19.12.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

1. mál, fjárlög 1976

Frsm. samvn. samgm. (Friðjón Þórðarson) :

Herra forseti. Samgn. beggja þd. eða hin svonefnda samvn. samgm. hefur samkv. venju fjallað um till. og umsóknir um ríkisframlög til flóabáta og vöruflutninga. N. hefur notið aðstoðar forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, og hefur hann veitt henni ýmsar gagnlegar upplýsingar. Hann hefur farið yfir rekstur og áætlanir flóabátanna á svipaðan hátt og verið hefur. Reikningar bátanna sýna að reksturinn gengur mjög erfiðlega. Útgerðarkostnaðurinn er hár og fer vaxandi og þeir starfa við erfið skilyrði. Að því leyti má til sanns vegar færa það, sem segir í nál. og er að vísu prentvilla, en þar segir að s. l. vetur hafi verið „óvenju sjóþungur“. Hann hefur sennilega á ýmsan hátt verið bæði sjóþungur og snjóþungur, þannig að vegfarendur hafa haft strauminn í fangið eins og svo oft áður. Eigi að síður er þjónusta flóabátanna svo mikilvæg að hún má ekki niður falla.

Þegar ég nefni flóabáta á ég aðallega við hina fjóra stóru báta, sem við svo nefnum í samvn., þ. e. a. s. Akraborgina, Baldur, Djúpbátinn og Drang fyrir Norðurlandi.

Nefndinni hafa einnig borist margar umsóknir um fjárframlög til vetrarflutninga, fjárstyrki til snjóbifreiða. Þar hafa nokkrir nýir aðilar bæst í hópinn. Eins og við vitum háttar víða svo til að fáir og erfiðir fjallvegir, snjóþungir og brattir, eru oft eina landleiðin sem íbúar ákveðinna byggðarlaga eiga kost á að fara til þess að ná til aðalvegakerfis landsins. Þessar snjóbifreiðar sinna því ákaflega mikilvægu hlutverki og verða að halda uppi ferðum hvernig sem viðrar og hvernig sem blæs. Þetta er því að allra dómi mjög mikilvæg þjónusta og öryggistæki í hverri byggð. En það er eins um þessa aðila að segja, að fjárhagur þeirra virðist yfirleitt vera þröngur, að því er fram kemur af þeim skjölum sem þeir senda okkur. Þeir berjast í bökkum fjárhagslega og það svo mjög að sumir virðast vera að þrotum komnir. N. hefur reynt að hlaupa undir bagga þar sem erfiðast er að hennar dómi, en hvort nóg er að gert skal ósagt látið, og þó, ég veit raunar að það er allt of lítið að gert, því að hvort tveggja er, að n. hefur lítið fé úr að spila, en þarfir þessara aðila eru miklar og verkefni erfið og margvísleg. Ég hygg því að mörgum þeim, sem sótt hefur um fé að þessu sinni, þyki smátt skammtað.

Ég mun nú fara örfáum orðum um samgöngur í hinum einstöku byggðarlögum.

Norðurlandssamgöngur. Þar er það Norðurlandsbáturinn Drangur sem heldur uppi ferðum frá Akureyri til Eyjafjarðarhafna, til Ólafsfjarðar, Siglufjarðar, Hríseyjar og Grímseyjar. Hann sinnir þarna ákaflega þörfu hlutverki. Hann virðist hafa haft næg verkefni að undanförnu, sendi okkur skilmerkilega grg. og reikninga um sína starfsemi og virðist vera vel rekinn. Við höfum lagt til að framlag hans verði nokkuð hækkað. — Þá er það Hríseyjarbátur, sem fer milli Dalvíkur og Hríseyjar. Við höfum einnig lagt til í n. að rekstrarstyrkur hans verði að nokkru hækkaður. — Grímseyjarflug fær sama styrk og það hafði á þessu ári sem ná er að líða. — Einnig er um að ræða nokkrar snjóbifreiðar í Norðlendingafjórðungi.

