05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins með örfáum orðum segja það í tilefni af ræðu hv. 11. þm. Reykv., að ef hann hefur skilið það svo að ég væri að setja einhverja kosti og vildi fá þetta í staðinn fyrir hitt, þá er það alger misskilningur. Það, sem ég vildi leggja áherslu á, er að þau atriði, sem ég tók fram og voru ágreiningsatriði varðandi stjórnun á þróun landbúnaðarframleiðslunnar, eru fyrir mér svo veigamikið og þýðingarmikið atriði að það þolir ekki þá bið sem hlýtur að verða við heildarendurskoðun á framleiðsluráðslögunum. Þróun og stefnumörkun á landbúnaðarmálum á að vera sívirk, og við komum aldrei á einhvern ákveðinn punkt þar sem búið er að marka landbúnaðarstefnuna, ef hún er rétt. Ég tel að við stöndum svo höllum fæti varðandi það atriði sem ég talaði um, að það mætti ekki geyma það og þess vegna ætti það að koma með þeim hætti sem nú er verið að afgr. vegna mjólkursölunnar í Reykjavík.