23.02.1976
Sameinað þing: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

166. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fáir munu neita því, að dimmt er um að litast í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar um þessar mundir. Eftir endurteknar efnahagslegar kollsteypur, eftir að erlendur gjaldeyrir hefur hækkað í verði um 70–80% á aðeins 18 mánuðum og meðfylgjandi óðaverðbólga hefur farið eldi um efnahagslífið, eftir að gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar hefur runnið stjórnlaust úr höndum ráðamanna og miklar gjaldeyrisskuldir hafa staflast upp í óreiðu, þá bætist nú ofan á allt annað að mestallt atvinnulíf landsmanna hefur verið lamað í heila viku. Þetta mun vera eitt viðtækasta verkfall sem nokkru sinni hefur orðið hér á landi. Áætlað er að tap þjóðarinnar miðað við glataðar útflutningstekjur nemi hátt á annað þús. millj. kr. þá viku sem verkfallið hefur staðið.

Nú eins og alltaf áður, þegar vinnudeilur standa, er mikið reynt til að gera baráttu verkalýðshreyfingarinnar tortryggilega. Þolir þjóðarbúið frekari kauphækkanir og tapa ekki allir á verkfalli? Þetta eru þau áróðursstef sem þessa dagana eru kyrjuð af miklum krafti með ýmsum tilbrigðum.

Vafalaust eru ýmsir sem láta blekkjast. Sumir virðast jafnvel enn ekki hafa áttað sig á því, að þessi kjaradeila snýst alls ekki um raunverulega kauphækkun, hver sem krónutalan verður. Krafa verkalýðssamtakanna er fyrst og fremst sú, að kjararýrnunin, sem orðið hefur að undanförnu, fáist bætt og launþegum verði tryggðar bætur í þessum samningum vegna þeirra verðlagshækkana sem fyrirsjáanlegar eru á þessu ári. Kröfur verkalýðshreyfingarinnar eru því hreinar varnaraðgerðir og þeir, sem standa gegn slíkum kröfum, eru beinlínis að heimta almenna kauplækkun.

Undanfarna viku hefur athygli manna einkum beinst að till. sem sáttanefnd ríkisins setti fram nokkru áður en verkfallið hófst. Í þessum till. er gert ráð fyrir 13–16% launahækkun í krónutölu á einu ári. „Þetta hefði einhvern tíma þótt álitleg kauphækkun,“ skrifaði Þórarinn Þórarinsson í leiðar Tímans og bætti við, að lengra yrði tæpast gengið. Þó hefur legið fyrir það álit efnahagssérfræðinga, að verðlag á nauðsynjavörum muni hækka a.m.k. um 17% á árinu, jafnvel þótt engar kauphækkanir verði á sama tíma. Með því að samþykkja þessa till. óbreytta hefðu verkalýðssamtökin ekki aðeins verið að afsala sér bótum fyrir þá stórfelldu kjararýrnun sem varð á s.l. ári, heldur væru þau einnig að samþykkja að taka á sig beina kauplækkun miðað við fyrirsjáanlegar hækkanir á verði nauðsynjavara. En svo mikil hefur óbilgirni atvinnurekenda verið, að jafnvel þessar till. sáttanefndar fengust þeir ekki til að samþykkja fyrr en eftir rúmlega viku umhugsun og það með skilyrðum og breytingum.

Það er því ljóst að þessi mikla vinnustöðvun, sem nú hefur staðið í viku og kostað hefur þjóðina þúsundir millj. kr., hefur fyrst og fremst einkennst af sóknaraðgerðum atvinnurekenda til að knýja fram enn frekari kauplækkun. Gegn slíkum árásum eiga launamenn og sjómenn ekki nema eitt svar, að treysta á samtakamátt sinn. Það er staðreynd sem almennt er viðurkennd af efnahagssérfræðingum ríkisstj., að enda þótt samanlagðar heildartekjur þjóðarinnar miðað við fast gengi hafi heldur minnkað á s.l. tveimur árum, þá hafa þær í mesta lagi minnkað um 8–9%, en hins vegar hafa lífskjör almennings versnað margfalt meira, þannig að launakjör þyrftu almennt að hækka um 25–30% til að endurheimta þann kaupmátt sem var í tíð vinstri stjórnarinnar.

Þrátt fyrir versnandi kjör hafa verkalýðssamtökin sýnt ítrustu þolinmæði, svo að ýmsum hefur þótt nóg um, og tvívegis á s.l. ári var allsherjarverkföllum aflýst á seinustu stundu.

