18.02.1976
Efri deild: 57. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

158. mál, vátryggingariðgjöld fiskiskipa

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. til l. er um greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa. Efni þess er að viðskiptabanka útgerðarmanns skal skylt að halda eftir fjárhæð sem nemi 5% af heildarsöluverðmæti afla, sem landað er hérlendis, og 4% af heildarsöluverðmæti afla, sem landað er erlendis, og á að verja þessu fé til greiðslu iðgjalda af vátryggingum viðkomandi fiskiskips. Er ætlunin að viðskiptabankarnir skili andvirði þessa gjalds inn á reikning samtaka útvegsmanna hjá viðkomandi banka og síðan verði mánaðarlega gerð skil til tryggingarfélags viðkomandi báts.

Þetta frv. er flutt til þess að tryggja það að vátryggingariðgjöld verði greidd reglulega af aflaandvirði viðkomandi skips. Með lögum um útflutningsgjöld er verulega skertur Tryggingasjóður fiskiskipa eða um meira en helming og mun meira en um helming miðað við tryggingarverðmæti skipa, og til þess að koma í veg fyrir að strax myndist óvenjumiklar skuldir í iðgjöldum fiskiskipanna er þetta frv. flutt. Það er flutt með vitund og vilja viðskiptabankanna, en þeir vildu heldur fá bein lagafyrirmæli um að halda eftir af fiskandvirði. Það er líka flutt fyrir áeggjan útgerðarmanna sem vilja koma þessu formi á. Sömuleiðis er mér óhætt að fullyrða að það er einnig með vitund og vilja sjómanna. Ég hygg að hér sé ekki um neitt ágreiningsmál að ræða, en sjálfsagt og eðlilegt að gera þessa breytingu þegar í upphafi við þá breytingu sem gerð hefur verið á sjóðakerfinu og kemur til framkvæmda þegar útgerð hefst að nýju með eðlilegum hætti.

Herra forseti. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.