19.12.1975
Neðri deild: 41. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil aðeins undirstrika það, að hér er um stórmál að ræða og mjög viðkvæmt og vandasamt. En það frv., sem hér liggur fyrir, er að mínum dómi ákaflega fljótfærnislega unnið, svo að ekki sé meira sagt.

Ég ætla ekki að endurtaka það, sem hv. 3. landsk. þm., frsm. minni hl., sagði hér um málið, þar er ég alveg sammála. Það er í rauninni aðeins eitt atriði sem ég hefði gjarnan viljað gera hér að örlitlu umræðuefni. Það er varðandi vinnumiðlunina sem nú er gert ráð fyrir að verði að öllu leyti kostuð af sveitarfélögunum, en hefur áður verið að 1/3 kostuð af ríkinu. Ég verð að segja það, að sá kostnaður ríkisins, sem hér um ræðir, er svo smávægilegur að ég skil raunar ekki hvers vegna verið er að færa til þessa hluti sem þó eru þess eðlis að ríkið verður að hafa þar æðimikið hönd í bagga með ef vel á að vera. Hér er aðeins um 5 millj. kr. upphæð að ræða á ári, og sé ég ekki hvaða þýðingu það hefur fjárhagslega að vera að millifæra þennan kostnað nú frá ríkinu, þann litla kostnað sem þar hefur verið, yfir á sveitarfélögin.

Samkvæmt lögum um vinnumiðlun á ríkið að hafa í hendi eftirlit með framkvæmd laganna. Ég vil alveg sérstaklega undirstrika það, að verkalýðsfélögin víða um landið eiga mjög mikið undir vinnumiðluninni komið, að hún sé í góðu lagi. Er þetta alveg sérstaklega vegna framkvæmdar atvinnuleysistrygginganna, en vinnumiðlunin er algjörlega grundvöllur fyrir því að hægt sé að framkvæma þau lög. Nú verður það að segjast, að mjög víða hefur verið pottur brotinn varðandi framkvæmd vinnumiðlunarinnar í höndum sveitarfélaga. Rn. hefur þess vegna þurft að hafa töluvert eftirlit með framkvæmdinni, og á sínum tíma var ráðinn sérstakur starfsmaður til þess að hafa þetta eftirlit á hendi.

Þrátt fyrir þá breytingu, sem hér er gert ráð fyrir og sjálfsagt verður að lögum, vil ég líta svo á að verkalýðsfélögin hafi sama rétt og áður til þess að snúa sér til rn. um framkvæmd laganna. Og ég vil alveg sérstaklega undirstrika þýðingu þess, að hér verði ekki á nein breyting hvað varðar ábyrgð félmrn. varðandi framkvæmd þessara laga. Og ég hefði mjög gjarnan óskað eftir því að hæstv. félmrh. gæfi hér og nú yfirlýsingu hér að lútandi, að það sé ekki nein breyting á varðandi skyldur rn. í þessum efnum þrátt fyrir það að sveitarfélögin taki nú á sig allan kostnað við framkvæmd laganna. Ég tel að hér sé um svo þýðingarmikið atriði að ræða, að það fari ekkert á milli mála og verði ekki nein eftirkaup með það, að verkalýðshreyfingin eigi sama rétt og hefur verið áður til þess að skjóta sínum málum til rn. varðandi framkvæmd vinnumiðlunar í landinu hér eftir þrátt fyrir samþykkt þessara laga.