18.12.1975
Efri deild: 38. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Axel Jónsson:

Herra forseti. Eins og hæstv.forseti tók fram var ekki ráð fyrir því gert að ég hefði framsögu fyrir áliti meiri hl. hv. félmn. í þessu máli, og mun framsöguræða mín draga nokkuð dám af því að ég er ekki hér fyllilega undirbúinn og verður hún óskipulegri en æskilegt væri. Bið ég þingheim forláts á því.

Eins og fram kemur á þskj. 237 tók nefndin frv. til meðferðar. Á fund nefndarinnar komu framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga og fulltrúar frá fjmrn. og menntmrn. og gáfu þeir n. margháttaðar upplýsingar um efni málsins. Nefndin varð ekki sammála um afstöðu til frv. Meiri hl. telur að með frv. þessu sé gengið til móts við óskir Sambands ísl. sveitarfélaga og yfirlýsingu um að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð. Þá hefur félmrh. lýst yfir að einstökum sveitarfélögum, sem kynnu að bíða fjárhagslegt tjón af ákvæðum þessara lagabreytinga, verði veitt aukaframlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að fengnum till. stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Meiri hl. n. leggur því til að frv. verði samþ. með brtt, sem gerð er á sérstöku þskj.

Nokkrar umr. urðu hér í hv. þd. strax við 1. umr. málsins og skýrðust þá þegar nokkur atriði og var svarað fyrirspurnum sem fram komu frá hv. þm. Það hefur ávallt verið vilji og ósk sveitarstjórnarmanna að draga sem skarpastar línur, þannig að saman fari fjármálalegar og framkvæmdalegar ákvarðanir, þ. e. a. s. að við þau verkefni sem sveitarfélögin hafi fyrst og fremst framkvæmdavald í, hefðu þau einnig fjármálalega ábyrgð og fjármálalegt vald, og á sama hátt væri farið um þær framkvæmdir sem ríkið hefði fjármálalegt vald í, að það hefði þar einnig framkvæmdavald. Eðlilega hlýtur ávallt að verða um nokkra samvinnu að ræða í þessu efni og aldrei hægt að draga skarpar og ákveðnar línur þarna á milli. En með því frv., sem hér er til umr., er stigið spor í þá átt að verða við þessum eindregnu óskum sveitarstjórnarmanna, að í þeim verkefnum, sem sveitarstjórnarmenn hafa ákvörðunarvald um, verði hið fjármálalega vald og ákvarðanataka einnig færð heim í hérað.

Má segja að þetta frv. sé aðeins skref á þeirri braut að auka verkefni sveitarstjórna frá því sem er, og í sjálfu sér er hér ekki um stórt mál í því efni að tala og aðeins um verkefni sem gert er ráð fyrir að kosti milli 400 og 500 millj. kr. Sveitarstjórnarmenn munu samt almennt fagna þessari breytingu, þó að ávallt hljóti svo að vera að í einhverju séu deildar meiningar um hvort þetta eða hitt verkefnið eigi fremur að hafa forgang um að vera fært alfarið yfir til sveitarstjórnanna.

Ég hygg að því verði ekki á móti mælt, að varðandi það skref, sem hér er ráðgert að tekið verði, hafi verið haft meira samráð og samband við samtök sveitarstjórna á Íslandi en e. t. v. um langa hríð fyrr. Sveitarstjórnarmenn hafa rætt þessa hugsanlegu breytingu, ekki einvörðungu í því formi sem frv. liggur hér fyrir, heldur hafa og inn í þær umræður áður komið aðrir þættir.

