19.12.1975
Neðri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

121. mál, almannatryggingar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Í aths. með fjárlagafrv. fyrir árið 1976 segir m.a., með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir breytingum á lögum um almannatryggingar, bæði varðandi lífeyristryggingar og sjúkratryggingar. Er unnið að tillögum í þessum efnum á vegum heilbr.- og trmrn. og fjmrn. Ætlunin er að óska þess við þingflokkana að þeir tilnefni fulltrúa í nefnd er fái brtt. til athugunar áður en frv. þar að lútandi verður lagt fram. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að draga megi útgjaldaauka um 2000 millj. kr. frá því sem ætlað er að gildandi reglur og framkvæmd feli í sér.“

Svo mörg eru þau orð. Það frv., sem hér er nú til umr., er framkvæmd þessa þáttar fjárlagafrv. sem boðaður var.

Strax þegar þetta var ljóst, að hæstv. ríkisstj. ætlaði með þessum hætti að ráðast að almannatryggingakerfinu og skera það niður um 2 milljarða án þess að nokkrar hugmyndir hefðu verið fram settar með hvaða hætti það ætti að gerast, kom fram mikil gagnrýni og hörð andstaða gegn slíkri fyrirætlun. Það frv., sem hér er nú til umr. og nefnist frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, er að verulegu leyti annars eðlis en það sem gert var ráð fyrir í sambandi við fjárlagafrv. Hér er að vísu um að ræða niðurskurð og skerðingu á greiðslum til tiltekinna þátta sem nú eru í gildi, en það er þó lítið miðað við það sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir og var ætlun hæstv. ríkisstj.

Annar meginþáttur þessa frv. er svo ný skattheimta. Þar er gert ráð fyrir að leggja á brúttóskatt, 1% á útsvar, og þetta á að gerast og innheimtast í gegnum sveitarfélögin. Eins og hér hefur verið vikið að er þetta í fyrsta lagi í algerri andstöðu við það sem fram hefur komið af hálfu sveitarstjórna. Ég vænti þess að hv. 5. þm. Reykn. verði mér sammála um það og öðrum, sem hafa svipaða skoðun, að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur lýst sig algerlega andvíga þessu frv., hvað sem svo líður skoðun hennar á því frv. sem var verið að ræða áðan.

Eins og getið var um af hv. þm. Vilborgu Harðardóttur liggur fyrir og lá raunar fyrir, strax þegar þetta mál sá dagsins ljós, hörð andstaða stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga og að ég held sveitarstjórnarmanna almennt, og hvað sem hæstv. heilbr.- og trmrh. vill gera lítið úr skoðunum þeirra manna sem nú fara með sveitarstjórnarmál og starfa á þeim vettvangi, þá er, að ég hygg, ljóst að þetta, sem hér er verið að gera, er í algerri andstöðu við viðhorf sveitarstjórnarmanna í sambandi við þessi mál.

Á sameiginlegum fundi heilbr.- og trn. beggja deilda kom fram hjá framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga að hér væri um að ræða mál sem verkaði á sveitarstjórnarmenn eins og skvett væri á þá köldu vatni, eins og hann orðaði það. Og í bréfi, sem vitnað var til áðan, er sérstaklega vikið að því í hörðum mótmælum að hér er farið inn á braut sem er í algerri andstöðu og gengur í berhögg við þær tillögur sem komið hafa fram um endurskoðun verkaskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga, en þar er m. a. bent á að sveitarfélögin hafa verið þeirrar skoðunar að sjúkratryggingar eigi einvörðungu að heyra undir ríkið. Það fer því ekkert á milli mála að þetta frv., sem hér um ræðir, er í andstöðu við sveitarstjórnaraðilana og hér er gert ráð fyrir sérstakri nýrri skattlagningu sem er að verulegu leyti röng skattlagning, þ. e. a. s. með brúttóskatti sem kemur mjög illa við.

Ég skal ekki hafa um þetta mál mörg orð, en eins og nál. okkar í minni hl. heilbr.- og trn. gefur til kynna er ég algerlega andvígur því. Því er haldið fram að vísu að hér sé aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða. Við höfum séð hvert hald er í slíkum yfirlýsingum. Skattur, sem einu sinni hefur verið á lagður, það er líklega hrein undantekning ef hann verður afnuminn aftur.

Hefði verið slík nauðsyn á aukinni skattheimtu til að standa undir því sem hér er um að ræða, þá hefði a. m. k. út af fyrir sig verið æskilegra að hún hefði verið á vegum ríkissjóðs sjálfs heldur en skella því yfir á sveitarfélögin. Ég er ekki með þessu að segja að ég sé meðmæltur skattheimtu í þessum efnum eins og nú er. Ég held að það sé ýmislegt sem bendi til þess að þeir, sem hér er verið að leggja á aukna skatta, hafi nógar byrðar haft að bera í skattheimtu ríkissjóðs að undanförnu. Það hefði verið nær að snúa sér að þeim aðilum sem — eins og hér hefur verið margítrekað í ræðum að undanförnu — eru svo til skattlausir. Hér er fyrst og fremst verið að skattleggja launþega, almennt launafólk, en í engu vikið að þeim aðilum í þjóðfélaginu sem verið hafa og eru svo til skattlausir. Þar er fyrst og fremst átt við atvinnureksturinn í landinu.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð. Það er ljóst að þetta mál er í algerri andstöðu við þær óskir sem fram hafa verið bornar og lengi hafa verið uppi af hálfu sveitarstjórnarmanna. Frv. er því harðlega mótmælt af þeirra hálfu og þarf engan að undra eins og þetta mál er nú lagt fyrir Alþingi.