22.10.1975
Neðri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

9. mál, skylduskil til safna

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að fagna þessu frv. og um leið vekja máls á því, hvort ekki væri nauðsynlegt að gera ákvæði um skylduskil efnis í frv. ítarlegri í meðferð þingsins. Sú breyting hefur orðið á síðustu 10–15 árum með tilkomu nýrrar tækni við prentun og dreifingu efnis að stjórnvöld, stofnanir, háskólar, rannsóknaraðilar, hagsmunasamtök og aðrir slíkir aðilar hafa í æ ríkari mæli tekið upp margháttaða fjölritun efnis sem fyrst og fremst er ætlað til afnota fyrir takmarkaðan hóp, annaðhvort innan viðkomandi stofnunar eða samtaka eða fáeina samskiptaaðila þeirra.

Þessi tæknibreyting í prentun og dreifingu ritaðs máls hefur það í för með sér að þær hefðbundnu venjur við varðveislu gagna, sem tíðkast hafa hér á landi og í nágrannalöndum um áratugaraðir, eru að mestu leyti úreltar. Sagnfræðingar samtíðarinnar eru þegar farnir að reka sig á það að einhverjar mikilvægustu heimildir um sögu samtíðarinnar er að finna fyrst og fremst í gögnum af þessu tagi, og í röðum þeirra er þegar kominn fram í mörgum löndum ótti um að saga síðustu áratuga 20. aldar kunni að verða illritanleg ef ekki verði tryggilega gengið frá því að allir þeir fjölmörgu aðilar, sem hér eiga hlut að máli, séu skyldir að skila öllum gögnum sínum til ákveðins aðila. Þau skil geta verið með ýmsum takmörkunum um notkun, bundið við ákveðinn árafjölda eða áratugafjölda.

En aðalatriði málsins er það, að nú þegar eru á Íslandi á allt annan hátt en áður var, þegar útgáfa byggðist fyrst og fremst á útgáfu ríkisins og viðurkenndra bókaútgáfufyrirtækja, framleiddar einhverjar mikilvægustu heimildir sem sagnfræði framtíðarinnar mun grundvallast á. Þetta frv., þótt ekki sé stórt í sniðum, felur þess vegna í sér í raun spurninguna um það, hvort við í samtíð okkar leggjum þann grundvöll að íslenskri sagnfræði við lok þessarar aldar eða næstu aldar, að þeir, sem á eftir okkur kunna að koma og skrifa sögu þessarar aldar, geti unnið sitt verk eða ekki.

Ég vil því sérstaklega við upphaf þessa máls láta það koma fram af minni hálfu og míns flokks að við teljum þetta frv. eitt af mikilvægustu frv. sem þingið hefur fengið til meðferðar, þótt ekki snerti það kannske þau brýnu vandamál sem við þjóðinni blasa nú. En ef íslendingar 21. aldar eiga að geta fengið skilning á sögu 20. aldar á svipaðan hátt og við erum að reyna að fá skilning á sjálfstæðisbaráttu 19. aldar, þá er nauðsynlegt að Alþingi íslendinga setji hið fyrsta lög af þessu tagi og jafnvel enn ítarlegri og nákvæmari en það frv. til l. sem hér er til umr., felur í sér. Þótt ég eigi í fjarveru Magnúsar T. Ólafssonar sæti í menntmn. þessarar deildar, þá reikna ég ekki með því að geta verið hér viðstaddur þegar þetta mál kemur til endanlegrar afgreiðslu og vildi því nota þetta tækifæri hér til þess að nokkru leyti í nafni fræðimanna, sagnfræðinga og annarra áhugaaðila, sem hér eiga hlut að máli, að undirstrika það við þingheim að hér er á ferðinni mál sem krefst þess að það sé mjög gaumgæft. Ef við viljum viðhalda sagnfræðiáhuga og sagnfræðihefð íslensku þjóðarinnar, þá verðum við að gera þetta frv. vel úr garði þegar Alþ. sendir það frá sér.

Ég vil svo að lokum óska þess að sú n., sem fær þetta mál til ítarlegrar umfjöllunar, kynni sér hvernig íslensk stjórnvöld, rannsóknarstofnanir og aðrir aðilar varðveita það fjölþætta og mikilvæga efni sem þeir eru að framleiða í fjölrituðu eða öðru formi um þessar mundir. Ég er viss um að stjórnsýsla landsins yrði mun auðveldari ef komið yrði varanlegri skipan á þau mál. Íslenska ríkiskerfið er orðið svo fjölþætt og þar starfa svo margir aðilar að enginn einn einstaklingur eða hópur manna getur haft yfirsýn yfir alla þá — ég vil kalla málefna- og rannsóknaframleiðslu sem þar fer fram. Ef hins vegar íslenska ríkið í nútíð og framtíð ætlar að geta starfað á skipulagsbundinn hátt og á grundvelli raunhæfra gagna, þá er nauðsynlegt að einhver einn aðili hafi alla þessa framleiðslu við höndina. Svo er ekki í dag, og í hverjum mánuði, hvað þá á hverju ári, þá týnast — og ég undirstrika það — tugir ef ekki hundruð grundvallargagna í íslenska stjórnkerfinu vegna þess að ríkisstofnanir, rannsóknaraðilar og aðrir eru ekki skyldaðir til að varðveita þessi gögn.

Ég vil svo að lokum ítreka það enn einu sinni að ég tel þetta frv. vera mikilvægt, ekki fyrir samtíðina, heldur fyrst og fremst fyrir framtíðina. Og ég vona að það þing, sem nú situr, beri gæfu til þess þrátt fyrir mikinn efnahagsvanda þjóðarinnar að koma þessu frv. í töluvert ítarlegri gerð í heila höfn sem lögum.