Sveitarstjórnarmenn hafa haldið fulltrúafund og stjórnarfundi í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um málið og hafa, áreiðanlega margir þm. undir höndum ályktun sem samþ. var á stjórnarfundi sambands ísl. sveitarfélaga 6. des. s. l., en þar segir svo m. a. með leyfi hæstv. forseta :

„Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga ítrekar fyrri yfirlýsingar sínar um að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð og gerð einfaldari en nú er, en leggur því jafnframt áherslu á að tekjustofnar sveitarfélaga samsvari verkefnum og að fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna verði tryggt:

Þegar þessi ályktun var gerð voru uppi nokkru viðtækari hugmyndir um verkefnatilflutning en felast í því frv. sem hér er til umr. og á því nokkur hluti þeirrar samþykktar, sem gerð var á áðurnefndum fundi, við þau atriði sem þá voru til umræðu um að flutt yrðu alfarið yfir til sveitarfélaganna. Held ég því áfram lestri á þeirri samþykkt sem gerð var á áðurnefndum stjórnarfundi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hugmyndir þær um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem nú hafa verið lagðar fyrir stjórnina, eru hvað varðar hreinni verkaskiptingu í samræmi við þessa stefnu, svo framarlega sem fjárhagsleg aðstaða sveitarfélaga verði jöfnuð með breytingum á úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Skiptar skoðanir eru hjá sveitarstjórnarmönnum varðandi einstaka liði í fram komnum hugmyndum um verkaskiptingu. Stjórn sambandsins gerir sameiginlega eftirfarandi aths.:

1. Viðhald grunnskólamannvirkja snertir öll sveitarfélög. Kostur þess, að sveitarfélögin taki að sér allan viðhaldskostnað þeirra, mannvirkja, er að verkaskipting verður hreinni, og samrýmist því flutningur þessa verkefnis frá ríki til sveitarfélaga í megindráttum hugmyndum Sambandsins um verkaskiptingu. Hins vegar kemur slíkur verkefnaflutningur misjafnt við einstök sveitarfélög, sérstaklega að því er varðar viðhald á heimavistarrými grunnskóla.

2. Dagvistunarheimili, rekstur og stofnkostnaður.“ — Ég sleppi að ræða um stofnkostnað því að búið er að fella þá hugmynd brott að stofnkostnaður dagvistunarstofnana verði færður yfir til sveitarfélaganna, en les áfram þá samþykkt sem hér var um gerð:

„Skiptar skoðanir eru í stjórn sambandsins um það, hvort rétt sé að sveitarfélögin greiði allan stofnkostnað dagvistunarheimila, en á það er bent að hér er um að ræða verkefni sem er misjafnlega langt á veg komið, en er sérstaklega brýnt vegna félagslegra aðstæðna. Þær tölur sem lagðar hafa verið til grundvallar hugmyndum um yfirfærslu þessa verkefnis, eru ekki í samræmi við veruleikann. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1976 eru áætlaðar 117 millj. vegna rekstrar dagvistunarheimila og 70 millj. vegna stofnkostnaðar, en samkv. upplýsingum menntmrh. þarf, miðað við áætlanir frá 1. maí s. l., 125 millj. kr. til greiðslu rekstrarkostnaðar á árinu 1975 og fjárhæðin þyrfti að vera a. m. k. 187 millj. kr. til eð ríkið gæti greitt hlutdeild sina í rekstrarkostnaði dagvistunarheimila 1975 og helming af hlutdeild sinni á árinu 1976, eins og reglugerð gerir ráð fyrir. Jafnframt er rétt að vekja athygli á því að á næstu 4 árum er ráðgert að taka í notkun 27 dagvistunarheimili og mun því rekstrarkostnaður dagvistunarheimila aukast af þeim sökum. Hvað snertir kostnaðarframlög ríkissjóðs má geta þess að menntmrn. hefur talið að taka þyrfti upp í fjárlög 1976 165 millj. kr. vegna þátttöku ríkisins í stofnkostnaði dagvistunarheimila, sem tekin hafa verið í fjárlög og hefðu væntanlega verið tekin í fjárlög 1976. Af framangreindu er ljóst að þessir liðir eru mjög vanmetnir í sambandi við hugmyndir um yfirfærslu.

