18.12.1975
Neðri deild: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

101. mál, verðjöfnunargjald raforku

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) :

Hæstv. forseti. Það hefur oft komið í ljós að lítill neisti getur orðið að stóru báli. Ég kemst ekki hjá því að taka hér til máls aftur vegna þess að hv. 2. þm. Austurl. taldi að ég hefði móðgað hv. 3. þm. Reykv. með því að vitna í nál. hv. þm. Ég vil taka fram að það var alls ekki ætlunin. Ég á ekki sökótt við þennan þm. og það er mitt mat að það hafi engin móðgun falist í því að vitna í nál. Ég hafði talið að það hefði verið eðlilegt að hv. 3. þm. Reykv. væri með á áliti meiri hl. af því að þm. féllst á að samþykkja frv. En það er smekksatriði. Ég mótmæli því að ég hafi móðgað hv. þm. eða ætlað nokkuð að segja sem gæfi tilefni til þess.

Ég verð að segja það, að bæði ég og hv. 2. þm. Austurl. höfum verið lengi á þingi, og þótt við séum kannske eitthvað tornæmir ættum við að þekkja þingvenjur. Að þessu sinni hefur ekki verið út af þeim brugðið. Við höfum sjaldan deilt mikið. Ég held að ef við tækjum upp á því þá þyrfti nokkuð langan tíma. Sá tími, sem nú er þegar klukkan er langt gengin 12, er ekki rétt hentugur til þess að byrja og síst vegna þess að þinginu á að ljúka á laugardaginn. En vonandi lifi ég og hv. 2. þm. Austurl. það lengi að við fáum tækifæri til að leiða hesta okkar saman ef við erum á öndverðum meiði.

En í sambandi við verðjöfnun á raforku og samtengingu orkuvera verð ég að segja það, þótt tíminn sé naumur, að það er ekki rétt, sem hv. þm. sagði áðan, að stefnan, sem mörkuð var með landsvirkjunarlögunum, hafi ekki verið á þá leið að hafa yfirlit yfir landið allt. Það var einmitt það sem kom skýrt fram í grg. með frv. til landsvirkjunarlaga að það bæri að hverfa frá því að virkja smátt og dýrt, en hverfa að því ráði að virkja frekar stórt og ódýrt og tengja landshlutana saman milli hinna stóru virkjana. Þessi stefna var mörkuð með landsvirkjunarlögunum og ég veit að hv. 2. þm. Austurl. man þetta ef hann vill rifja þetta upp. Frv. ásamt grg. er áreiðanlega til hér í Alþ. og er hægt að rifja upp það sem þar stendur og einnig það sem þar var sagt.

Ég vil aðeins minna á þetta í tilefni af því sem hv. þm. sagði. Eftir að landsvirkjunarlögin tóku gildi var nokkuð að því unnið að tengja saman landshluta á milli virkjana. En ég ætla ekki að efna nú til frekari orðræðu um þessi mál. Ég ætla að þetta sé nóg, og það gefist síðar tækifæri til að ræða þessi mál.