12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. 2. þm. Austf. Hann hafði þau orð um ummæli mín í sambandi við Lánasjóð sveitarfélaga að þar væri farið með ósannindi og óvandaðan málflutning. Ég vil aðeins taka fram að fyrir liggur að Samband ísl. sveitarfélaga fór fram á það á s.l. ári, nokkru fyrir áramót, að ríkisstj. flytti frv. um eflingu Lánasjóðs sams konar frv. og það sem nú hefur verið flutt. Í fyrstu ræddu fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga við félmrh., sem málið heyrir undir, og það oftar en einu sinni. Það var staðfest með bréfi, sem fyrir liggur frá því í marsmánuði, þannig að ítrekaðar óskir voru bornar fram í ríkisstj. um flutning þessa frv. Að sjálfsögðu sneru fulltrúar sveitarfélaganna sér til félmrh., sem þau mál heyra undir og m.a. Lánasjóðurinn.

Ég þori ekkert að fullyrða um hvernig sambandið hefur verið eða sambandsleysið milli fyrrv. félmrh. og hæstv. viðskrh. í fyrrv. ríkisstj., Lúðvíks Jósepssonar. En undarlegt þykir mér það, ef félmrh. hefur ekki komið á framfæri við ríkisstj. slíkum tilmælum eins og þessum sem borin voru fram bæði munnlega og skriflega um jafnmikilvægt mál.

Ég skal svo aðeins bæta því við, að ég hef tekið fram í fyrsta lagi að félmrn. hefur ekki haft milligöngu um þessa lántöku Reykjavíkurborgar hjá Landsbankanum. Það hefur verið mál milli þeirra tveggja. Hins vegar hef ég lýst því yfir að málaleitun þeirra sveitarfélaga, sem þurfa á fyrirgreiðslu að halda, hafi verið og muni verða vel tekið í félmrn. og það eru þegar nokkur sveitarfélög utan Reykjavíkur, sem rn. hefur haft milligöngu fyrir, m.a. það bæjarfélag sem hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, býr í. Það er honum vel kunnugt um. Þrátt fyrir að þetta liggur fyrir leyfir hv. 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepsson, sér að draga saman mína skoðun og stefnu eitthvað á þessa lund: Félmrh. vill að sveitarfélögin úti á landi fái að vera eins og þau eru, án aðstoðar, en félmrh. telur rétt að beita sér sem mest fyrir úrgreiðslu fyrir stærstu sveitarfélögin eins og Reykjavík. Svona málflutningur talar sínu máli og læt ég þingheim um að dæma hann.