Að því er varðar Austfirðingasamgöngur er þess helst að geta, að þar er enginn stór flóabátur til. Þar er að vísu Mjóafjarðarbátur sem hefur verið rekinn í mörg ár. Við leggjum til að styrkur til hans verði að nokkru hækkaður. Á hinn bóginn eru á Austurlandi margar snjóbifreiðar og talið er að þær hafi sinnt mjög þörfu hlutverki, haldið uppi ferðum um háa og erfiða og snjóþunga fjallvegi. En það er eins og gengur, það er erfitt að halda slíkum ferðum uppi og með öllu ómögulegt virðist vera að reka þær á gróðavænlegan hátt. Það er sérstaklega ein meginleið á Austurlandi sem hefur verið nokkuð umrædd í n. Það er leiðin yfir Fjarðarheiði sem talin er ein af allra erfiðustu fjallvegum landsins, bæði snjóþung, löng og erfið. Þeir aðilar, sem haldið hafa uppi ferðum um Fjarðarheiði undanfarin ár, hafa sýnt fram á mikinn hallarekstur, svo mikinn að þeir telja sig ekki geta risið undir honum öllu lengur. Þess vegna höfum við gert þá till. að styrkur til vetrarferða um Fjarðarheiði verði hækkaður verulega. Ég nefni þessi dæmi sérstaklega þar sem við höfum orðið að láta okkur lynda yfirleitt að láta styrkina standa í stað hvað krónutölu snertir, en þá gefur jafnfram auga leið að þeir lækka í raun og veru stórlega miðað við vaxandi dýrtíð.

Um Suðurland er það að segja, að veittur hefur verið styrkur til vöruflutninga til hinna hafnlausu byggða í Vestur-Skaftafellssýslu í mörg ár. Leggjum við til að sami styrkur verði veittur og verið hefur.

Faxaflóasamgöngur. Þar er það hinn stóri og myndarlegi flóabátur Akraborg sem heldur uppi ferðum á hinni fjölförnu leið milli Akraness og Reykjavíkur. Sá bátur er rekinn af hlutafélaginu Skallagrími. Þetta er mikill bátur, eins og margir hafa séð. Síðan hafnaraðstaða var bætt á Akranesi og í Reykjavik, þannig að hægt er að aka bifreiðum að og frá borði, hafa verkefni þessa báts vaxið svo mikið að s. l. sumar kom fyrir að hann gat ekki annað þeim verkefnum sem fyrir lá, u. Þetta virðist benda til þess að við þessa bættu aðstöðu hafi notagildi skipsins stóraukist, enda er mikið um flutninga og ferðamenn á þessari leið. Von manna er því sú, að þessi bátur eigi jafnvel eftir að bera sig sæmilega. Þó er ekki til fulls á það reynt, því að sjá verður hvernig reksturinn kemur út á ársgrundvelli. Þess vegna hefur n. lagt til að styrkur til hf. Skallagríms verði óbreyttur að þessu sinni.

Breiðafjarðarsamgöngur. Þar er það flóabáturinn Baldur sem heldur uppi ferðum frá Stykkishólmi til Reykjavíkur og um Breiðafjörð. Hann hefur fastar áætlunarferðir yfir Breiðafjörð að Brjánslæk um Flatey, sinnir vestureyjum Breiðafjarðar, þeim sem byggðar eru, og annast flutning til Hvammsfjarðar og Gilsfjarðar. Hagur þessa báts er þröngur eins og oft áður. Þess vegna hefur n. að athuguðu máli mælt með hækkaðri styrkveitingu til hans og jafnframt, þar sem fjárhagsvandi hans verður ekki leystur af þeirri litlu fjárfúlgu sem við höfum úr að spila, verði gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að bæta hag hans í framtíðinni, eins og ég kem að síðar.

Um Vestfjarðasamgöngur er það að segja, að þar er fyrst að staldra við Djúpbátinn Fagranes sem annast ferðir og flutninga um Ísafjarðardjúp og til kauptúna og kaupstaða í Ísafjarðarsýslum. Hann sinnir þarna mjög mikilvægu hlutverki. Um þennan bát má segja hvað rekstur hans snertir, að þar virðast skiptast á skin og skúrir. Fyrir nokkrum árum virtist þessi bátur bera sig allvel, en nú á síðustu árum hefur rekstrinum hrakað mjög, hvað sem veldur. Ég vil þó sérstaklega taka það fram að því er þennan bát varðar, Djúpbátinn Fagranes, að hann hefur nú sem jafnan áður skilað mjög ítarlegum grg. og reikningum yfir sína starfsemi. Þetta ber sannarlega að þakka, því að það verður að segjast eins og er, að sumir þeir aðilar, sem hafa orðið styrkja aðnjótandi úr okkar hendi, — ég leyfi mér að segja: sækja um þá seint og illa. Um flóabátinn Fagranes er það enn fremur að segja, að greinilegt er að vandi hans verður ekki leystur á vettvangi samvn. samgm. eða af því fé sem sú n. hefur yfir að ráða. En ég held að mér sé óhætt að segja eftir umr. þær sem urðu í n., að nm. hafi fullan hug á að skoða vandamál þessa báts rækilega og styðja að því að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til þess að hann komist aftur á réttan kjöl að þessu leyti, og minnist ég á það síðar að nokkru.

