19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2014 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

125. mál, fæðingarorlof bændakvenna

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þegar lög um fæðingarorlof kvenna voru til umr. hér á seinasta þingi, þá var ég einn af þeim þm. sem töldu það mikla meinbugi á þeirri lagasetningu að m.a. bændakonur voru þar afskiptar, og voru allmargir þm. sömu skoðunar. Þess vegna fagna ég því, að það er búið að taka þetta mál upp nú og till. komin fram um að bændakonur skuli njóta fæðingarorlofs eins og verkakonur sem gert er ráð fyrir að njóti þess í þegar settum lögum. Hins vegar var ég ekki sammála flm. þess máls á seinasta þingi, að Atvinnuleysistryggingasjóður skyldi greiða fæðingarorlof kvenna. Ég taldi ekki þá og tel ekki enn að það sé hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs. Og það var að mínum dómi skaði að málið skyldi verða samþ. þannig vegna þess að Atvinnuleysistryggingasjóður hefur haft mjög þýðingarmikið hlutverk í því efni að lána til uppbyggingar og atvinnuaukningar víðs vegar um landið. En síðan þessi lög voru samþ. um fæðingarorlof kvenna, þá má segja að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi hreinlega verið lokaður í þessum efnum vegna þeirra auknu byrða sem honum voru lagðar á herðar.

Ég er þeirrar skoðunar að fæðingarorlof kvenna eigi að greiða úr almannatryggingakerfinu ef það er tekið upp. En það er spurning um aðferð, en ekki hitt, meginmálið, að ég er fylgjandi fæðingarorlofi kvenna almennt séð.

Mér virðist að þessi till , sem hér kemur fram um aðferðina, geri ráð fyrir að Lífeyrissjóður bænda greiði fæðingarorlof bændakvenna, og að vissu leyti er þessi till. að sumu leyti í svipuðum farvegi og sú fyrri um að greiða fæðingarorlof Kvenna úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Mér virðist einmitt að þessar till. og raunar ýmsar fleiri till. um útgjöld miði ákaflega mikið að því að sjúga merginn úr möguleikum innanlands til fjármagnssöfnunar til að standa undir nauðsynlegri fjárfestingu og framförum í atvinnulífi þjóðarinnar. Og það er sýnileg óheillaþróun í þessum efnum, sérstaklega nú á allra seinustu árum.

Ef við lítum á möguleikana sem menn hafa hér í landinu til þess að afla fjármagns til að byggja upp atvinnulífið eða til þess að efla atvinnulífið eða til þess að fylgjast með framförum í atvinnulífinu, tækniþróun og öðru slíku, þá eru möguleikarnir fólgnir í fyrsta lagi hjá fjárfestingarlánasjóðunum, og sterkustu sjóðirnir í því efni eru Fiskveiðasjóður Íslands, Stofnlánadeild landbúnaðarins og Iðnlánasjóður sem lána til hinna þriggja helstu atvinnugreina þjóðarinnar. Þessir sjóðir hafa tiltölulega lítið og minnkandi eigið fé — mjög minnkandi eigið fé. Þeir fá að vísu veruleg framlög frá ríkinu, annaðhvort í gegnum fjárlög eða með öðrum hætti, eða frá atvinnugreininni sjálfri, en þrátt fyrir það er geta þeirra minnkandi og hefur verið svo, m.a. vegna þess hversu framkvæmdakostnaður hefur hækkað geysilega mikið á undanförnum árum. Fyrir utan þeirra eigið fé hafa þessir sjóðir fengið að láni fjármagn frá Framkvæmdasjóði Íslands.

En Framkvæmdasjóður Íslands hefur ekki marga möguleika til þess að afla fjár. Það er alveg eins háttað með hann og með fjárfestingarlánasjóðina, að eigið fé Framkvæmdasjóðs fer minnkandi — mjög minnkandi. Og möguleikarnir, sem Framkvæmdasjóður hefur til þess að afla fjár, eru aðallega fjórir. Það er í fyrsta lagi ákaflega lítið eigið fjármagn, sem nemur ekki meiru en 150 millj. eða eitthvað slíkt á þessu ári. Það eru í öðru lagi lán frá viðskiptabönkunum sem eru þannig, að 10% af innlánsaukningu viðskiptabankanna er lánað til Framkvæmdasjóðs sem síðan endurlánar það. Í þriðja lagi er það lán frá lífeyrisjóðunum í landinu og í fjórða lagi erlend lán.

