10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

50. mál, framkvæmd á lögum um ráðstafanir í sjávarútvegi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Eins og hæstv. fyrirspyrjandi tók fram, afhenti ég honum svar við þessari fyrirspurn í desembermánuði eða nokkru fyrir jól, vegna þess að ekki var hægt að taka fyrirspurnina fyrir vegna anna og ég ætla að svara eða lesa það svar upp, en tek það fram í upphafi, að það svar er samið í byrjun desembermánaðar, en síðan eru nokkrar innborganir inn á gengismunareikning og svo nú um áramótin vextir af innistæðum.

1. spurning:

Samkv. a- lið 9. gr. laga nr. 106 1974 á að verja 600 millj. kr. „til að greiða hluta gengistaps erlendra skulda, eigenda fiskiskipa“, og samkv. b- lið 1. gr. laga nr. 55 1975 950 millj. kr. „til þess að létta stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa sem orðið hafa fyrir gengistapi vegna erlendra og gengistryggðra skulda“.

Ofangreindar gengisbætur hefur fiskveiðasjóður reiknað út og mun annast greiðslur á þremur árum, en bæturnar hafa verið ákveðnar 6% ógreiddra og ógjaldfallinna höfuðstólseftirstöðva samkv. eldri lögunum og 5,8% samkv. nýrri lögunum. Til frekari upplýsinga vísa ég til reglugerðar frá 14. okt. s. l.

Ég held, að það sé ákaflega erfitt að birta skrá yfir styrki sem ekki er búið að greiða út, þar sem þeir verða greiddir á 3 árum. Það er sama prósenta sem kemur á þessar erlendu skuldir til allra manna sem keypt hafa fiskiskip á þessu tímabili, það fer alveg eftir skuldarupphæð í erlendri mynt hverju sinni, og fiskveiðasjóður hefur það til afgreiðslu.

Samkv. umræddum greinum sem ég vitnaði hér í, er sjútvrn. heimilað að ráðstafa 400 millj. kr. í hvoru tilfelli, alls 800 millj. kr., til lánveitinga í sjávarútvegi til 2–3 ára til að bæta lausafjárstöðu fyrirtækja, þ.e. eigenda fiskiskipa og vinnslustöðva.

Af þessum fjármunum hafa 320 millj. kr. verið lánaðar Fiskveiðasjóði vegna „konverteringar“ og 300 millj. kr. til Byggðasjóðs, sem ráðstafaði þeirri upphæð til fyrirtækja og einstaklinga, eða alls 620 millj. kr. til að bæta lausafjárstöðu aðila í sjávarútvegi. Þá var 70 millj. kr. ráðstafað með milligöngu Seðlabankans til Landsbankans og Útvegsbankans, sem þeir aftur ráðstöfuðu sem viðbótarrekstrarlánum til stóru skuttogaranna til þess að auðvelda þeim upphaf rekstrar að afloknu verkfalli. Lánin til Fiskveiðasjóðs og Byggðasjóðs eru til 2–3 ára með 13% og 12% ársvöxtum, en lánin til stóru togaranna bera sömu vexti og almenn rekstrarlán til skipa, eða 11% á ári, og eiga að endurgreiðast á 6 mánuðum. — Þessi lán eru nú þegar endurgreidd að mestu leyti.

Byggðasjóður ráðstafaði þessum 300 millj. og ábyrgist endurgreiðslu á þessum lánum innan tiltekins tíma, þannig að þau koma til fiskveiðasjóðs eins og lög gera ráð fyrir. Upphæðunum, sem Fiskveiðasjóður tekur og endurlánar viðskiptabönkunum, veit ég ekki hvernig hefur verið ráðstafað. Það hefur verið algjörlega í bankakerfinu, í gegnum Seðlabankann og milli viðskiptabankanna. Ég hygg, að það verði erfitt að fá það upp. Hins vegar er það mál Byggðasjóðs hvernig hann hefur ráðstafað þessum 300 millj. kr., en ég veit til þess að Byggðasjóður lánaði sérstaklega þeim sem fóru illa út úr „konverteringunni“. Þar greiddi hann fyrir útgerðaraðilum, og ég hygg að stærstu upphæðirnar af þessum 300 millj. hafi farið hér á Reykjanessvæðið og til Vestmannaeyja. En hvernig því var ráðstafað milli ákveðinna aðila veit ég ekki.

Samkv. lögum nr. 106 1974, b- lið 9. gr., var ráðstafað 250 millj. kr. sem óafturkræfu framlagi til bátaflotans vegna rekstrarerfiðleika á árinu 1974 til 15. sept., og samkv. e- lið sömu gr. 230 millj. kr. til skuttogara til að bæta rekstrarafkomu þeirra.

Með auglýsingum og tilkynningum var í okt. 1974 tilkynnt um fyrirhugaða „konverteringu“ lána í sjávarútvegi og þá um leið kallað eftir reikningum fyrirtækjanna fyrir árið 1973 og bráðabirgðauppgjöri fyrir árið 1974.

