03.02.1976
Sameinað þing: 43. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

27. mál, atvinnuleysistryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Á Alþingi voru 16. maí 1975 samþ. lög um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar (fæðingarorlof), þess efnis, að aftan við 5. málsgr. 10. liðar 15. gr. laganna komi nýr málsliður, svo hljóðandi: „Þó skulu þær konur, sem forfallast frá vinnu vegna barnsburðar, njóta atvinnuleysisbóta í 90 daga samtals.“ Þessi lög komu til framkvæmda 1. jan. 1976, og var gefin út í janúarmánuði reglugerð um framkvæmd laganna.

Um þessi lög hafa orðið nokkrar deilur, að þessi kvöð skyldi lögð á Atvinnuleysistryggingasjóð, vegna þess að ráðstöfunarfé hans minnkar mjög verulega, en auk þess að greiða atvinnuleysisbætur hefur þessi sjóður lánað til atvinnuveganna, sérstaklega þó til ríkisframkvæmda og þó sér í lagi til húsnæðisframkvæmda mjög mikið, svo að þessi lög hafa þrengt athafnasvið sjóðsins. Hins vegar eru þessi lög í gildi og ég sem heilbr.- og trmrh. gat hvorki né vildi annað en gefa út reglugerð um framkvæmd laganna.

Því ákvæði til bráðabirgða var bætt við þessi lög, að fyrir 1. jan. 1976 skyldi ríkisstj. „láta kanna á hvern máta megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni.“ Eins og öllum er kunnugt varð að draga eins og hægt var úr ríkisútgjöldum, og stefnt er að því að draga úr verðbólguhraðanum og tryggja hallalausan rekstur ríkissjóðs. Við þær aðstæður, sem nú eru, þótti ríkisstj. ekki fært að fara í nýja fjáröflun á þessu sviði, heldur reyna að halda eins og hægt er í horfinu í þessum efnum. Skal ég geta þess, sem allir þm. raunar vita, að framlög til sjúkratrygginganna hækkuðu á milli ára um hvorki meira né minna en 4000 millj. kr. Hitt var líka mikils virði, að láta ellilaun, örorkubætur og aðrar slíkar bætur fylgja kaupgjaldi, enda hefur nýlega verið ákveðið að hækka um 5% öll elli- og örorkulaun og enn fremur tekjutryggingu til þeirra sem tekjulausir eru, en sú ákvörðun kostar um 351 millj. kr. á ársgrundvelli.

Mér fyrir mitt leyti finnst rétt að sjá hvernig tekst til um framkvæmd fæðingarorlofslaganna fram eftir þessu ári, en tel einnig sjálfsagt og eðlilegt að sú n., sem nú vinnur að endurskoðun almannatryggingalaganna almennt, taki þessi mál upp í sambandi við sína endurskoðun. Þetta starf er ekki komið nógu langt á leið. Hins vegar hefur sá maður, sem heilbr.- og trmrn. fól undirbúning að endurskoðun almannatryggingalaga, Guðjón Hansen, unnið mjög mikið starf og er nú langt kominn með sína undirbúningsvinnu, þannig að hægt er að herða mjög á starfi n. Ég fyrir mitt leyti hef mikinn hug á því að n. ljúki störfum fyrir næsta haust og þá verði lagt fram frv. að nýjum lögum, — eða breyt. á almannatryggingalögunum og þá verði þessi mál tekin til gaumgæfilegrar athugunar. Þetta er sem sé ástæðan fyrir því, að ákvæði til bráðabirgða kemur ekki í framkvæmd frá 1. jan. 1976, enda er það æðimikill og merkur áfangi að hafa tekið hið almenna fæðingarorlof til framkvæmda skv. þessum lögum frá 1. janúar 1976, þó að vissulega hvíli nokkrar áhyggjur á mönnum vegna þess hvað þrengdur hefur verið fjárhagur eða réttara sagt umsvif Atvinnuleysistryggingasjóðs.