17.12.1974
Efri deild: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Það mál, sem hér er á dagskrá, hefur verið nokkuð umrætt að undanförnu. Hringvegurinn svokallaði lokaðist, ef svo má að orði komast, með lúkningu vegarins yfir Skeiðarársand, og fjármuna til þess vegar var aflað með happdrættislánum. Þessi fjáröflun gafst mjög vel. Þegnar þjóðarinnar voru fúsir til að kaupa happdrættisskuldabréf sem voru til sölu vegna byggingar hringvegarins, og þessi framkvæmd átti miklum vinsældum að fagna með þjóðinni. Í frv., sem hér er til umr., er gert ráð fyrir því að afla á sama hátt með sölu happdrættisskuldabréfa fjár til ákveðinna hluta af sama hringvegi, þ.e.a.s. annars vegar til vegarins frá Reykjavík norður um land til Akureyrar og hins vegar frá Reykjavík austur um land til Egilsstaða.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að við Íslendingar þurfum mjög á auknu fé að halda til vegagerðar. Ég hygg að það séu fá mál sem eru okkur jafnbrýn og eiga jafngreiðan aðgang að huga allra landsmanna eins og umbætur í vegamálum og raunar orkumálum einnig. Það er þess vegna ekki ástæða til annars en fagna því, þegar fyrirhugaðar eru stórframkvæmdir í vegamálum á borð við þær, sem hér er talað um. Vegagerð er líka eitt af því sem hefur tvímælalaust meiri áhrif á þróun byggðar heldur en flestar aðrar aðgerðir í samgöngumálum yfirleitt. Ég er fullviss þess að við getum sveigt byggðaþróunina til ákveðinnar stefnu með ákveðnum aðgerðum í samgöngumálum og vegamálum sérstaklega.

Ég vil taka það strax fram, að ég er ekki alls kostar ánægður með þetta frv. eins og það liggur fyrir. Það sem ég finn að er að á hringveginum svokallaða er skilið eftir svæðið frá Akureyri austur á Egilsstaði þegar rætt er um fjáröflun í þessu frv. Því er að vísu lýst yfir að áfram verði unnið að athugun á fjáröflun til hringvegarins alls, og ber að þakka það.

Vegurinn til Austurlands hefur til skamms tíma aðeins legið um Norðurland og austur, en nú er skyndilega opnuð önnur leið í þennan landshluta. Þetta hefur vonandi mikil og heillavænleg áhrif fyrir allar byggðir meðfram veginum frá Reykjavík og austur á land. En þessi nýi vegur getur líka leitt af sér ákveðna þróun, og það er ekkert óeðlilegt, þótt menn séu ekki allir jafnsammála um hvort sú þróun sé æskileg eða ekki. Það atriði, sem ég vil benda hér á, er að vegasambandinu frá Norðurlandi, frá Akureyri t.d. austur í Egilsstaði og austur á Austfirði, hafa fylgt mikil verslunarviðskipti milli þessara landshluta. Ég óttast að með hinum nýja vegi breytist aðstaða Norðurlands til þess að halda við þessum viðskiptum og verði lakari en verið hefur og lakari en aðstaða þéttbýlissvæðisins hér við Faxaflóa. Ég tel að vegagerðin muni stuðla að ákveðinni þróun, sem, eins og ég sagði áðan, geta verið misjafnar skoðanir um hversu æskileg þyki. Þess vegna er það, að þegar í frv. er einmitt skilinu eftir þessi hluti hringvegarins frá Akureyri austur á Egilsstaði, virðist mönnum í fljótu bragði ýmsum og er ekki óeðlilegt að menn álykti þannig, að þarna sé þessi hlekkur skilinn eftir og með því ýtt undir það að verslunarsamböndin milli Austurlands og Norðurlands breytist og verslunarviðskiptin minnki.

Ég hef ekki gert ráð fyrir að flytja að þessu sinni brtt. við þetta frv., en ég áskil mér allan rétt til að fylgja brtt. sem fram kunna að koma, og ég áskil mér fullan rétt til þess að óska eftir því, að vandlega verði hugað að því, hvort ekki er hægt að vinna að því að útvega fjármagn til þess að uppbygging þessa kafla, sem ég hef um rætt og eftir er skilinn í frv., verði ekki á eftir annarri uppbyggingu á hringveginum. Ég tel þetta mikilvægt sem byggðastefnumál. Ég tel óeðlilegt að t.d. vörur, sem framleiddar eru á Akureyri, séu fluttar helmingi lengri leið um Suðurland til Austfjarða heldur en leiðin er frá Akureyri austur, en ég tel hættu á því að verslunarviðskiptin beinist til Reykjavíkursvæðisins, ef vegurinn milli Akureyrar og Austfjarða verður lokaður langtímum saman.

Við höfum núna þessa dagana fyrir augunum gott dæmi um það, hvað samgöngur geta verið mikilvægar. Það er verið að flytja spennubreyti frá Egilsstöðum að Kópaskeri, og það þarf að fara í kringum mestallt landið til að koma honum þessa leið og hann er marga daga á leiðinni. Það er farið í meiri og minni ófærð þessa leið. En vegna þess að vegurinn á milli Egilsstaða og Kópaskers er enn lakari en aðrir hlutar hringvegarins, þá verður að fara þessa leið. Ég get ekki dæmt um það í einstökum atriðum hversu uppbygging vegar milli Akureyrar og Egilsstaða mundi duga yfir veturinn. En af þeirri þekkingu sem ég hef af uppbyggðum vegum á Norðurlandi, þá hygg ég að það sé ekki rangt að ætla að það væri hægt að halda þessum vegum opnum mestallt árið með ekki tilfinnanlegum tilkostnaði. Það er reynsla okkar, að þar sem vegur er vel upp byggður og hægt er að leggja hann um land sem er ekki allt of mishæðótt, en leiðin austur um hálendið til Austurlands er yfirleitt ekki mjög mishæðótt, þá standi vegirnir upp úr vetrarsnjónum í öllu venjulegu tíðarfari. Mér er kunnugt um að á undanförnum vetrum hafa langir kaflar á leiðinni austur yfir Fjöllin, eins oft við köllum, verið færir langtímum saman á veturna, þó að tiltölulega stutt höft hafi lokað samgöngum um veginn.

Ég vil ljúka þessu máli mínu, herra forseti, með því að endurtaka það, að ég tel brýna nauðsyn og sjálfsagt sanngirnismál að þessi hluti hringvegarins milli Akureyrar og Egilsstaða verði í engu eftir skilinn þegar hin almenna uppbygging á þeim köflum, sem enn eru óuppbyggðir, fer fram, og læt máli mínu lokið með því að lýsa því yfir, að ég treysti því að hv. alþm. og hæstv. ríkisstj. með hæstv. samgrh. í broddi fylkingar taki höndum saman um að vinna að því að uppbygging þessarar eðlilegu samgönguleiðar í kringum landið fari fram sem jafnast og með þeim hætti að uppbygging vegarins verði til almennrar farsældar fyrir allar byggðir landsins og breyti ekki í stóru þeim verslunarleiðum og viðskiptaleiðum, sem myndast hafa og tíðkast hafa nú um sinn.