17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

136. mál, símaþjónusta

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því, þegar ég reis úr sæti mínu, að það gladdi hjörtu ýmissa þm. að sjá að ég tók með mér svona merkilega bók sem er á næstum hverju heimili í landinu og meira lesin jafnvel heldur en sjálf Biblían. En það er einmitt vegna þess að það er verið að ræða þau mál sem snerta þessa bók, að ég vil aðeins vekja athygli á örfáum atriðum í sambandi við það sem um er talað.

Hv. þm. Reykv. Albert Guðmundsson og hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson hafa mikið verið að býsnast yfir því hve illa væri farið með Reykjavíkurfólkið og þéttbýlisfólkið. Ég vil leyfa mönnum að heyra nokkrar tölur um það hve hroðalega er níðst á reykvíkingum og hafnfirðingum og öðrum þeim sem búa hér á svæðinu. Það hafa ýmsir minnst á það að mismunurinn á milli símakostnaðar hjá fólkinu í dreifbýlinu og fólkinu i Reykjavík væri upp í 20-faldur, og urðu skelfilegir í framan þegar þeir nefndu þessa háu tölu. En ég vil leyfa mér að leiðrétta það. Þessi mismunur getur verið mörg-þúsundfaldur. Það er eftir því hve talað er lengi. Við skulum hugsa okkur að útgerðarmaður á Ísafirði, Akureyri, Neskaupstað eða einhverjum slíkum stað þyrfti að ná í þrjár stofnanir hér í Reykjavík sama daginn, t.d. Fiskveiðasjóð, Fiskifélagið eða Útvegsbankann, til þess að sinna mikilvægum erindum, og ekki má reikna með því að þeir tali styttri tíma við hvern mann en 20 mínútur. Fyrir þessar 20 mín. í þrjá staði þurfa þessir menn að greiða 3180 kr. Ef útgerðarmaður i Hafnarfirði gerir alveg það sama og talar nákvæmlega jafnlengi við sömu aðila, þá kostar það kr. 15.90. Í þessari bók eru fjöldamargar upplýsingar af nákvæmlega sama tagi, svo að ef menn vilja leyfa sér að skoða fyrstu bls. í símaskránni og líta yfir þetta, þá sjá þeir glögglega hversu hróplegt ranglæti er hér á ferðinni. Og það er ekkert sanngjarnara en að símtöl innan þessa gífurlega svæðis, sem hefur næstum alla síma landsins eða langmestan hluta síma alls landsins á svona lágum skala, það verði farið að telja þau í skrefum ekki síður en annars staðar á landinu. Með því móti gæti fengist veruleg tekjubót fyrir Landssíma Íslands án þess að nokkurri ósanngirni yrði beitt.