Þetta eru þeir fjórir möguleikar sem Framkvæmdasjóður hefur til þess að afla fjár til starfsemi sinnar og til endurlána við uppbyggingu atvinnulífsins. Mér sýnist að það sé verið að þrengja meir og meir að þessum möguleikum. Í fyrsta lagi fer eigið fé Framkvæmdasjóðs minnkandi. Í öðru lagi hefur verðbólgan þau áhrif í landinu að fólk leggur minna fyrir af fé. Þess vegna verður innstæðuaukning bankanna minni hlutfallslega heldur en áður, og niðurstaðan verður sú, að þessi 10%, sem ég minntist á áðan og hafa verið tekin að láni af innstæðuaukningunni, þetta fer minnkandi. Í þriðja lagi hefur það verið svo allra seinustu árin að Framkvæmdasjóður hefur fengið í vaxandi mæli lán frá lífeyrisjóðakerfinu og byggir mjög fjáröflun sina t.d. á þessu ári á því, gert ráð fyrir að Framkvæmdasjóður taki 1400 millj. kr. að láni hjá lífeyrissjóðunum ef samningar nást um það. Það er stefnt að því. Og svo að lokum eru það erlendu lánin, en það hefur verið þrautalendingin undanfarin ár að tryggja fjáröflun Framkvæmdasjóðs með erlendum lántökum. Sá kostur er mjög að þrengjast, þannig að þetta virðist allt í eina átt þ.e.a.s. að þrengja möguleika þjóðarinnar til þess að efla atvinnulífið, til þess að tryggja fjármagn til uppbyggingar í atvinnugreinum, bæði nýjum og þróa þær sem fyrir eru. Þetta hefur að sjálfsögðu lamandi áhrif á undirstöðu efnahagslífsins í landinu eftir því sem tímar liða fram.

Varðandi lífeyrissjóðina hafa verið miklar umr. um þá undanfarið. Mér sýnist að þær umr. hafi fallið í þann farveg að menn séu farnir að nefna talsvert róttækar breytingar á starfsemi lífeyrissjóðanna í þá átt að í stað hins svokallaða uppsöfnunarkerfis, þ.e.a.s. að lífeyrissjóðirnir safna fjármagni sem síðar er notað til greiðslu lífeyris og hefur verið notað í stórum stíl í lánastarfsemi, þá eigi að hverfa að einhverju leyti frá því, en taka aftur upp svokallað gegnumstreymiskerfi, sem þýðir það að uppsöfnun fjármagns hjá lífeyrissjóðunum hlýtur að fara stórkostlega minnkandi og allir möguleikar til þess að afla fjár úr lífeyrissjóðakerfinu til uppbyggingar í atvinnulífinu fara þá auðvitað minnkandi að sama skapi.

Nú er það svo, að lífeyrissjóðirnir í landinu geta fyllilega sinnt sínu hlutverki þótt þeir láni út ef lánin eru verðtryggð. Ef lán lífeyrissjóðanna eru verðtryggð, þá geta þeir fyllilega sinnt sínu hlutverki að greiða verðtryggðan. lífeyri. Það sem hefur farið verst með lífeyrissjóðina er auðvitað það, að lánastarfsemi þeirra hefur verið óverðtryggð og þeir fá aftur jafnmargar krónur til baka í greiddum lánum og þeir lánuðu, miklu, miklu verðminni krónur, sem hefur þau áhrif að möguleikar lífeyrissjóðanna til þess að greiða verðbættan lífeyri hafa verið sáralitlir.

Þó að þetta mál sé nú ekki beint á dagskrá, þá finnst mér það koma nokkuð við sögu þegar gert er ráð fyrir því í þessari till. að gerð verði athugun á því hvort rétt sé að greiða bændakonum fæðingarorlof úr Lífeyrisjóði bænda. Það er rétt að hafa það í huga að lífeyrissjóðaféð er gífurlegt fjármagn og ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á þessu ári, þegar þeir hafa greitt lífeyri til sinna félagsmanna og öll gjöld af sinni starfsemi, eru 7 milljarðar. Og ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á þessu máli. Þó að þessi till., sem hér er til umr., hafi kannske ekki mikil áhrif þegar á heildina er litið, þá stefnir hún í þá sömu átt sem ég hef verið að lýsa, að minnka möguleika innanlands til þess að skapa fjármagn sem hægt er að nota til uppbyggingar í atvinnulífi landsmanna.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði hér í upphafi, að ég er almennt fylgjandi fæðingarorlofi kvenna, þó að vissu marki. Ég sé enga ástæðu til þess að efnafólk t.d. fái sérstakar greiðslur þegar konur eiga börn sín, — sé enga ástæðu til þess. Ég held að það standi engin efni til þess, þannig að slíkt mál sem þetta álít ég að hljóti að eiga sín takmörk, alveg hiklaust. En ég held að það sé eðlilegt að fæðingarorlof sé greitt af almannatryggingakerfinu og jafnframt því, sem sú athugun færi fram sem hér er gert ráð fyrir og er góðra gjalda verð, þá fari fram athugun á því hvort ekki sé rétt að endurskoða hreinlega lögin, sem sett voru á síðasta þingi um það að greiða fæðingarorlof úr Atvinnuleysistryggingasjóði, á þá leið hreinlega að greiða fæðingarorlof úr almannatryggingakerfinu. Ég beini því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún athugi einnig hvort ekki sé skynsamlegt að breyta til frá því, sem ákveðið var hér í fyrravetur, á þá leið að fæðingarorlof þeirra kvenna, sem lögum samkvæmt verður ákveðið að skuli njóta fæðingarorlofs, verði greitt af almannatryggingum.