11.02.1976
Neðri deild: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason); Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. sjútvn. fyrir skjóta afgreiðslu á þessu máli, því að eins og ég tók fram í gær er mjög aðkallandi að atgreiða þetta mál frá Alþ.

Ég vil taka fram til þess að fyrirbyggja misskilning, að ég tel að þrátt fyrir öll ummæli um sjóðakerfi sé nauðsynlegt að viðhalda ákveðnum sjóðum í sjávarútvegi. Ég er þeirrar skoðunar að Aflatryggingasjóður hafi sannað tilgang sinn. En hann er ekki fullkominn frekar en aðrir sjóðir og það er nauðsynlegt að endurskoða lögin um hann eins og öll önnur lög.

Ég tel að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins hafi sannað ágæti sitt, enda er ekki lagt til að hreyfa neitt við honum. Og þannig má lengi telja.

Ég held að það sé ekki ástæða til þess að vekja neina sérstaklega athygli á því að einhver einn stjórnmálaflokkur hafi barist á móti sjóðakerfinu, en aðrir tekið upp og margfaldað sjóðakerfið. Sjútvrh. hafa verið úr þremur flokkum síðustu 16–17 árin, og lengst af var sjútvrh. á þessu tímabili úr Alþfl. Þeir lögðu til að auka sjóðakerfið, ekki af því að þeim þætti vænt um sjóðakerfið eða tilfærslu í sjávarútvegi, heldur af illri nauðsyn, að við þær breytingar, sem urðu á hverjum tíma, þurfti að grípa til hliðarráðstafana. Þannig var það sjútvrh. Alþfl. sem lagði til að Stofnfjársjóðurinn yrði stofnaður sem nú er verið að lækka framlag til verulega og sumir vilja lækka enn meira. Það var einnig að frumkvæði ráðh. úr Alþfl. aukið við Tryggingasjóðinn á sínum tíma. Og það var að frumkvæði fyrrv. sjútvrh. lagt á útflutningsgjöld til Fiskveiðasjóðs, sem ég var honum algjörlega sammála um og taldi sjálfsagt og eðlilegt mál og hef barist núna fyrir að það yrði ekki skert. Það féll svo í minn hlut við gengisbreytingarnar að leggja til að hækka gjöldin í þennan margillræmda Olíusjóð, ekki af því að mig langaði til þess að hækka þau heldur vegna þess að á meðan ekki náðist samkomulag um breytingu á hlutaskiptum var annað óumflýjanlegt. En nú er loksins að renna upp sú stóra stund, sem við stjórnmálamenn höfum þráð allan þennan tíma, að aðilar vinnumarkaðarins nái samkomulagi um verulegar breytingar frá þessu kerfi. Ég tel að ef þetta verður að veruleika og samkomulag næst, þá hafi mjög mikið áunnist.

Það er ekki hægt fyrir einn né annan að hvítþvo sig af afstöðu eða gerðum í sambandi við sjávarútveginn og þetta sjóðakerfi. Allt hefur þetta miðast við það að halda atvinnulífinu gangandi, hverjir sem hata haldið um stjórnvölinn hverju sinni.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þessar viðræður. Ég tel að þessi mál öll þurfi að skoða mjög gaumgæfilega í framkvæmd. Við erum með þessu og meiri hl. sjútvrn. að leggja blessun okkar yfir störf sjóðanefndarinnar. Við viljum styðja hana og samtök sjómanna og útgerðarmanna í því að falla að verulegu leyti frá þessu viðamikla sjóðakerfi. En við megum heldur ekki gleyma því, að það getur verið og er nauðsynlegt að gera tilfærslur bæði á milli atvinnugreina og innan einnar og sömu atvinnugreinar. Og þegar ég segi það, þá á ég við að nú þurfum við sannarlega að minnka ásóknina í þorskstofninn. Það gerum við ekki með því að hækka þorskinn í verði mest allra sjávarafurða. En þegar við þurfum aftur að auka veiðar á öðrum fisktegundum, sem við höfum lítt veitt, eins og t. d. spærlingi, kolmunna og loðnu, sem standast mjög illa samkeppni vegna þess hve lágt verð er á þessum afurðum, þú getur verið nauðsynlegt að færa á milli greina til þess að styrkja stöðu annarra veiðigreina. En til þess að það sé hægt þarf að ná samkomulagi innan greinarinnar og það liggur ekki á lausu.

Þetta vil ég aðeins benda á, þegar við tölum um friðun og minnkandi sókn í þorskstofninn og aðra ofnýtta fiskstofna, að við þurfum að skapa aðra atvinnu og aukna framleiðslu á öðrum sviðum. En til þess að það geti orðið að veruleika þurfum við að færa á milli og ná mjög víðtæku samkomulagi og samstarfi og skilningi innan atvinnugreinarinnar við ríkisvaldið og auðvitað við allan almenning í landinu.