05.02.1976
Efri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

99. mál, skráning og mat fasteigna

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að lagt er fram að nýju frv. um skráningu og mat fasteigna. Mönnum er fullljóst, a. m. k. öllum þeim sem nokkuð hafa fjallað um fasteignamat og uppbyggingu þess eða notagildi fyrir sveitarstjórnir og aðra aðila, að nú er nokkur hætta á því að sú verðmæta vinna, sem lögð var í síðasta aðalmat fasteigna, fari forgörðum og gildandi mat og skráðar upplýsingar komi ekki að notum við endurnýjun fasteignamatsins, svo að ganga þurfi að nýju til umfangsmikillar vinnu við skoðun mannvirkja og annarra eigna. Er því mikilvægt að reyna, áður en lengra líður, að tengja þetta betur því framtíðar- og frambúðarskipulagi sem á skráningu og mati fasteigna verður.

Eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. hefur nú liðið nokkuð á þriðja ár frá því að frv. um skráningu og mat fasteigna var lagt fram í þessari hv. d. og fékk reyndar þá afgreiðslu, en náði ekki fram að ganga í Nd. Það er því ekki vonum fyrr að þetta mál kemur hér á dagskrá að nýju.

Ég vil strax undirstrika það, að ég tel frv. í því formi, sem það nú er lagt fram, taki nokkuð fram því frv. sem við fjölluðum um fyrir tveimur og hálfu ári. Ekki síst tel ég vera kost að fallið er frá því matsmannakerfi sem þá var gert ráð fyrir að yrði í gildi áfram, en var nokkuð gagnrýnt hér í deildinni og þó sérstaklega fyrir það, að það þótti hvorki vera fugl né fiskur og það mundi ekki valda því verkefni sem því var ætlað að inna af höndum.

Ég stend ekki upp hér til þess að gera aths. við efnisatriði frv. En við 1. umr., þegar fyrra frv. var lagt fram, gerði ég fáeinar aths. við orðalag eða orð, sem í frv. eru notuð, og því miður rek ég mig á það að ekki hefur verið breytt frá því sem upphaflega var í frv. þeim orðum sem ég þá gerði aths. við.

Það má segja að orð hafi e. t. v. ekki allt að segja í þessu efni. Ég tel þó að við eigum hér á hv. Alþ. að kosta kapps um að viðhalda í lagafrv. málvenjum og góðum orðum sem áður hafa verið notuð af öllum almenningi um landið allt. Mér flaug í hug þá að e. t. v. væri það málvenja aðeins í mínu byggðarlagi að tala um landamerki í staðinn fyrir landamörk og þess vegna væri ekki horfið að því að tala um landamerki í þessu nýja frv., eins og mér fannst að menn væru hér yfirleitt sammála um að gera. Ég sé að það hefur ekki verið eingöngu málvenja á Suðurlandi, því að í eldri lögum um fasteignamat er talað um það í 13. gr., að „geta skal þess hvort landamerki eða lóðamörk séu ágreiningslaus“. Aftur á móti í þessu nýja frv. stendur svo í 2. gr.: „Land, þ. e. hver sá skiki lands sem vegna sérgreinds eigna- eða afnotaréttar, hagnýtingar, auðkenna eða landamarka getur talist sjálfstæð eind.“ Enn fremur í 3. gr., þar sem taldar eru upp þær upplýsingar um land sem eigi að skrá í fasteignamat, þá er í 3. lið: ,,Landamörk eða vísan til hvar þau eru skráð.“

Eins og ég hef bent hér á, gera eldri lög um fasteignamat ráð fyrir því að hafa hér yfir annað orð og er það endurtekið í þeim lögum aftur og aftur. T. d. ber 1. kafli laganna heitið „Um gerð landamerkja, merkjalýsing og viðhald.“ II. kafli í eldri lögum heitir: „Um meðferð landamerkjamála.“ Og 10. gr. ákveður að sá dómur, sem geri út um ágreining um landamerki, heiti merkjadómur.

Ég vil með tilvísun til þessara atriða, sem ég hef hér tínt fram, beina því til þeirrar n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún athugi hvort ekki sé rétt að hverfa til þessarar málvenju sem jafnan hefur verið viðhöfð um landamerki á Íslandi.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða um þetta frv. að þessu sinni. Ég gat um það hér áður, þegar þetta frv. var rætt í d., að mér sýndist nokkur vafi leika á því, hvort það væri rétt að telja upp í 3. gr. jafnmörg atriði og gert er, sem ættu að taka til skráningar við hverja fasteign, hvort ekki væri eðlilegra að fella það í reglugerð, því að svo gæti farið að það þyrfti að taka upp nýjar greinar eða ný atriði til skráningar, og til þess að það væri leyfilegt yrðum við að breyta lögunum. Annars þyrfti varla annað að gera en að gefa út nýja reglugerð.

Miklu minna atriði, en þó ekki algerlega þýðingarlaust, er það að hér eru nýyrði á ferð, sem ugglaust munu ryðja sér til rúms. Ég hef ekki fengið fyllilega upplýst hvort þau eru nauðsynleg á þessu stigi eða hvort það er samkomulag um að nota þau yfir höfuð í opinberum fyrirmælum. Svo segir í niðurlagi 5. gr. frv.: „Fasteignaskrá ber að annast gerð og samræmingu hvers konar greinitalnakerfa sem notuð eru um fasteignir við skráningu þeirra, þar með talin gerð staðgreinitölukerfis sem taki til landsins alls.“

Ég fellst á það, að með tölvutækninni þurfi að sjálfsögðu að taka ýmis ný orð upp í fyrirmæli og lög. En mér þykir t. d. orð eins og „staðgreinitölukerfi“ vera heldur leiðinlegt orð yfir þetta fyrirbæri.