3. Dvalarheimili aldraðra. Um þátttöku í stofnkostnaði við þennan lið er svipaða sögu að segja og um dagvistunarheimilin, en framkvæmdir á þessu sviði eru almennt mjög skammt á veg komnar. Sú fjárhæð, sem lögð hefur verið til grundvallar yfirfærslu þessa verkefnis, 60 millj. kr., er sýnilega allt of lág.

4. Bókasöfn, styrkir til stofn- og rekstrarkostnaðar. Sú tala, 20 millj., sem lögð hefur verið fram um ríkisframlög til bókasafna, er ekki í samræmi við það frv. sem nú liggur fyrir Alþ. Verði það frv. að lögum þarf tala þessi að leiðréttast til samræmis.

5. Aukin þátttaka í kostnaði við akstur skólabarna. Hugmynd um aukna þátttöku sveitarfélaga í kostnaði við akstur skólabarna úr 15% í 25% stangast á við það meginsjónarmið sveitarfélaganna, að ríkinu beri að greiða kostnað vegna aðstöðujöfnunar, og leiðir síður en svo til hreinni samskipta.

Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga telur það forsendu fyrir jákvæðri afstöðu sinni til umrædds verkefnaflutnings: a) að heimildir fáist til fullrar nýtingar tekjustofna sveitarfélaga, b) að gengið verði frá uppgjöri við einstök sveitarfélög vegna yfirtöku verkefna, c) að tryggt verði að stjórn þeirra verkefna, sem yfirfærð kunna að verða, verði í höndum sveitarfélaganna, d) að 14. gr. 3. málsgr. l. nr. 8 1972, um tekjustofna sveitarfélaga, verði úr gildi felld þannig að jöfnunarsjóðsframlög gangi til sveitarfélaganna, e) að ákvæði í l. nr. 8 1972, um tekjustofna sveitarfélaga, varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði tekin til endurskoðunar og þeim breytt þannig að hlutdeild aukaframlaga verði aukin og þeim sveitarfélögum verði veitt aukaframlög sem verði fyrir tjóni vegna verkefnayfirfærslunnar.

Stjórnin telur ríkisvaldinu skylt að tryggja fræðsluskrifstofum landshlutanna rekstrarfé frá næstu áramótum. Einstakir stjórnarmenn gera þetta að skilyrði fyrir fylgi sínu við þennan verkefnaflutning.

Stjórnin ítrekar fyrri skoðanir sínar og ályktanir sambandsins að ríkinu beri að greiða allan kostnað vegna sjúkratrygginga eins og annarra greina almannatrygginganna og að 8–10% hlutdeild sveitarfélaga í þessum kostnaði verði felld niður, enda ráða sveitarfélögin engu um þennan kostnað sem fyrir aðgerðir ríkisvaldsins hefur vaxið stórkostlega, ekki síst á þessu ári.

Loks leggur stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga það til að skipuð verði samstarfsnefnd ríkis og sveitarfálaga sem fjalli um stöðu sveitarfélaganna, skiptingu verkefna og tekjustofna milli þeirra og önnur samskipti ríkis og sveitarfélaga. Stefnt verði að því að n. skili tillögum fyrir árslok 1976.“

Herra forseti. Ég hef lesið þetta bréf alfarið þó að, eins og ég sagði áður, nokkrir liðir þess eigi ekki við nú orðið eftir þá breytingu sem gerð hefur verið á frv. Ég ætla síðan að víkja að einstökum liðum þessarar samþykktar eftir því sem við á í sambandi við það frv. sem hér er til umr.

