27.01.1976
Sameinað þing: 41. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

60. mál, jafnrétti kynjanna

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Þessi till. var flutt í desembermánuði s. l., þótt hún vegna anna þingsins þá, einkum í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, hafi ekki komist á dagskrá fyrr en nú. Það er rétt sem hæstv. félmrh. sagði í ræðu sinni, að þegar þingflokkur Alþfl. hafði ákveðið að flytja þessa till. og hún var fullsamin, þá bar ég tiltekið atriði í till. og grg. hennar undir starfsmann í félmrn. sem þá sagði mér að ríkisstj. hefði látið semja frv. um jafnrétti kynjanna sem að mörgu leyti væri svipaðs eðlis og norska frv. sem hér hefur verið gert að umræðuefni, og staðfesti hæstv. ráðh. það við mig síðar sama kvöld að slíkt frv. hefði verið samið. Þegar ég hins vegar spurði hvort formleg ákvörðun hefði verið tekin um að flytja frv., þá var sagt, að sú ákvörðun hefði ekki enn verið tekin. Þess vegna þótti okkur í þingflokki Alþfl. engin ástæða til að fresta því eða láta hjá líða að flytja till.

Nú gaf hins vegar hæstv. ráðh. þá skýlausu og ótvíræðu yfirlýsingu, — ég vona að ég hafi skilið það alveg rétt, — að frv. yrði flutt, og lýsi ég yfir sérstakri ánægju yfir því.