir sig þótt önnur rekstrargjöld hækkuðu, því að framlög til verklegra framkvæmda lækkuðu í staðinn, og taldi það mikla mótsögn þegar deilt væri á hækkun rekstrarliða, en fundið jafnframt að lækkun fjárveitinga til verklegra framkvæmda. Ég hélt nú að hæstv. ráðh. þyrfti lengri setu í stól fjmrh. til að verða svo steinrunninn gagnvart tölum í fjárlagafrv., að hann geri engan mun á því hvað á bak við þær liggur. Ég get hins vegar fullvissað hann um að skoðun líklega allra hv. þm. annarra en hans er án efa sú að eftirsóknarvert sé að halda niðri rekstrarliðum til þess að geta í staðinn veitt meira fé til verklegra framkvæmda. Hjá hæstv, ráðh. hefur þetta hins vegar í verki reynst öfugt, rekstrargjöldin hafa hækkað, en framlögin til verklegra framkvæmda hafa lækkað. Það versta er þó að mínum dómi, að nú er komið í ljós að hæstv. ráðh. gerir hér engan greinarmun á. Það er að hans dómi jafn eftirsóknarvert að lækka framkvæmdaliði og rekstrarliðina, og ef framkvæmdaliðirnir lækka, þá gerir ekki svo mikið til þótt rekstrarliðirnir hækki. Þetta eru nýjar kenningar á Alþ.

Það var helst á hæstv. ráðh. að heyra, að það væri ég eða einhverjir aðrir þm. stjórnarandstöðunnar sem hefðu lagt til að rekstrarútgjöld ríkisins yrðu skorin niður í einu vetfangi um þúsundir millj. kr. Ég hef aldrei ímyndað mér að unnt væri að koma að sparnaði með þeim hætti, hvað þá að það væri auðvelt. Ég hef lýst skoðun minni í því efni, bæði í stjórnarandstöðu og í stjórnaraðstöðu, og nú síðast í ræðu minni áðan. Nei, það var annar þm. sem flutti frv. um að þetta yrði gert. Sá hv. þm., sem það gerði, sem lagði til að útgjöld ríkisins yrðu skorin niður um sem svarar 6000 millj. kr. á næsta ári, en leggur nú til að ríkisútgjöld verði aukin um 11–12 þús. millj. kr. frá útgjöldum þessa árs, hann hefur verið spurður að því hvernig hann hafi ætlað að gera þetta og hvers vegna hann geri það ekki nú, fyrst það var svona auðvelt í fyrra. Hann hefur að sjálfsögðu engu getað svarað.

En aðalástæðan til þess, að ég tek hér til máls aftur, eru þau orð sem hæstv. ráðh. lét falla um hafnamál. Hann sagði eitthvað sem svo: Fyrst málum hafnarsjóða er svo illa komið sem raun ber vitni, sýnir það þá ekki hversu illa vinstri stjórnin lék þessa aðila? Vissulega er hagur margra og of margra hafnarsjóða bágur, það rakti ég í ræðu minni hér áðan. En hann er ekki bágur vegna aðgerða vinstri stjórnarinnar, heldur þrátt fyrir þær miklu úrbætur sem sú stjórn kom fram í hafnamálum. Úrbætur vinstri stjórnarinnar dugðu ekki til, enda sat hún aðeins í 3 ár, — þær dugðu ekki til að bæta að fullu úr því neyðarástandi sem ríkti í þessum málum eftir nær 12 ára setu viðreisnarstjórnarinnar.

Í tíð viðreisnarstjórnarinnar var látið nægja að ríkið greiddi 40% allra innri hafnarmannvirkja. Hafnabótasjóður fékk svo til engar fjárveitingar og var alls ómegnugur að aðstoða hafnarsjóðina. Hafnarsjóðir voru látnir taka erlend lán sem stórhækkuðu með sífelldum gengislækkunum viðreisnarstjórnarinnar og voru og eru að sliga marga hafnarsjóði. Þau eru að lama getu þeirra til að standa undir þeirra hlut í kostnaði við nýjar framkvæmdir. Vinstri stjórnin setti hins vegar ný hafnalög, sem fólu það m.a. í sér að ríkið greiðir 75% allra hafnarframkvæmda og í vissum tilfellum er heimilt að til viðbótar komi framlög úr Hafnabótasjóði 15%, eða samtals 90%. Lögin fólu enn fremur í sér stóreflingu Hafnabótasjóðs frá því sem áður var, þar sem sjóðurinn hlýtur nú sjálfkrafa upphæð á fjárl., sem hverju sinni svarar til 12% af fjárveitingum til almennra hafnarframkvæmda. Fjárveitingar til hafnarframkvæmda voru stórhækkaðar í tíð vinstri stjórnarinnar. Hafnarsjóðir þurftu ekki á því tímabili að taka lán með gengisáhættu. Og með sérstöku heimildarákvæði í fjárl. hefur verið veitt sérstök fyrirgreiðsla til hafnarsjóða sem nemur tugum millj. kr.

En þessar aðgerðir vinstri stjórnarinnar til að bæta úr ófremdarástandi, sem ríkti eftir viðreisnarstjórnina, eru vissulega ekki nægar. Ég er ekki að komast á þá skoðun nú vegna þess að ég er í stjórnarandstöðu. Ég lýsti t.d. þessari skoðun minni sérstaklega við afgreiðslu fjárlaga í fyrra. En það er öðru nær en að hægri stjórnin, sem nú situr, ætli að halda áfram umbótastarfi vinstri stjórnarinnar í þessu efni fremur en öðrum. Það, sem nú er að gerast, er þetta: Framlög til hafnarframkvæmda lækka að raungildi um 24% rúm. Ekkert hefur verið veitt úr Hafnabótasjóði í ár þótt kominn sé 16. des. Hæstv. samgrh. tilkynnti áðan að nú væri búið að senda bréf til fjvn. um veitingar úr Hafnabótasjóði. Ég veit ekki hvenær á að afgreiða það, kannske á annan í jólum eða svo, það verður naumast gert nú, þegar fjvn. er algerlega upptekin við að afgreiða fjárl. til 3. umr. Og þeir, sem nú ráða, hafa lýst því opinberlega yfir að eftir að ríkissjóður greiðir nú 75% kostnaðar við hafnarmannvirkin eigi sveitarfélögin að geta séð sjálf um sinn hlut upp á eigin spýtur. Ég lýsti því hér áðan hve gífurleg byrði sá fjórðungur kostnaðar getur verið litlum sveitarfélögum. Þessi afstaða þeirra, sem nú ráða málum, er áfall fyrir hafnarsjóði í landinu og ill tíðindi fyrir fólk í sjávarplássum um allt land. Ég tel. að hafnamálin séu ein hin allra mikilverðustu, sem ákvarðanir eru teknar um við afgreiðslu fjárl., og ég harma það því alveg sérstaklega að hæstv. núv. ríkisstj. skuli vera farin að stiga til baka þau skref sem vinstri stjórnin steig fram á við í þessum málum.