Eins og fram kemur í upphafi er því lýst yfir og ítrekað að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga vill að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð og gerð einfaldari en nú er, eins og þar segir, en þó jafnframt lögð áhersla á að tekjustofnar sveitarfélaga samsvari verkefnum og að fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna verði tryggt. Þetta frv., sem hér er um ræðir, gengur efnislega í þá átt sem hér er lagt til. Hér er um það að ræða að gera þær breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að þar verði um hreinni verkaskiptingu að ræða í samræmi við þá stefnu og þær samþykktir sem árum saman hafa verið gerðar á fundum sveitarstjórnarmanna. Er vikið að því að eðlilegra séu skiptar skoðanir hjá sveitarstjórnarmönnum um einstaka liði, og þannig hlýtur það ávallt að vera. En ég ítreka enn að sjaldan mun í seinni tíð hafa verið haft þó jafnmikið samband við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og Sambandi ísl. sveitarfélaga gefist slíkur kostur á að ræða um hugsanlegar breytingar á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og nú hefur verið gert.

Varðandi viðhald grunnskólamannvirkja vil ég aðeins geta þessa, það er máske eðlilegt að staldrað sé hvað helst við það verkefni, það er eitt stærsta fjárhagslega atriðið í þessu efni, að gert er ráð fyrir því að af því fjármagni, sem flyst frá ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og deilist því til sveitarfélaganna, sé um 220 millj. að ræða. Það hlýtur að vera ómótmælanlegt að það sé eðlilegt að fjármögnun og framkvæmd viðhalds skólamannvirkja sé á einni hendi. Sveitarfélögin hafa fyrst og fremst ráðið hér um til þessa og er eðlilegt að þau beri hina fjárhagslegu ábyrgð og að þeim séu tryggðar tekjur til þess að rísa undir því verkefni.

Nokkrar raddir hafa heyrst um það, að hætta væri á því að sér í lagi hin smærri sveitarfélög, sem reka heimavistarskóla, yrðu afskipt í þessu efni. En eins og kom fram í nál., sem ég las úr í upphafi míns máls, hefur hæstv. félmrh. lýst því yfir að þeim sveitarfélögum, sem verða fyrir fjárhagslegu tjóni ef tilfærslu verkefna í sambandi við þetta frv., verði það bætt með úthlutun úr Jöfnunarsjóði. Er þar tekið undir þær óskir sem fram koma hjá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga varðandi þetta efni.

Varðandi rekstur dagvistunarstofnana sem er annar stærsti liðurinn hvað fjármálahliðina. snertir, — gert er ráð fyrir að 120 millj. færist til sveitarfélaganna vegna þeirra verkefna, þá er það einnig að verulegu leyti á valdi sveitarstjórnanna að hafa forustu um rekstur dagvistunarstofnana. Því hefur verið haldið fram að þetta gæti hugsanlega leitt af sér óeðlilega hækkun gjalda á þessum stofnunum. Ég er ekki á þeirri skoðun. Ég treysti alfarið eins sveitarstjórnarmönnum til þess að fjalla um ákvörðunartöku í þessu efni eins og starfsmönnum ráðuneytanna, með allri virðingu fyrir þeim.

Það er vitað að í framkvæmd er það svo í dag að á fjölmörgum stöðum mun vera gefinn verulegur afsláttur til einstakra aðila sem þess þurfa nauðsynlega með í þessu skyni. Það eru áreiðanlega heimamenn sem eru dómbærastir á hvað þarf að gera í þeim efnum, og þeim er áreiðanlega ekki síður en öðrum treystandi til þess að fara með þennan þátt sveitarstjórnarmálanna eins og önnur atriði þeirra.