Um Vestfirði skal tekið fram, að þar eru veittir nokkrir allsæmilegir styrkir til snjóbifreiða og vetrarflutninga, enda ekki vanþörf á.

Nm. í samvn. samgm. eru sammála um að æskilegt væri að miklu nákvæmari gögn fylgdu yfirleitt fjárbeiðnum, flóabátanna sérstaklega, og í framtíðinni þyrfti að sjá til þess að komið yrði fastara skipulagi á þessi mál og nákvæmara eftirliti með rekstri bátanna. Jafnframt þyrfti að fylgja hverri fjárbeiðni til n. glögg grg. um þörf og aðstöðu alla, þegar sótt er um styrki til snjóbifreiða og vetrarsamgangna. Þessa ályktun sína, sem ég hygg, að hafi komið til umr. meira og minna á hverju ári í n., hefur hún nú ítrekað. Og til þess að hafa þetta nú meira en orðin tóm var samþykkt svofelld till. shlj. í n., sem ég leyfi mér að lesa upp:

„Samvn. samgm. ályktar að fara þess á leit við Framkvæmdastofnun ríkisins að hún láti áætlanadeild sína athuga og gagnrýna reikninga flóabátanna, sérstaklega hvað varðar launagreiðslur og annan útgerðarkostnað. Enn fremur verði gerður samanburður á fargjöldum og farmgjöldum. Telur n. að óviðunandi sé að taka ákvarðanir um svo háar fjárveitingar oftar án þess að glögglega sé gengið úr skugga um að þessu fé sé skynsamlega varið og að fjárveitingar séu bráðnauðsynlegar vegna viðkomandi byggðarlaga.“

Að venju er það skilyrði sett fyrir því, að styrkur verði veittur og greiddur, að rekstri flóabátanna og annarra þeirra, er styrki hljóta verði hagað þannig í samráði við rn. að þjónustan við landsbyggðina verði í senn hagkvæm og örugg.

Það gefur auga leið að erfitt er að samræma sjónarmið allra 14 nm. í samvn. samgm. þegar um slíka úthlutun er að ræða. Þó hefur samvinna verið furðugóð, sem best sést á því að allir nm. hafa undirritað þetta nál. og þá úthlutunargerð sem ég mun gera nánar grein fyrir hér á eftir, aðeins einn með fyrirvara.

Heildartillaga n. með hliðsjón af því, sem ég hef nú vikið að, er sú, að fjárveiting til flóabáta, snjóbifreiða, fólks- og vöruflutninga árinu 1976 verði samtals 82 millj. 830 þús. kr., og hefur sá liður fjárlagafrv. því hækkað í meðförum n. Það gaf auga leið strax í upphafi að þessi fjárlagaliður yrði að hækka að einhverju marki, og hygg ég að þessi hækkun sé við hæfi, miðað við það verkefni sem við er að fást.

Ég kem þá að skiptingu fjárins.

Í fyrsta lagi er lagt til, að Norðurlandsbáturinn Drangur fái til rekstrar 13.2 millj. Hann hafði síðast 12 millj. Ég vil taka það fram, að flestar þær upphæðir, sem vikið verður að hér á eftir, eru óbreyttar frá síðustu fjárl. Það var ekki unnt að hækka þær nema þar sem við töldum þörfina sérstaklega brýna. Samkv. 2. tölul. er lagt til að veita til vetrarsamgangna í Árneshreppi 180 þús. Til Hríseyjarbáts er fjárstyrkur nokkuð hækkaður, hann fer upp í 700 þús., en var 550 þús. Sami fær í stofnkostnað 200 þús. Grímsey vegna flugferða 500 þús. Til snjóbifreiða í Dalvíkurlæknishéraði 200 þús.