Lög nr. 106, um ráðstöfun gengishagnaðar o. fl., voru samþ. 19. des. 1974. Daginn eftir sendi sjútvrn. út tilkynningu til útgerðaraðila um ráðstöfun gengishagnaðar til að bæta rekstrarafkomu bátaflotans, og þá um leið tilkynnt að þeir einir kæmu til greina við úthlutun sem sendu reikninga vegna „konverteringarinnar“ og úthaldsskýrslur til Aflatryggingasjóðs. Síðan ítrekaði LÍÚ við sína meðlimi að senda umbeðin gögn og einnig trúnaðarmenn Fiskifélags Íslands beðnir að ýta á ettir umræddum skýrslum og reikningum.

Að höfðu samráði við Landssamband ísl. útvegsmanna og framkvæmdastjóra Aflatryggingasjóðs var ákveðið að úthlutun fjárins samkv. b.- lið færi fram í þrem þáttum:

1. Eftir úthaldsdögum skipanna, (mannúthaldsdögum) til allra skipa 20 brúttólestir að stærð og stærri, en undanskilið var úthald á loðnuveiðum, síldveiðum, rækjuveiðum, hörpudiskaveiðum og handfæraveiðum. Samkv. þessari reglu var úthlutað 89,6 millj. kr. til 450 skipa.

2. Eftir aflabrögðum bátanna á umræddu tímabili. Við ákvörðun kvóta var byggt á framangreindum reikningum og úthaldsskýrslum og auk þess útreikningum á því, hvað aflaverðmæti báta með hinum ýmsu veiðarfærum og áhafnafjölda þyrfti að vera til þess að viðkomandi skip aflaði fyrir kauptryggingu.

Þannig var fenginn ákveðin viðmiðun við útreikninga á bótum til allra báta án tillits til stærðar. Síðan voru bætur frá Aflatryggingasjóði dregnar frá útreiknaðri bótaupphæð. Samkv. þessum lið voru greiddar 132.1 millj. kr. til 252 báta.

3. Samkv. þessum lið voru greiddar bætur vegna sérstakra óhappa, vélbilana o. fl., og annarra óbættra tjóna sem bátar urðu fyrir á úthaldstímunum. Aðalreglan var sú að bæta hluta af kauptryggingu áhafnar á meðan viðkomandi bátur var frá veiðum. Samkv. þessari reglu voru greiddar 25.8 millj. kr. til 58 skipa.

Alls var þannig greitt samkv. b- lið 9. gr. laganna 247,5 millj. kr. til 644 báta og skiptast greiðslurnar þannig eftir kjördæmum: Suðurland 48 millj. 729 þús. Reykjanes 54 millj. 36 þús. Reykjavík 11 millj. 337 þús. Vesturland 28 millj. 449 þús. Vestfirðir 48 millj. 452 þús. Norðurland vestra 7 millj. 26 þús. Norðurland eystra 33 millj. 398 þús. Austurland 16 millj. 80 þús.

Samkv. e- lið 9. gr. laganna var úthlutað til skuttogara eftir úthaldsdagafjölda 230 millj. kr. sem skiptust þannig, að til stóru skuttogaranna voru veittar 58.8 millj. kr. og til minni skuttogaranna 171.2 millj. kr. Allir þessir togarar fengu sama á úthaldsdag, þannig, að þar var ekki verið að mismuna neinum. Ég hef ekki skipt því eftir kjördæmum, en stóru skuttogararnir eru nú yfirleitt hér í Reykjavík, Hafnarfirði, á Akranesi og á Akureyri.

Aflatryggingasjóður annaðist greiðslur á umræddum bótum, en umsjón með öllum útreikningum höfðu framkvæmdastjóri Aflatryggingasjóðs og aðstoðarmaður sjútvrh. Skrár um greiðslur til báta og togara eru fyrir hendi hjá Aflatryggingasjóði og í sjútvrn.

2. spurning:

Samkv. uppgjöri hinn 5. des. voru innistæður á gengismunarreikningunum alls 266.8 millj. kr., en óráðstafað er samkv. umræddum lögum alls 369.5 millj. kr., þannig að enn vantar 102.7 millj. kr. upp í það sem ráðstafað var með lögunum.

Ég vil bæta því við hér, að þessi upphæð á gengismunarreikningi hefur með vaxtaútreikningi um áramót og því, sem farið hefur af birgðum frá því að þetta svar var undirbúið, vaxið um rúmar 100 millj. kr.

3. spurning:

Fiskveiðasjóði Íslands var falið fyrir alllöngu að gera till. um ráðstöfun 50 millj. kr. samkv. d- lið laganna frá 1975, en samkv. þeim lið átti að verja nefndri upphæð „til að bæta eigendum fiskiskipa það tjón sem þeir verða fyrir er skip þeirra eru dæmd ónýt, enda sé tjónið ekki bætt með öðrum hætti.“

Till. um úthlutun fjárins eru fyrir nokkru tilbúnar, en þær voru samdar af starfsmönnum Fiskveiðasjóðs í samvinnu við Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og sjútvrn. Afstaða til umræddra tillagna hefur verið tekin og auglýst eftir umsóknum.

Þess skal getið, að allar reglum og ákvarðanir um ráðstöfun gengishagnaðar voru lagðar fyrir ríkisstj. í hverju tilfelli og enn fremur höfð samvinna við formenn sjútvn. beggja deilda Alþingis.

Ég skal fúslega verða við þeirri beiðni að láta fjölrita þetta svar með viðbótarupplýsingum og dreifa meðal allra þm.