17.12.1974
Efri deild: 25. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í aðalatriðum ítreka og leggja áherslu á þær hliðar þessa frv. sem ég drap á við fyrri umr. nú í kvöld og lítils háttar að auki.

Ég er síðasta ræðumanni, hv. þm. Ragnari Arnalds, sammála um það að hæstv. samgrh. vill áreiðanlega láta að sér kveða í vegamálunum og er það góðra gjalda vert. Ég hygg að hann geri sér fulla grein fyrir hinum raunverulegu vandamálum dreifbýlisins í sambandi við vegina. Hann þekkir þessi vandamál af eigin raun, þó að stundum hafi hann í ákefð sinni að láta til sín taka á þessum sviðum lagt e.t.v. fullmikla áherslu á annars konar og léttúðugra transport en það sem mestu máli skiptir fyrir fólkið úti á landi, svo sem flutninga á knattspyrnuáhugamönnum milli Akraness og Reykjavíkur, og undir þetta sama vil ég raunar færa hugmyndina um brú yfir Borgarfjörð. Ég segi þetta ekki honum til lasts, heldur aðvörunar: að þótt sýnir hans ýmsar séu glæstar á mynd og korti, þá kunna þær að verða vanmetnar af því fólki sem ekki þráir endilega eggslétta hraðbraut, heldur á allt sitt undir því að vegur á vori haldi jeppatík á milli bæja.

Ráðh. nefndi Keflavíkurveginn til dæmis um það hversu hagkvæmt væri að taka svona lán til vegaframkvæmda. En það var ekki svona lán, eins og áður hefur verið komið inn á, það var allt annars konar lán. Ég geng ekki með vasatölvu á mér, en ég vék að samþm. úr Norðurl. e. sem er vanur að reikna út vexti og innti hann eftir því hversu dýrt þetta lán, sem tekið var til Keflavíkurvegar, væri orðið í lok 10 ára tímabils ef það hefði verið vísitölutryggt. Hann það æðri máttarvöld sér til hjálpar og sagði:

A.m.k. nokkuð marga milljarða. — Ég hygg að hann hafi rétt fyrir sér. Einhvers staðar uppi í vaxtaskalanum liggur það rauða strik sem ekki borgar sig að fara upp fyrir, jafnvel þó að lán séu tekin til vegagerðar. Þegar um er að ræða hraðbrautir frá Reykjavík til einhvers tiltekins staðar norður í landi og ekki lengra, þá leyfi ég mér að draga í efa að við megum taka mjög dýr lán til þeirra framkvæmda.

Hæstv. samgrh. staðhæfir það enn í ræðu sinni að þessi hringvegur ætti ekki að ná til Reykjavíkur, hvorugu megin skilst mér. Maður gat næstum því ímyndað sér að það ætti að fara að grafa einhvers konar virkisgjá um veg þveran sitt hvoru megin við lögsagnarumdæmi Reykjavíkur til þess að sýna þar glögglega að þangað ætti þessi vegur alls ekki að ná og ætti alls ekki Reykjavík að þjóna. Svona hugsar nú hæstv. samgrh. ekki, því að hann er sannarlega enginn kjáni. Hann leggur aftur á móti fullmikla áherslu á það að mínum dómi að gylla veg þennan hinn dýra sem byggðaveg. Ef við ætlum að koma upp tryggum byggðavegum, vegum sem þjóna byggðunum, þá liggja þeir ekki á milli Akureyrar og Reykjavíkur sem aðalstöðva, þó að þessir bæir tveir gætu orðið endastöðvar þarna. Við megum ekki hugsa um þá sem slíka. Vegirnir, sem þjóna byggðunum, liggja milli sveita til byggðakjarna, þjónustukjarna í héraði. Það er fólkið í þessum sveitum sem á erindi hvert við annað miklu meira en suður til Reykjavíkur. Fyrst þurfum við að byggja upp þá vegi. Hraðbraut til Reykjavíkur hefur ekki meiri háttar efnahagslegt eða félagslegt gildi fyrir byggðarlögin. Í sumum tilfellum kann slík hraðbraut að hafa, ef svo má segja, öfugt gildi.

Ég mun standa, eins og ég sagði áður, að brtt. við frv. á þá lund að lánsfénu verði varið svo, að norðausturhluti landsbyggðarinnar verði ekki sniðgenginn í þeirri áætlun sem gerð verður um ráðstöfun þessa fjár og ekki Vestfirðir heldur og vænti atfylgis annarra dreifbýlisþm. til þess. Fáist ekki breyt. á frv. mun ég greiða atkv. gegn því.