Mjóafjarðarbátur, hann höfum við hækkað úr 800 upp í 900 þús., og sami fær smávegis stofnstyrk eða greiðslu upp í stofnkostnað 50 þús. Snjóbifreið í Vopnafirði 200 þús. Til snjóbifreiðar á Fjarðarheiði lagði n. til að veittar yrðu 2.5 millj. kr. á móti 1 millj. á fjárl. 1975, vegna þess að þörfin var talin svo brýn og við lá að sá, sem annast þessar ferðir, gæfist upp að fullu og öllu. Sami aðili hlýtur í stofnkostnað 500 þús. eins og tvö undanfarin úr. Til snjóbifreiðar á Fagradal eru veittar 270 þús. kr. Sami aðili fær stofnstyrk, það er nýr liður, 250 þús. vegna kaupa á nýjum bíl. Snjóbifreið á Oddsskarði, lagt er til að styrkur til hennar verði 900 þús. kr. í stað 800 þús. kr. í fyrra. Sami aðili hlýtur í stofnkostnað 200 þús. kr. Snjóbifreið á Fljótsdalshéraði 170 þús. Snjóbifreið í Borgarfirði eystra fær samkv. þessu fjárframlag hækkað úr 200 upp í 300 þús. kr. Þetta er mjög afskekkt byggðarlag og samgöngur erfiðar. Snjóbifreiðar frá Stöðvarfirði til Egilsstaðaflugvallar 250 þús. kr.

Til vöruflutninga á Suðurlandi leggjum við til að sama fjárhæð verði veitt og síðast, 2 millj. Til Vestmannaeyja vegna mjólkurflutninga 1.3 millj. kr.

Hf. Skallagrímur eða Akraborg fær samkv. þessu 15 millj. eins og s. l. ár. Mýrabátur, smábátur í Mýrasýslu, hlýtur samkv. þessu 30 þús. kr. eins og hann hefur haft nokkur undanfarin ár. Til vetrarflutninga í Breiðavíkurhreppi eru veittar 120 þús. kr. Stykkishólmsbáturinn Baldur fær samkv. þessu 21 millj. kr. til síns rekstrar, hafði á síðustu fjárl. 17 millj. Þá er það Langeyjarnesbátur. Sá bátur annast ferðir frá Stykkishólmi til Hnúksness í Klofningshreppi og um eyjar Hvammsfjarðar. Hann hefur hlotið nokkurn styrk undanfarin ár. Við leggjum til að styrkur til hans verði óbreyttur, 250 þús. kr., en stofnstyrkur, sem hann hafði á árinu 1975, 150 þús., falli niður.

Þá er það 21. tölul., snjóbifreið í Austur-Barðastrandarsýslu, óbreytt frá síðasta ári 180 þús. kr. til vetrarflutninga í Vestur-Barðastrandarsýslu, við leggjum til að sá liður hækki um 100 þús. kr. upp í 650 þús. Þórður á Látrum, sem virðist vera aðalmaður í þessum flutningum, hefur sent greinargott yfirlit um störf sín og bent á nauðsyn þess að þessum ferðum sé haldið uppi. Skv. 23. tölul., fær Dýrafjarðarbátur 150 þús. Snjóbifreið um Botnsheiði 370 þús. kr. Djúpbáturinn hf. Fagranes, við leggjum til að framlag til hans hækki um 4 millj. eða upp í 17 millj. kr. Sami bátur hefur fengið vegna mjólkurflutninga úr Dýrafirði 200 þús. kr., sem helst óbreytt.

Þá er það snjóbifreið í Þórshafnarhéraði 200 þús. kr. Snjóbifreiðar á Akureyri 300 þús. kr. Sömu aðilar, stofnstyrkur, að þessu sinni 150 þús. kr., en var s. l. ár 300 þús. kr.

Þá er næst að minnast á vetrarflutninga um Lónsheiði. Sá fjallvegur er talinn erfiður og illur viðureignar af þeim sem til þekkja. Við höfum lagt til að styrkur til þeirra ferða verði að nokkru hækkaður, eða um 100 þús. kr. upp í 400 þús. Snjóbifreið Axarfjörður-Kópasker 300 bús. Snjóbifreið á Hólmavík 220 þús. kr., en stofnstyrkur, sem þessum aðilum var veittur í fyrra, felldur niður. Þá er það snjóbifreið í Hálshreppi, Suður-Þingeyjarsýslu, 220 þús. kr., jafnhár og í fyrra. Vetrarflutningar í Skarðshreppi 80 þús. kr. Vetrarsamgöngur í Reykhóla- og Gufudalshreppi 300 þús. kr. Snjóbifreið í Austur-Húnavatnssýslu 100 þús. Egilsstaðir Seyðisfjörður vegna mjólkurflutninga 200 þús. kr.

