19.12.1975
Neðri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Látið er að því liggja að með þessu frv. sé gengið til móts við óskir Sambands ísl. sveitarfélaga um hreinni verkefnaskiptingu og þetta sé í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. um sama efni. En hér er vitanlega ekki um neitt slíkt að ræða. Hér er eingöngu verið að fela sveitarfélögum viss verkefni til þess að geta sýnt lækkun útgjalda á fjárlögum um 500 millj. Það liggur líka ljóst fyrir að Samband ísl. sveitarfélaga hefur ekki lýst yfir samþykki sínu við frv. í núverandi mynd. Verkefnavalið er mjög handahófskennt og sumt að mínu mati beinlínis rangt, og það var eftirtektarvert að hæstv. ráðh. færði engin rök að því, hvers vegna þessi mál væru endilega tekin fram yfir önnur, og engin orð féllu í þá átt að hér væri verið að koma á hreinni verkefnaskiptingu, svo að ég gæti greint. Hér er, eins ég sagði áðan, vitanlega fyrst og fremst um það að ræða að lækka fjárlög.

Ef við lítum á það verkefnaval sem hér er tekið fyrir er líka augljóst að hér ræður engin heildarstefna. Stærstu liðirnir eru þess eðlis að þeir eru sameiginleg menningar- og félagsmál allrar þjóðarinnar og því eðlilegt og rétt að ríkið taki þátt í þeim. Hér vil ég nefna sérstaklega almenningsbókasöfnin, dagvistunarheimili og elliheimili. Um þessi tvö síðustu mál var alger eining á sínum tíma að ríkið tæki þátt í kostnaði við þau og allir sammála um nauðsyn þess. En nú er Framsfl. reiðubúinn að ýta þessum bagga frá sér og láta sveitarfélögin sjá um þá þungu kostnaðarliði sem þar eru.

Það er sérstök ástæða til að fara nokkrum orðum um málaflokkinn almenningsbókasöfn. Það munu vera liðnir ekki meira en um það bil tveir mánuðir síðan hæstv. menntmrh. lagði hér fram sérstakt frv. um almenningsbókasöfn sem fól í sér ríkisframlag um 81 millj. kr. Voru allir sammála um að nauðsynlegt væri að þetta frv. yrði afgreitt á þessu þingi og alls ekki skiptar skoðanir um réttmæti þess að ríkið tæki þátt í byggingu og rekstri almenningsbókasafna, eins og það hafði gert síðan 1963. En vegna þess að þessi mál hafa verið stórlega vanrækt átti nú að auka ríkisframlagið. Þetta frv. var ekki fyrr komið í n. en stjórnarsinnar sjálfir settust á það eingöngu til þess að þurfa ekki að sýna hækkaða útgjaldaliði á fjárlögum. Málefnið sjálft kom þeim ekki við, aðeins þetta sýndarfrv. sem hér er verið að afgreiða þessa dagana. Með því að svipta almenningsbókasöfnin ríkisframlagi er verið að stiga stórt skref aftur á bak í menningarmálum. Við erum þar með líklega komin á bekk með íhaldssömustu þjóðum sem þekkjast.

Það er mikil hætta á því að allir, jafnt ungir sem gamlir, muni draga það við sig að lesa bækur, að eignast bækur. Og einmitt nú, þegar verið er að byggja upp bókasöfn með öðru móti en áður og það sjónarmið viðurkennt að þau eigi að vera menningarmiðstöðvar með bókum og öðrum gögnum, þá stigur hæstv. ríkisstj. þetta spor í þessum málum hér á Íslandi. Þetta er að mínu mati stórlega vítavert athæfi.

Það má líka gera ráð fyrir því að starfsemi þessi muni leggjast allt að því niður í heilt ár, og mátti hún þó síst við því. Nú þegar eru flest sveitarfélög búin að ganga frá sínum fjárhagsáætlunum og fer þá trúlega lítið fé til bókasafna á næsta ári. Ég vænti þess þó að hæstv. menntmrh. sjái til þess að framlag til Rithöfundasjóðs hækki á næsta ári, svo sem gert var ráð fyrir í frv. um almenningsbókasöfnin, en það frv. verður örugglega ekki afgreitt fyrir jól úr þessu og því allir þessir liðir úti.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að dagvistundaheimilum. Með þeim lögum var, eins og ég mun áður hafa sagt úr þessum ræðustól, stigið stórt spor í framfaraátt, en þau mál höfðu mjög verið í vanrækslu áður en vinstri stjórnin tók við. Það var eining um það hér á Alþ. að setja þessi lög, að ríkið skyldi greiða bæði til stofukostnaðar og til rekstrar. Það heyrðist þegar frv. þetta var í fæðingu, sem var nokkuð erfið, að ríkið ætlaði að láta sveitarfélögin alveg um dagvistunarheimilin, láta þau sjá um stofnkostnaðinn líka. En sveitarfélögin munu hafa hafnað því góða boði, og ég býst við að ég hefði orðið enn harðorðari en nú ef stofnkostnaðurinn hefði líka verið lagður á sveitarfélögin ein.

Í lögum um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistunarheimila er kveðið svo á að hámarkshlutdeild ríkisins til rekstrar skuli vera 30% af rekstrarkostnaði dagheimila og skóladagheimila og 20% af rekstrarkostnaði leikskóla og skuli sveitarfélög greiða ekki minni hluta á móti. Ég hygg að ríkið hafi nokkurn veginn staðið í skilum með þetta framlag sitt til rekstrarins, svo að hér missa sveitarfélögin stóran spón úr aski sínum.

Það er fullyrt í því frv., sem hér liggur fyrir, að rekstrarkostnaður dagvistunarheimila verði 120 millj. á næsta ári. Þetta kemur ekki heim og saman við þær upplýsingar sem menntmrn. gefur, en þar var reiknað með að rekstrarfjárþörf á næsta ári væri 187.5 millj. kr. Það liggur í augum uppi, að verði þetta frv. að lögum mun það hafa í för með sér stórfellda hækkun á daggjöldum fyrir aðstandendur barna, og hætta er á að þessi heimili verði þá munaður fyrir hátekjufólk, en hinir, sem verr eru settir, verði að bjarga sér og sínum börnum sem best þeir mega.

Ég veit ekki hvort menn gera sér almennt ljóst hvað hér er um gífurlega mikla fjárhæð að ræða, en rekstrarkostnaður á vistmánuð er áætlaður rúmar 19 þús. kr. á dagheimili og 6 þús. á leikskóla.

Um málaflokkinn elliheimili gilda mikið til sömu rök. Hér er um félagslegt verkefni að ræða sem á að varða alla þjóðina, og í þessum efnum verðum við að koma á jöfnuði. En hér hefur hæstv. ríkisstj. stigið í hina áttina og ætlar sveitarfélögunum einum að sjá um þennan lið.

Við alþb.- þm. erum andvígir þessu frv. Við vorum samþykkir því ákvæði að sveitarfélögin fengju auknar tekjur, fengju þessi tvö söluskattsstig. En við teljum, að þau hafi nóg við þær að gera þótt ekki sé bætt á þau verkefnum enn frekar.