Þá er í þriðja lagi varðandi dvalarheimili aldraðra. Það hafa heyrst raddir um að þetta sé óeðlilega lág tala, og vissulega er alltaf lengi hægt að deila um það hvort að fjárframlög, hvort heldur á fjárlögum eða í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga, séu nægilega há til stofnframkvæmda. Það hlýtur ávallt að vera mat löggjafans hverju sinni hvað hann vill verja miklum fjármunum í þessu skyni af sinni hálfu til þeirra framkvæmda sem ríkið þarf að standa undir í stofnkostnaði, á sama hátt og það er verkefni sveitarstjórnarmanna að ákveða hvað stóra upphæð þeir vilja eða treysta sér til að leggja fram til tiltekinna framkvæmda hverju sinni. Ég hygg að það sé rétt og er sannfærður um að á næstu árum þarf og verður gert stærra átak í þessu efni en hingað til, en þó því aðeins að meira fjármagn verði til þessara framkvæmda veitt. Núgildandi lög um þátttöku ríkisins í stofnkostnaði dvalarheimila kveða ekkert á um á hve löngum eða skömmum tíma ríkið skuli greiða sitt framlag. Verði þarna um að ræða, eins og ég hygg að þróunin verði, að auknar verði framkvæmdir, þá þarf vissulega meira fjármagn til, og þar gildir það sama um hvort sem ákvörðunartakan er hjá hinu háa Alþ. eða sveitarstjórnum heima í héraði. Ég hygg að þegar menn hugleiða þessi mál af meiri gaumgæfni en áður, þá verði það reynslan, og ég tel að að því beri að stefna, að það sé nauðsynlegt að sveitarfélög taki upp nánari samvinnu um lausn þessa stóra og brýna verkefnis.

Varðandi bókasöfnin sem getið er um í 4. lið umgetinnar samþykktar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. þá hefur þáttur ríkissjóðs í greiðslu til þeirra verið sáralítill til þessa, og það er um þetta verkefni eins og mörg önnur að það er ekki óeðlilegt að framkvæmd og fjármögnun sé í höndum heimamanna, enda er nú gert ráð fyrir því varðandi fjármögnunina að Jöfnunarsjóður og sveitarfélögin fái tekjur sem svara því að mæta fyrstu ársframkvæmd þeirra laga um almenningsbókasöfn sem nú liggja fyrir hv. Alþ.

Varðandi þá stafliði sem ég las hér upp, herra forseti. og stjórn Sambandsins taldi að væru forsenda fyrir jákvæðri afstöðu sinni til umrædds verkefnaflutnings vil ég segja það, að varðandi fyrsta liðinn hefur því þegar verið lýst yfir af hálfu hæstv. félmrh. að heimildir fáist til fullrar nýtingar tekjustofna sveitarfélaga þar sem þess verður óskað og þau hafa brýna þörf fyrir.

Varðandi b-liðinn, að gengið verði frá uppgjöri við einstök sveitarfélög vegna yfirtöku verkefna, þá átti þessi samþykkt sérstaklega við varðandi þá hugmynd að kostnaður við akstur skólabarna færðist í auknum mæli yfir á sveitarfélögin, en þar er, eins og kunnugt er, um að ræða nokkurn skuldahala af hálfu ríkissjóðs. Gerð var fyrirspurn hér í hv. deild við 1. umr. málsins og lýsti menntmrh. því yfir að stefnt mundi verða að því að leysa þetta í áföngum og að jöfnuður yrði kominn á að 2 árum liðnum.

Varðandi c-liðinn, að tryggt verði að stjórn þeirra verkefna, sem yfirfærð kunni að verða, verði í höndum sveitarfélaga, er það að segja, að sá stafliður mun fyrst og fremst til kominn vegna þeirrar hugmyndar sem þá var uppi um að stofnkostnaður dagvistunarstofnana færðist til sveitarfélaganna.

Varðandi d-liðinn, að 3. málsgr. 14. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga verði úr gildi felld, þannig að jöfnunarsjóðsframlög gangi til sveitarfélaganna, er það að segja, að þetta lagaákvæði á fyrst og fremst við um Ríkisábyrgðasjóð, og það er vissulega stefna sveitarstjórnarmanna að standa við sínar skuldbindingar. En varðandi það frv. sem hér er til umr., og þann fjármagnstilflutning, sem á sér stað til Jöfnunarsjóðs, og þá verkefnayfirtöku sem sveitarfélögunum er ætlað í því efni, þá var því lýst yfir af hæstv. félmrh. við 1. umr. málsins að hann teldi óeðlilegt að þeim tekjum, sem samkv. því frv., sem hér er til umr., væru ætlaðar til þeirra verkefna sem þar er um að ræða, væri haldið eftir til þess að inna af höndum þær greiðslur sem 14. gr. áður útgefinna laga á fyrst og fremst við.