Þeir aðilar, sem ég á nú eftir að nefna, sækja nú um í fyrsta sinn. Að vísu er þess að geta um vetrarferðir í Haukadal, að styrkur til þeirra féll niður á s. l. ári, en þeir sækja um aftur nú. En þessir aðilar, sem sækja nú um, en sóttu ekki um á s. l. ári, eru þeir sem annast í fyrsta lagi póst- og vöruflutninga á Jökuldal. Lagt er til að þeir fái 100 þús. kr. styrk. Vetrarferðir í Víkurumdæmi, lagt er einnig til, að þessir aðilar fái 100 þús. kr. styrk. Vetrarferðir í Haukadal 60 þús. kr. Flugbjörgunarsveitin á Akureyri 250 þús. kr. Það var álit manna í n. að ekki væri fært að neita þessari beiðni, enda þótt við megi búast að við köllum með þessu yfir okkur aðrar flugbjörgunarsveitir í framtíðinni. Þá er það ný umsókn, snjóbifreið í Önundarfirði. Þar leggjum við til að veittur verði 100 þús. kr. styrkur. Og loks Svínafell í Nesjum, þangað verði veittur 30 þús. kr. styrkur. Það er stutt þeim rökum að þessi bær sé umflotinn jökulfljótum á báðar hliðar og mjög erfitt að komast að og frá því býli ef eitthvað bjátar á.

Ég hef gert grein fyrir þessari skiptingu, en eins og ég sagði áðan var talið að tveir flóabátar væru þannig á vegi staddir að málefnum þeirra yrði að sinna sérstaklega, þ. e. a. s. flóabáturinn Baldur og Djúpbáturinn Fagranes. Það hefur vonandi verið gert að nokkru með því móti að tekinn er inn sérstakur liður á heimildagrein fjárl. að því er þessa báta snertir. Það eru u-liður á þskj. 242 í brtt. fjvn., en þar segir að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast allt að 15 millj. kr. lán vegna flóabátanna v/b Baldurs og v/b Fagraness. Ég þori ekki að fullyrða hvort þessi aðstoð, sem þarna er fram boðin, sé næg en á það verður að reyna. Og það verður að skoða vandlega vandamál þessara báta og raunar fleiri aðila á komandi ári, því að eilífur barningur og barátta við erfiðan fjárhag og andstreymi í þessum flutningum er svo niðurdrepandi fyrir þá, sem halda þeim uppi, að það verður bókstaflega að reyna að finna lausn á þeim málum. Við erum öll sammála um að þessi þjónusta sé svo dýrmæt að hún megi ekki með nokkru móti niður falla og þess vegna sé eina leiðin að reyna að finna þar viðunandi lausn.

Ég vil geta þess að lokum, að þeim aths. var hreyft á fundi n. að í raun og veru væru verkefni hennar mjög takmörkuð og verksvið sáralítið. N. ber að sönnu allvirðulegt og hljómmikið heiti, samvinnunefnd samgöngumála, en viðfangsefni hennar er nánast það eitt að skipta flóabátafé milli umsækjenda á örfáum fundum í svartasta skammdegi ársins, rétt fyrir jólin. Það má því með nokkrum sanni segja, að samanborið við verksviðið sé heiti n. hljómandi málmur og hvellandi bjalla. Fjárfúlga sú, sem n. fær til skiptingar, er og svo naum að nær allir verða óánægðir, hver sem hlutur þeirra kann að verða. Satt er það, að n. þessi annast aðeins örlítinn þátt þeirra mála sem almennt eru nefnd samgöngumál og hefur svo lengi verið, að ég ætla. Þessari aths., sem gerð var og ekki er ætlunin að gera hér frekar að umræðuefni, er hér komið á framfæri.

Að lokum vil ég svo færa bestu þakkir til allra samstarfsmanna minna í samvn. samgn.