Nú hafa samningaviðræður staðið í rúma tvo og hálfan mánuð og haldnir hafa verið rúmir 40 viðræðufundir með ríkisstj. og atvinnurekendum. En allt fram til þess að verkfallið hófst var ekki minnsta lát á atvinnurekendum eða ríkisstj. Það var eins og að tala við vindinn.

Sannarlega er ekki efnilegt fyrir láglaunafólk með 50–60 þús. kr. mánaðarlaun að leggja út í verkföll með tvær hendur tómar. Það er auðvelt verk að fá fólk til að játa að ekki hafi það minnstu efni á að fara í verkfall, og vafalaust er leitun að þeim launamönnum sem vilja verkfall. Hitt er flestum ljóst, að þegar önnur leið er ekki til er verkfallsvopnið neyðarréttur hins vinnandi manns.

Þeir, sem eiga framleiðslutækin og hirða af þeim arð, eiga hins vegar mörg vopn á hendi. Sterkasta vopn þeirra er samspil gengislækkana og verðbólgu. Þessu vopni hafa þeir óspart beitt á seinustu 18 mánuðum í skjóli vinveittrar ríkisstj. til að ná til sín sem stærstum hluta þjóðarteknanna. Og þeir hafa sannarlega haft árangur sem erfiði. Tekjuskiptingin hefur hreyst í grundvallaratriðum á kostnað launamanna, sjómanna og bænda. Íslenskt launafólk kýs vinnufrið og samningaleiðina, ef þess er nokkur kostur. Það sýndi sig best í tíð vinstri stjórnarinnar þegar verkföll voru óvenjulega fátíð, enda litu þá stjórnvöld á það sem frumskyldu sína að bæta lífskjörin, tryggja vinnufrið og forðast atvinnuleysi. En nú er öldin önnur. Það vakti ekki litla athygli þegar hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson lýsti því yfir samkv. kvöldfréttum útvarpsins daginn sem verkfall landverkafólks skall á að þessi mikla kjaradeila væri einfaldlega ekki í verkahring ríkisstj., deiluaðilar yrðu sjálfir að finna á henni lausn. Í þessum orðum birtist kjarni þessara dýrkeyptu átaka sem kostað hafa þjóðina þúsundir millj. kr. á einni viku. Hér er um að ræða kjaraátök sem snúast fyrst og fremst um verðlagsuppbætur á laun fyrir liðna tíð og fyrir komandi samningstímabil. Það er ríkisstj. og meiri hl. Alþ. undir forustu Geirs Hallgrímssonar sem hefur komið í veg fyrir með lögum frá Alþ. að greiddar séu verðlagsuppbætur á laun. Það er sjálf ríkisstj. sem hefur vísvitandi skert launakjörin svo sem raun ber vitni með endurteknum gengisfellingum og stórhækkuðum skattaálögum samfara afnámi vísitölubóta. Það er ríkisstj. og Alþ. sem skert hafa hlut sjómanna. En svo þegar þannig er komið að verk Geirs Hallgrímssonar og samráðh. hans hafa sett mestallt atvinnulíf landsmanna í einn hnút, þá er svarað af fullkomnu purkunarleysi: Þetta er mál, sem deiluaðilar verða sjálfir að leysa.

Auðvitað vita allir að þessi deila verður ekki endanlega leyst nema við samningaborðið. Samningsfrelsið verður að virða. En ríkisstj. getur auðveldað lausn þessarar hörðu dellu með því að breyta efnahagsstefnu sinni. Það er einmitt þetta, sem Alþýðusambandið hefur farið fram á. Fyrir tveimur og hálfum mánuði setti Alþýðusambandið fram óskir sínar í 14 liðum um breytta stefnu ríkisvaldsins í efnahagsmálum til að liðka fyrir samningum. Meðal þess, sem Alþýðusambandið lagði sérstaka áherslu á, voru gjaldeyrismálin, skattalögin, vaxtalækkun, lífeyrisgreiðslur og félagslegar íbúðabyggingar. En þegar verkföll hófust hafði ríkisstj. ekki goldið samþykki sitt við einni einustu af þessum 14 kröfum, heldur hafnað þeim flestum.

