19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

125. mál, fæðingarorlof bændakvenna

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég get alfarið stutt þá hugmynd, sem er að baki þessari till., fæðingarorlof bændakvenna. Ég get sagt eins og síðasti hv. ræðumaður, að ég einmitt gerði aths. við það frv. sem í fyrra var hér á ferðinni um fæðingarorlof til handa verkakonum eða konum í launþegastétt, benti þá á að bændakonur væru hér útundan, þarna væri um mismunun að ræða og að henni þyrfti að hyggja. Ég veit að hér er góð hugsun að baki, eins og kom glögglega fram í máli hv. fyrra flm. þessarar till. Spurningin er auðvitað um það, hvernig eigi að greiða þetta fæðingarorlof. Aðalatriðið varðandi fæðingarorlofið er auðvitað að finna frambúðarlausn, varanlega frambúðarlausn á málinu í heild. Með því að taka þetta svona eitt af öðru, þá er ég hræddur um að við fjarlægjumst frekar það meginmarkmið, þó að ég viti að það sé alls ekki meining þeirra sem eru að flytja þessi mál hér inn. Meining þeirra er áreiðanlega sú að með þessu móti séu þær að þoka málinu í heild áleiðis. Ég óttast hið gagnstæða, að einmitt þessir áfangar, sem hér er verið að taka og það á óskyldan máta að mörgu leyti, heldur tefji fyrir heildarlausn.

Ég tek undir það með síðasta hv. ræðumanni, Tómasi Árnasyni, og ítreka þar skoðun mína frá því í fyrra, að eðlilegasta formið á greiðslu fæðingarorlofs hlýtur að vera úr almannatryggingunum. Þetta er hreint tryggingamál, það fer ekkert á milli mála. Og ég hygg að það séu nú allir í rann og sannleika sammála um það atriði, að það sé eðlilegast ef málið væri tekið fyrir í heild.

Ég var uppi með allmikinn fyrirvara á síðasta þingi um það form, sem þá var samþykkt gagnvart verkakonum eða konum í launþegastétt, m.a. varðandi þá mismunun sem þar kom óneitanlega fram, og benti þar alveg sérstaklega í Ed. á vanda bændakvennanna. Hér er þetta mál svo komið upp aftur varðandi þær og enn á þann veg, að ég tel að ekki sé um eðlilegustu leiðina að ræða, það sé farið svolítið á svig við það eðlilega í þessu, þ.e.a.s. að tryggingakerfið sjálft taki þetta á sig. Ég vil þó taka það fram að ég studdi í fyrra algerlega frv. sem þá var um það að Atvinnuleysistryggingasjóður tæki þetta að sér. Ég studdi það vegna þess að það var túlkað og rökstutt sem eina hugsanlega og mögulega leiðin þá til þess að ná þessu réttindamáli verkakvenna fram. Vel kann það að hafa verið, og það vissu auðvitað flm. betur en ég vegna þess að þeir eru aðilar að núv. ríkisstj. og vita hvaða möguleika hún hefur í þeim efnum á að framkvæma þessa hluti. En ég trúði því þá að þetta væri eina leiðin þá, sem hægt væri að fara, og vildi þess vegna ekki bregða fæti fyrir þetta mál, eins gott og það er í eðli sínu.

Ég held að ég geti sagt það sama um þetta mál nú. Ég mundi ekki treysta mér til þess, þótt ég sé ekki sammála um það form, sem er á þessu, í alla staði, — ég mundi ekki treysta mér til að bregða fyrir það fæti, ég mundi greiða því mitt atkv. sem áfanga í frambúðarlausn fæðingarorlofsmálsins í heild, því að svo miklu hefur nú verið þyrlað upp um afstöðu manna í þessu efni, stuðning eða andstöðu, að það er óþarfi að fara nánar út í það. Það er rétt að taka þetta hins vegar skýrt fram, og ég og mínir flokksbræður í Ed. stóðum algerlega með lokaafgreiðslu þess máls þá, þó að við hefðum kosið annan hátt á lausn málsins en ofan á varð.