Varðandi e-liðinn, þ. e. a. s. að tekjustofnar sveitarfélaga varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði teknir til endurskoðunar og þeim breytt þannig að hlutdeild aukaframlaga verði aukin og þeim sveitarfélögum verði veitt aukaframlag sem verða fyrir tjóni vegna verkefnayfirfærslunnar. er það að segja, að ég hef þegar komið að því varðandi þá yfirlýsingu sem hæstv. félmrh. hefur gefið og er að finna í nál. meiri hl. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verður tekin til endurskoðunar og þar með auðvitað þessi þáttur. Ef sveitarstjórnarmönnum og hinu háa Alþ. sýnist rétt að breyta þeim ákvæðum sem gilt hafa um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til þessa, þá mun það trúlega verða niðurstaðan ef það verður mat þeirra sem um þau mál fjalla að nauðsyn sé að slíkt verði gert.

Varðandi þann lið í samþykkt stjórnarinnar sem tekur til fræðsluskrifstofa landshlutanna, þá var því svarað við 1. umr. málsins af hæstv. menntmrh. að þetta mál yrði tekið upp sérstaklega eftir áramótin.

Í niðurlagi samþykktarinnar er vikið að því að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga fari fram á að skipuð verði samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga sem fjalli um stöðu sveitarfélaganna, skiptingu verkefna og tekjustofna milli þeirra og önnur samskipti ríkis og sveitarfélaga. Stefnt verði að því að nefndin skili tillögum fyrir árslok 1976. Hæstv. félmrh. lýsti því yfir við 1. umr. málsins að slík nefnd mundi verða selt á laggirnar. og tel ég að þar með sé gefið fyrirheit um að verða við þeim óskum sem fram ern settar í þessu efni af hálfu stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.

Ég hef, herra forseti, staldrað hér nokkra stund við þá samþykkt, sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga gerði varðandi þetta mál. Það var, eins og ég gat um, um nokkra liði þar að ræða sem ekki koma hér til umfjöllunar vegna þess að þá voru uppi fleiri hugmyndir um verkefnatilflutning en það frv. felur í sér sem hér er til umr. Ég tel mig, herra forseti, hafa vikið að þeim atriðum, sem stjórnin benti sérstaklega á, og að með frv. og þeirri yfirlýsingu, sem þar fylgir með, sé að fullu orðið við þeim óskum sem fram eru bornar, og má þá einnig vitna til þeirra svara sem hæstv. ráðherrar hafa gefið varðandi einstakar fyrirspurnir sem fram voru bornar við 1. umr. málsins.

Ég minni á það, að þegar grundvallarbreyting var gerð á tekjustofnalögum sveitarfélaga 1972, þá var ekki slíkt samráð haft við Samband ísl. sveitarfélaga eins og hefur verið nú þó að hér sé um miklu smærra mál að ræða en þá. Hér er um að ræða tilflutning á verkefnum og tilflutning á tekjustofnum á móti, en þá var um grundvallarbreytingu á sjálfum tekjustofnalögum sveitarfélaga að ræða.

Ég vil þá, herra forseti, víkja að einstökum greinum frv. 1. kafli frv. fjallar um breytingu á lögum um heimilishjálp og tekur til þess ákvæðis að þátttaka ríkisins í þessari starfsemi falli niður, en til þessa hefur það verið svo að sveitarsjóðir greiði 1/3 sjúkrasamlag þriðjung og ríkissjóður þriðjung. Varðandi þessa tilfærslu er í sundurliðun gert ráð fyrir 25 millj. kr. til þessara verkefna.

