16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

1. mál, fjárlög 1975

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Þm. Reykv. hafa ekki tafið þessar umr. mikið í kvöld með brtt. við framlögð drög að fjárl. höfuðborginni til handa. Óskalisti annarra hv. þm. hefur haft meira rúm hér í umr., bæði í dag og í kvöld.

Ég mun ekki ræða einstaka liði frv. né brtt., sem fram hafa komið, nema að litlu leyti. Það, sem kemur mér til að standa upp, eru eiginlega ummæli hv. 7. landsk. þm., Helga F. Seljans. Ég get gjarnan tekið undir hans málflutning, þar sem hann kemur með brtt. um að veita ungtemplurum ákveðna fyrirgreiðslu og fötluðum og lömuðum á Austurlandi. Það væri ósamræmi í mínum vinnubrögðum ef ég gerði það ekki. Ég er nýbúinn að samþykkja slíka styrki í borgarstjórn Reykjavíkur, og ég trúi ekki að hv. fjvn. taki verr í þessar till. þessa hv. þm. en borgarstjórn. Þótt upphæðirnar séu ekki háar, eins og hann tók fram, þá munar um þær í starfsemi þessara aðila.

En hv. 7. landsk. þm. minntist á annað í sinni ræðu og benti réttilega á það, að þeir austfirðingar hefðu ekki fulltrúa í hv. fjvn. og þar af leiðandi varð hann að leggja örlög þeirra í hendur þeirra fjvn.-manna. Ég vil á sama hátt benda á það, að Reykjavík hefur ekki fulltrúa í fjvn., og ég leyfi mér að láta í ljós áhyggjur mínar vegna þess hve fjárframlög til framkvæmda í Reykjavík verða útundan. Ég hafði hugsað mér að lesa hér bréf sem borgarstjóri hefur skrifað formanni fjvn., en hætti nú við það. Ég er líka með annað bréf frá borgarlækni, þar sem hann kvartar undan því að hann hafi ekki haft aðgang að þeim upplýsingum sem hann þurfti að fá frá fjvn. til þess að geta gert raunhæfar áætlanir, eða kröfur skulum við segja, eða óskir. En það skýrir e.t.v. hve oft er horft fram hjá brýnustu nauðsynjum höfuðborgarinnar og að jafnvel lögboðnar greiðslur til hennar dragast oft á langinn. Ég vil ekki lengja þennan fund með því að vitna í eða lesa upp úr þessum bréfum, sem ég tiltók áðan, en er með þau hér ef óskað er að ég geri það máli mínu til sönnunar, bæði um drátt á lögboðnum greiðslum til Reykjavíkurborgar og eins vöntun á skilningi á þörfum höfuðborgarinnar, bæði í tíð fyrrv. ríkisstj. og eins nú.

Ég hafði tal af hv. form. fjvn. fyrir nokkru og óskaði eftir því, að hann tæki sérstaklega undir óskir borgaryfirvalda um myndarlegt framlag til byggingar B-álmu borgarsjúkrahússins. Ég hafði jafnvel hugsað mér að bera fram brtt. við framlögð drög að fjárl. En þar sem hv. þm. Sverrir Bergmann hefur gert það, leyfi ég mér að lýsa stuðningi mínum við fram komna brtt. hans, þótt sú hækkun á líð 143,55.a um 33 millj. kr. hækkun, eða úr 597.8 millj. samtals til heilbrigðismála upp í 630.8 millj., sé lægri en brtt. mín hefði hljóðað upp á. Vona ég að hún finni náð fyrir augum hv. fjvn.- manna, um leið og ég endurtek, að ég harma að ekki skuli vera pláss í hv. fjvn. fyrir einn þm. Reykv., en í þeirri n. hefur fulltrúi höfuðborgarinnar ekki setið um langt árabil, eftir því sem mér er tjáð. Við verðum að treysta á það á sama hátt og hv. 7. landsk. þm., Helgi F. Seljan, kom að, að fjvn.- menn séu vel inni í vandamálum höfuðborgarinnar, — vandamálum, sem eru vandamál þjóðarinnar, því að ef við tökum Borgarsjúkrahúsið sem dæmi hýsir það ekki eingöngu reykvíkinga.

Annars er það annað mál — með leyfi hæstv. forseta, sem er skylt fjárlagagerðinni, sem ég vil koma að hér. Það er ekki víst, ég bið afsökunar ef það á ekki heima í þessum umr., en ég ætla þó að koma að því, því að einhvers staðar hlýtur það að eiga heima við gerð fjárl., en það gæti hugsast að það væri þá frekar við 3. umr. En þar sem ég er ekki kunnugur fjárlagagerð og tek nú þátt í afgreiðslu þeirra í fyrsta skipti, þá leyfi ég mér að koma að því máli. Það væri gott að fá upplýst frá einhverjum úr hæstv. ríkisstj. hvort tekið verði tillit til áskorunar sem borgarstjórn sendi til hæstv. ríkisstj. á s.l. ári og varðar innheimtu opinberra gjalda. Það hlýtur að vera liður í gerð fjárl. Vitað er, að launþegar fá afhent launaumslög sín tóm eða svo til í útborgun launa og komast stundum niður í 9 kr. Mismunurinn er þá kvittun fyrir innheimtu launagreiðenda á opinberum gjöldum. Erindi borgarstjórnar var það að breyting yrði á innheimtu opinberra gjalda þannig, að aldrei megi taka það mikið af launþega á útborgunardegi að ekki sé lífvænlegt fyrir viðkomandi milli launagreiðsludaga. Án þess að ætlast til svars á þessum þingfundi vildi ég vita hvort við gerð fjárlagafrv. 1975 hafi þessi áskorun borgarstjórnar verið tekin til greina, þannig að innheimta og fjárstreymi til ríkissjóðs og sveitarfélaga breytist í samræmi við þessar ábendingar. Ég lít á það sem þýðingarmikla breytingu, ef hægt er að koma í veg fyrir það að nokkur launþegi fái tómt launaumslag einungis vegna þess að innheimtukerfi hins opinbera er ábótavant í skipulagi á þessu sviði. Og rétt tel ég að draga athygli réttra aðila að vandamáli þessu nú við gerð fjárl., í von um að það verði til þess að athugun verði látin fara fram til úrbóta fyrir fólkið. Ég er ekki ánægður með hlut Reykjavíkur í þessu fjárlagafrv. og beini þeirri ósk til fjmrh. að hann upplýsi mig um það, þó ekki nú á þessum fundi, — veit ég að það er ekki hægt — en að hann geri það við 3. umr. og þá um leið hve há prósenta af innheimtugjöldum ríkisins er innheimt af reykvíkingum og hve há prósenta af þeirri upphæð fer beint til framkvæmda í höfuðborginni á móti.