Vinnuveitendasambandið og Alþýðusambandið lögðu einnig fram sameiginlegar kröfur um efnahagsaðgerðir í 15 punktum. En það fór allt á sömu leið. Ríkisstj. veitti ekki jákvæð svör um eitt einasta atriði og raunar var kvartað yfir því, bæði úr hópi atvinnurekenda og launamanna, daginn áður en verkfallið skall á, að ríkisstj. gæfi sér tæpast tíma til viðræðna við deiluaðila. Hún var sem sagt önnum kafin að rembast við að taka ákvörðun um það, hvort slíta ætti stjórnmálasambandi við breta.

Allsherjarverkfallið skall yfir í og með vegna þess að landið er stjórnlaust, forustulaust, ríkisstj. er neikvæð í einu og öllu og heldur að sér höndum. Þess vegna er komið sem komið er. Það er einmitt megineinkenni þessarar ríkisstj. fyrir utan að vera hægrisinnuð og íhaldssöm, að hún er forustulaus og hikandi í flestum málum og lömuð af innri og utanaðkomandi togstreitu. Þáttur ríkisstj. í yfirstandandi verkföllum er aðeins eitt dæmi. Landhelgismálið er annað dæmi.

Stefnuleysi ríkisstj. og hringlandaháttur í landhelgismálinu er, eins og kunnugt er, frægt að endemum langt út fyrir landssteina. Þar eru tvö öfl að verki sem togast á um gerðir ríkisstj.: Annars vegar fólkið í landinu, hins vegar NATO. Annars vegar sá vilji alls þorra landsmanna að fylgt sé harðri og einarðri stefnu í landhelgismálinu og ekki sé samið við breta, hins vegar undirlægjuháttur einstakra ráðh. gagnvart NATO. Í stað þess að efla landhelgisgæsluna og fá henni hraðskreiða báta og þjálfa fleiri áhafnir á varðskipin til að þau nýtist betur er stöðugt stefnt að því að gera samning við breta til tveggja ára um 65 þús. tonn, eins og forsrh. virðist hvað eftir annað hafa boðið bretum, seinast í London fyrir fáum vikum. Í stað þess að bregðast við með eðlilegum hætti, þegar herskip NATO gera skipulagðar árásir á íslenska löggæslumenn með lífshættulegum ásiglingum, og manna sig upp í að rjúfa samstarfið við NATO og loka herstöðinni á Miðnesheiði, lætur forsrh. augnaráðið nægja, þessi margumræddu alvarlegu augu sem vakið hafa bros um land allt. Forsrh. hikar í hverju skrefi. Hann þurfti t.d. heila viku til að ákveða að hafna tilboði breta um 85 þús. lesta veiðiheimild þeim til handa.

Þó kom það nokkuð á óvart þegar þessi till. um vantraust á ríkisstj., sem hér er til umr., var lögð fram s.l. miðvikudag, að hæstv. forsrh. skyldi einn manna vera mótfallinn því að taka hana til umr. fyrir helgi þótt aðrir lýstu sig reiðubúna, því að óneitanlega er sú till. þess eðlis að sjaldnast þurfa forsrh. að hugsa sig lengi um.

Sama ráðleysið birtist í efnahagsmálum, t.d. gjaldeyrismálum. Þar er tvennt sem togast á, og útkoman verður fálm og hik meðan gjaldeyrissjóðurinn tæmist. Annars vegar er óttinn við gjaldeyrisvandræði sem leitt hefur til þess, að innflutningur hefur verið stöðvaður á nokkrum kextegundum — út af fyrir sig skynsamleg ákvörðun svo langt sem hún nær. Hins vegar er óttinn við innflytjendur, helsta stuðningslið Sjálfstfl., sem veldur því að kexbann ríkisstj. verður litið annað en kákið eitt sem ekkert munar um. Og þess vegna heldur óreiðan áfram í gjaldeyrismálum þjóðarinnar.

Enn eitt dæmi er tollalækkunin á vörum frá EFTA og Efnahagsbandalagslöndum að upphæð 800 millj. kr. sem átti sér stað um s.l. áramót. Alþýðusambandið óskaði eftir því við ríkisstj. að tollalækkun þessari yrði frestað af ýmsum ástæðum, m.a. til að veikja ekki gjaldeyrisstöðuna enn frekar með lækkun á verði erlendra vara sem keppa við innlenda framleiðslu. Iðnrekendur og Vinnuveitendasambandið fóru fram á það sama, þar sem varhugavert væri að veikja samkeppnisaðstöðu innlends iðnaðar. Auk þessa virðist fráleitt með öllu að lækka tolla á vörum frá ríkjum sem beita okkur viðskiptaþvingunum og neita sjálf að lækka tolla á vörum frá Íslandi þrátt fyrir gerða samninga. Nær hefði verið að hækka tolla á vörum frá þessum löndum meðan þetta ástand varir. En þrátt fyrir þessar almennu kröfur frá aðilum vinnumarkaðarins hyggst ríkisstj. ekki breyta fyrri ákvörðun sinni. Ráðh. sátu enn sem fyrr með hendur í skauti og tollarnir lækkuðu. Afleiðingin verður enn versnandi gjaldeyrisstaða, tekjutap fyrir ríkissjóð sem nemur 800 millj. kr., versnandi samkeppnisaðstaða íslensks iðnaðar og samdráttur í iðnaði viða um land og þar með versnandi atvinnuástand.