II. kafli fjallar um breytingu á lögum um vinnumiðlun. 8 gr. orðist eins og þar er sagt. Þar er einnig um það að ræða að kostnaður af vinnumiðlun verði hér eftir að mestu leyti borinn uppi af sveitarsjóðum í staðinn fyrir að ríkið hefur verið þar þátttakaandi í til þessa.

Varðandi III. kafla, um breytingu á lögum um orlof húsmæðra, er sömu sögu að segja, að hér eftir er samkv. frv. gert ráð fyrir að þetta verði einvörðungu verkefni sveitarsjóða, en til þessa hafa ríki og sveitarsjóðir fjármagnað þetta í sameiningu. Tekur sú breyting, sem þarna er lögð til í þeim greinum, til þessa atriðis. Brtt., sem meiri hl. n. leggur til, herra forseti, við III. kafla frv. tekur af öll tvímæli um það að sveitarsjóðunum er aðeins gert að greiða það 150 kr. gjald. sem vikið er að, fyrir hverja húsmóður í viðkomandi sveitarfélagi, en eins og stendur í frv. mætti hugsanlega misskilja það á annan veg. En breytingin tekur af öll tvímæli um að það er lögð sú skylda á hendur sveitarsjóðum að greiða árlega upphæð sem svarar minnst 150 kr. fyrir hverja húsmóður í viðkomandi sveitarfélagi.

Varðandi IV. kaflann, um dvalarheimili aldraðra, felur frv. það í sér, eins og ég áður gat um, að gert er ráð fyrir að fjármögnun þessa verkefnis verði hér eftir verkefni sveitarsjóða, en ekki sveitarsjóða og ríkis eins og verið hefur.

Hér er ákvæði í 5. gr., með leyfi forseta :

„7. gr. orðist svo:

Ef aðrir aðilar en sveitarfélög byggja eða hefja akstur dvalarheimilis er sveitarsjóði heimilt að greiða allt að 1/3 hluta kostnaðar við byggingu og kaup nauðsynlegra tækja og búnaðar.“

Þetta tekur til annarra aðila en sveitarfélaganna. Ég endurtek það, sem ég áður drap á, að í núgildandi lögum um kostnaðarþátttöku ríkis í byggingu dvalarheimila eru ekki sett þau mörk um greiðslutíma eins og er varðandi lög um grunnskóla og lög um dagvistunarstofnanir.

Þá vík ég að V. kafla, en hann er um grunnskóla, og eins og ég vék að áður er það stærsta atriði þessara breytinga hvað fjármagn snertir. Þar er lagt til að 1. málsgr. 79. gr. orðist svo:

„Viðhaldskostnaður húsa og lóða, viðhald og endurnýjun tækja og búnaðar greiðist af sveitarfélögunum, en húsaleiga greiðist af ríkissjóði í því hlutfalli sem stofnkostnaður húsnæðis til sömu nota mundi greiddur. Stofnbúnað skólabókasafns greiðir ríkissjóður að hálfu á móti sveitarfélögum. Skal bókastofn skólabókasafns miðaður við 10 eintök bóka á nemanda og kostnaðarþátttöku ríkissjóðs skipt á allt að 10 ára tímabil. Viðhald og endurnýjun bókasafna greiða sveitarfélög.“

Hér er um að ræða þá meginbreytingu að viðhaldskostnaður húsa og lóða, viðhald og endurnýjun tækja og búnaðar greiðist af sveitarfélögum. En hér hefur verið um sameiginlega þátttöku að ræða til þessa.