Það er rétt, sem hv. þm. Tómas Árnason sagði, að öðru aðalhlutverki Atvinnuleysistryggingasjóðsins, þ.e.a.s. að koma í veg fyrir atvinnuleysið, sem er ekki síðra og kannske enn brýnna verkefni í raun og veru til þess að komast hjá því að þurfa að greiða atvinnuleysisbætur, — því aðalhlutverki sjóðsins hefur ekki verið sinnt nú á þessu ári, m.a. vegna þessara auknu byrða sem á sjóðinn voru lagðar. Ég er ekki að segja að þær byrðar hafi verið það miklar að sjóðsstjórnin hafi endilega þurft að taka svona djúpt í árinni eins og hún hefur gert. Það er matsatriði. Engu að siður er það m.a. skoðun þess mæta manns sem veitir þessum sjóði forstöðu og ég veit að allir hv. þm. treysta til heiðarleika og réttsýni í hvívetna, Hjálmars Vilhjálmssonar fyrrv. ráðuneytisstjóra, og hans skoðun í þessu efni vegur nokkuð þungt í mínum huga. Hér þarf sem sagt að finna á frambúðarlausn, og ég held að því fyrr sem það gerist, því betra. Það er vitanlega ríkisstjórnarinnar að sjá um það, ef innan þingliðs hennar er um svo mikinn áhuga, síendurtekinn áhuga að ræða fyrir einstökum þáttum þessa máls. Og til þess verð ég nú, þrátt fyrir það að ég beri lítið traust til hennar, — til þess verð ég þó að treysta henni, einkanlega þó vegna þess að í fyrra var hreint lagaákvæði sett um það að ríkisstj., eins og áðan var bent á, brygði hér við og kannaði — og var beinlínis skylda að hún aflaði Atvinnuleysistryggingasjóði tekna hér á móti að nokkru leyti.

En varðandi Lífeyrissjóð bænda, sem hér er komið inn á sem greiðsluaðila, þá verð ég að segja það, að vitanlega er þetta hlutverk kannske ekki síðra en sum önnur sem þessi sjóður hefur tekið að sér. Það má vel satt vera. Ég held þó að það sé óhætt að segja það, að Lífeyrissjóður bænda hafi yfirleitt ekki farið út í nein vafasöm verkefni. Þau verkefni, sem hann hefur unnið að og mér er kunnugt um, hafa verið hin þörfustu og hafa greitt mjög myndarlega fyrir t.d. þeim, sem eru að byrja búskap, og stuðlað að því að þeir gætu hafið sinn búskap allsæmilega við viðunandi lífskjör. En hitt er rétt, sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Helgasonar, að sjóðurinn er veikburða. Það er rétt. Og það eru hörmulega smáar greiðslur sem úr þessum lífeyrissjóði koma. Þeir bændur, sem eru með einhvern smábúskap sér til hugarhægðar fram á elliár, fá ekki, þótt um lítinn búskap sé að ræða og kannske ekki hægt að kalla það einu sinni búskap, eitthvert smáhokur, — þeir fá ekki rétt til greiðslna úr þessum sjóði fyrr en við 75 ára aldur. Og þegar þeir fá þessar greiðslur við þetta aldursmark þ.e.a.s. þeir sem ná því, það er nú því miður minni hluti þeirra vitanlega sem nær því aldursmarki, þá eru greiðslur úr þeim sjóði í dag, að því er ég hygg, ársgreiðslur, eitthvað í kringum 90 þús. kr. Það er allt og sumt, ársgreiðslan. Ég a.m.k. sá þá tölu hjá tveim bændum nú á dögunum, rétt rúmar 90 þús. kr. á ári og höfðu þeir þó stundað búskap alla sina ævi. Og þeir tóku þennan lífeyri 75 ára gamlir. Nú kann að vera að það séu einhver önnur lagaákvæði sem hafa þarna komið í veg fyrir með þessa tvo menn sem ég veit um. En þetta sýnir aðeins það, hvað greiðslurnar geta a.m.k. verið grátlega litlar.

Nei, ég held að ég verði að leggja aðaláherslu á það varðandi þetta mál, þótt ég vilji engan vegina bregða fyrir það fæti, að ríkisstj. taki nú til sinna ráða og hv. flm. ýti nú dálítið við sinni ríkisstj. og láti hana standa a.m.k. við þá skuldbindingu, sem hún tók á sig í fyrra, og til viðbótar því reyni að koma þessu máli, fæðingarorlofinu í heild, á þann rekspöl að við sjáum fyrir endann á því, að við sjáum frambúðarlausn í þessu efni. Hér má við marga sakast, bæði okkur sem studdum fyrrv. stjórn og þá sem nú eru við stjórnvölinn, að hafa ekki komið þessu réttlætismáli í gegn. En þrýstingurinn vex sífellt, og ég held að aðaláherslan, sem við eigum að leggja á þetta mál í heild, sé að koma þessu inn í tryggingakerfið alfarið, þetta er tryggingamál, og finna á því lausn fyrir konur í landinu, kannske ekki þær efnuðustu, sem hv. þm. Tómas Árnason var að tala um, það kann vel að vera, að við eigum að vera með vissan fyrirvara gagnvart þeim. Ég held nú samt sem áður að það sé ekkert aðalatriði. Ég held að allar konur eigi að njóta þessa fæðingarorlofs þegar það væri komið í framkvæmd, jafnvel þótt bær séu loðnar um lófana eða þeirra makar.