17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég verð að vissu leyti fyrir meiri vonbrigðum með minn ágæta félaga, hv. 2. þm. Vestf. eftir því, sem hann talar oftar í þessu máli, þannig að ég vona nú að þessum umr. fari senn að ljúka. Hann vildi gefa í skyn að ég hefði misskilið frv. það sem hann ásamt fleiri flutti í Ed. En hann var auðvitað svo mikill „kavaler“ að taka það fram, að hv. 9. landsk. þm. hefði ekki misskilið. Auðvitað misskildi hann þetta ekki. Ég held að ég hafi ekki heldur misskilið þetta. — Ég fór miklu nánar inn á þetta atriði hv. Ed. og var þá ómótmælt því sem ég sagði þar.

Ég hygg raunar að það sé naumast hægt að mótmæla því sem kemur fram í þessu frv., að að er ekki gert ráð fyrir að taka frá sérstakt fjármagn til þess að leysa hinar sérstöku þarfir sveitabæjanna sem hér um ræðir. Þetta er mergurinn málsins. Ég hygg að ég hafi tekið rétt eftir þegar hv. 2. þm. Vestf. vitnaði í grg. fyrir hans frv. á þá leið sem hér segir: „Flm þykir ljóst að úr þessu verði ekki bætt nema með því að tryggja sérstakt fjármagn til slíkra framkvæmdra.“ Ég hygg að hann hafi lesið þetta upp. (Gripið fram í: Nei.) Lastu ekki þetta upp? (Gripið fram í: Tveimur málsgr, ofar.) Tveimur málsgreinum ofar, nú, en ég hygg að það breyti ekki því sem ég vildi hafa sagt, því að ég ætla að lesa upp næstu setningu úr grg., með leyfi hæstv. forseta. Hún er þannig: „Því er horfið að því ráði að flytja frv. til l. um breyt. á útvarpslögunum: Þ.e.a.s. það er gert ráð fyrir að tekjustofninn samkv. þessu frv. nái til allra framkvæmda, hvort sem er flutningskerfið almennt eða það sem þarf að gera sérstaklega í sambandi við sveitabæina. Og það er þetta sem er mergurinn málsins. Við eigum sjálfsagt eftir að ræða þetta frekar í hv. Ed., og ég skal ekki þreyta menn á þessum fundi með því að fjölyrða frekar um það. En mér þykir að hv. 2. þm. Vestf. hefði átt að svara þessum málflutningi sem ég hef hér við og fór miklu ítarlegur út í við 1. umr. um þetta frv. í hv. Ed.

Þá kom hv. 2. þm. Vestf, aftur inn á Byggðasjóðinn. Það var þá kannske sem ég varð fyrir mestum vonbrigðum, því að ég held að hitt atriðið, sem ég var að fara í, hafi kannske verið mælt af óaðgæslu hjá hv. 2. þm. Vestf. Hv. 2. þm. Vestf. slær hér fram kröfu um það til mín, að ef ég leggi til að Byggðasjóður leggi eitthvað af mörkum til að leysa þetta sérstaka verkefni sem hér um ræðir, þá þurfi ég að gera hér till. um hverju sjóðurinn ætti að sleppa af öðrum verkefnum. Þetta er ef svo má segja of „billegur“ málflutningur til þess að það sé ástæða til að fara frekar út í það. Slíkt er ekki hægt. Ef hv. þm. hefur áhuga á að leysa þetta mál, þá vil ég láta verða mín síðustu orð, að ég treysti hv. 2. þm. Vestf. og vonast til þess að hann athugi nú gaumgæfilega hvort það sé ekki fær leið sem hér er lögð til. Og ég vil að það komi fram, að ég hef orðið var við skilning bæði hjá öðrum stjórnarmönnum í Byggðasjóði og framkvæmdastjórum í þessu máli.