Þá er og varðandi 7. gr. þessa frv. vikið að því að gerð er breyting á 80. gr. í grunnskólalögunum og 2. málsgr. hennar orðist eins og þar er sagt: „Tekjur af eignum skóla renna til sveitarsjóða.“ — Í gildandi lögum eru ákvæðin þau, að tekjur af húsnæði renna til ríkisins og sveitarsjóðanna í hlutfalli við eignarhlut þeirra í skólahúsnæðinu. Þetta tekur sérstaklega til heimavistarskólanna þar sem um er að ræða annars vegar húsaleigu af íbúðum, þær renna hér eftir eingöngu til sveitarsjóða, og í öðru lagi þar sem þannig er ástatt um að heimavistarskólar eru máske í nýtingu að sumarlagi fyrir annan rekstur, að þá greiðist sú leiga, sem af því kemur, eingöngu til sveitarsjóðanna í stað þess að hún hefur skipst milli ríkis og sveitarfélaga eftir eignaraðild þeirra samkv. gildandi grunnskólalögum.

8. gr. varðar fyrst og fremst þá meginbreytingu sem vikið er að í 6. gr., að viðhaldskostnaður skólamannvirkja færist yfir á sveitarsjóðina.

Varðandi VI. kafla frv., um. breyt. á d. nr. 29 21. apríl 1973, um hlutdeild ríkissjóðs í byggingu og rekstri dagvistunarheimila, miða breytingar að því að sveitarsjóðirnir taki að sér rekstur dagheimilanna, en samkv. gildandi lögum er um að ræða að ríki og sveitarfélög og þó sveitarfélögin að stærri hluta standa undir rekstrinum í dag. Aðrar breytingar varðandi þennan kafla eru í samhengi við þessa umgetnu meginbreytingu frv.

VII. kafli er um breytingu á lögum um almenningsbókasöfn og miðar að því, eins og ég áður vék að, að hér eftir njóti almenningsbókasöfnin ekki styrks úr ríkissjóði, heldur verði fjármögnuð af sveitarsjóðunum. Aðrar breytingar, sem að felast í þessum kafla, eru efnislega samfara þessari breytingu.

Ég hef hér, herra forseti, vikið að einstökum greinum þessa frv., og eins og ég gat um eru stærstu kostnaðarliðirnir viðhald skólamannvirkja og skólabúnaðar annars vegar og hins vegar rekstur dagvistunarheimila. Til þess að gera sveitarfélögum kleift að rísa undir þeim kostnaði, sem þar er upp talinn varðandi þá aðra liði sem hér er um að ræða, þ. e. a. s. elliheimili, almenningsbókasöfn, heimilishjálp, vinnumiðlun og húsmæðraorlof, þá er gert ráð fyrir því að gerð verði breyting á söluskattslögum þannig að hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í söluskatti verði aukin, að hann fái nú 8% af 18% söluskatti í stað þess að hann fær aðeins af 13 stigum nú.

Ég hef dregið hér fram þau rök sem meiri hl. n. og ég persónulega viljum færa fram með því að frv. verði samþ.

Herra forseti. Ég endurtek: Það hefur um árabil verið stefna sveitarstjórnarmanna að gera hreinni og ákveðnari verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, að sveitarfélögin taki að sér meiri verkefni og þeim verði tryggðir tekjustofnar til þess að rísa undir þeim verkefnum. Hér er að mínu áliti stigið spor í þessa átt. Ég hef sagt að þetta væri ekki stórmál í þessum efnum, en ég vonast til þess að áframhald verði á því að sveitarfélögunum verði valin fleiri verkefni og þá að sjálfsögðu um leið tryggðir eðlilegir tekjustofnar til þess að standa undir þeim. Það er aldrei, þegar breyting er gerð, hægt að vera alfarið viss um nema eitt og eitt sveitarfélag geti komið fjárhagslega illa út úr breytingunni, sérstaklega fyrst á eftir, og með tilliti til þessa vitna ég til þeirrar yfirlýsingar, sem ég hef áður gert, sem hæstv. félmrh. hefur gefið um að einstökum sveitarfélögum, sem kynnu að bíða fjárhagslegt tjón af ákvæðum þessara lagabreytinga, verði veitt aukaframlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að fengnum tillögum stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.

Ég legg svo til að frv. verði samþykkt með þeirri breyt. sem meiri hl, leggur til.