Þetta eru aðeins fáein dæmi af mörgum, sem nefna mætti. Þetta eru sýnishorn um hinn einstæða hæfileika núv. ríkisstj. til að snúast í kringum vandamálin án þess að leysa þau og vinda þau utan um sig í risavaxna flækju. Það er að sjálfsögðu unnt að bæta kjör láglaunafólksins verulega án þess að það kosti áframhaldandi verðbólgu og efnahagslega kollsteypu. En til þess þarf stjórnarstefnan að breytast.

Það er öllum kunnugt, að Alþb. leggur áherslu á sósíalíska grundvallarbreytingu í íslensku efnahagslífi. En jafnvel þótt ekki sé þingmeirihl. fyrir þeirri íeið, er hitt eftir sem áður nærtækt viðfangsefni að skapa samstöðu um aðra og gæfulegri stjórnarstefnu en nú er fylgt. Gengislækkunaræði núv. stjórnar má ekki lengur ráða ferðinni. Uppbygging erlendra atvinnuvega er afar hægfara þessa stundina og þar að auki á villigötum erlendra stóriðjudrauma. Skattalöggjöfin er óréttlát og útkoman úr álagningu tekjuskattsins hreint hneyksli, eins og margoft hefur verið rakið. Vandamálin í íslensku efnahagslífi eru og verða gífurleg meðan ekkert er gert til að reyna að leysa þau. Ef hvergi má hreyfa við kerfinu og hvergi má taka spón úr aski þeirra, sem mest bera úr býtum, þá verður allt við það sama: áframhaldandi gengislækkanir, kjaraskerðing, verkföll og vinnudeilur, vaxandi atvinnuleysi, vaxandi gjaldeyrisvandræði, vaxandi fjármálaóreiða.

Það er af öllum þessum ástæðum, sem ég hef hér talið, að flutt er till. um vantraust á ríkisstj. Það er ekki aðeins vegna þess að ríkisstj. á bersýnilega stóran þátt í því að til þessara miklu verkfalla hefur komið. Það er engu siður vegna stefnu eða stefnuleysis ríkisstj. í landhelgismálum og efnahagsmálum. Hins vegar er aðdragandi þessarar miklu vinnustöðvunar seinasta dæmið um stórfelld mistök ríkisstj., — glapræði sem þegar hefur valdið þjóðinni þúsunda milljóna tjóni.

Vonandi styttist nú í það að vinnuveitendur slaki til og verkföllin leysist. En ábyrgð ríkisstj. á því, sem gerst hefur, minnkar ekki við það. Hvort sem verkföllin standa lengur eða skemur úr þessu hlýtur öllum að vera ljóst að viðunandi vinnufriður fæst ekki með þessari stjórn, stefnu hennar og starfsháttum. Hún á því að víkja, enda eru landsmenn fullsaddir af 18 mánaða óstjórn. Fyrr en síðar þarf þjóðin að fá færi á að kveða upp dóm sinn að fenginni reynslu. Ekki þarf að efast um að hvaða ný stjórn sem tæki að sér að stjórna landinu til bráðabirgða, hvort sem það yrði embættismannastjórn eða einhver önnur bráðabirgðastjórn, þá yrði hún a.m.k. skömminni til skárri en núv. stjórn.

Það leynir sér ekki, hvar sem menn fara, að núv. ríkisstj. þykir forustulaus stjórn og með afbrigðum ógæfuleg í öllum verkum sínum. Fólkið vantreystir henni. Þess vegna er þessi till. flutt.

Þessi stjórn verður að víkja, því fyrr, því betra, svo að grundvöllur geti skapast að heilbrigðara stjórnarfari í landinu.

Ég þakka þeim sem hlýddu.