23.02.1976
Sameinað þing: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

166. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í þessum umr. hafa fulltrúar ríkisstj. haldið því fram að efnt hafi verið til vantraustsumr. af hálfu stjórnarandstöðunnar í þeim tilgangi að veikja ríkisstj. og spilla fyrir því að hún gæti unnið að lausn hinna alvarlegu vinnudeilna. Sagt er að ríkisstj. hafi sterkan meiri hl. á Alþ. og örugglega verði vantrauststill. felld. Og hæstv. dómsmrh. sagði að vantrauststill. væri flutt af ábyrgðarleysi vegna þess að tillögumenn hafi ekki tilbúna nýja ríkisstjórn. Hann virðist ekki muna eftir því þegar hann og hans flokkur hafa staðið að því áður að flytja vantrauststill. án þess að hafa tilbúna ríkisstj.

Hér er um grundvallarmisskilning að ræða í málflutningi ríkisstjórnarmanna. Það er skylda stjórnarandstöðu að halda uppi réttmætri gagnrýni á ríkisstj., eins og það er skylda þjóðarinnar allrar að veita ríkisstj. aðhald og krefjast þess að hún starfi í samræmi við þjóðarvilja. Engin ríkisstj. verður sterk af því einu að hún hafi meirihl. á Alþ., og engin ríkisstj. getur skorast undan að mæta gagnrýni eða getur neitað því að standa ábyrg gerða sinna.

Það, sem verið hefur að gerast í landhelgismálinu að undanförnu, sannar þessa kenningu best. Ekki hefur ríkisstj. vantað meiri hl. á Alþ. í landhelgismálinu og hefur hún þó hrökklast úr einu í annað og hvað eftir annað orðið að láta af fyrirætlunum sínum vegna gagnrýni stjórnarandstöðunnar og eindreginnar andstöðu þjóðarinnar.

Í landhelgismálinu hefur ríkisstj. gert hvert glappaskotið af öðru. Hún knúði í gegn óheillasamninginn við vestur-þjóðverja og samdi um veiðar þeirra hér við land í næstu tvö ár og um meira aflamagn en þeir höfðu veitt hér s.l. ár. Sá samningur er svo hrapallega vitlaus að þó að alþjóðasamkomulag verði um 200 mílna fiskveiðilandhelgi á Hafréttarráðstefnunni eftir 2 eða 3 mánuði eða eftir 4 eða 5 mánuði, þá halda þjóðverjar samt áfram fiskveiðiréttindum sínum hér við land út tveggja ára tímabilið.

Ríkisstj. ætlaði að semja við breta á svipuðum grundvelli til tveggja ára og hafði í upphafi viðræðnanna boðið bretum 65 þús. tonna ársafla, og hún hafði einnig undirbúið samninga við ýmsar aðrar þjóðir. Það var gífurleg andstaða almennings um allt landið sem stöðvaði þessa samningagerð.

Framkoma núv. ríkisstj. í landhelgismálinu hefur verið ein samfelld raunasaga.

Þegar deilan við breta hófst var það sjálfur forsrh. og síðan einnig sjútvrh. sem lýstu því yfir .opinberlega að þeir teldu að íslendingar gætu ekki varið landhelgina og að bretar gætu veitt hér í óleyfi eins mikinn fisk og þeir vildu og af þeim ástæðum gætu íslendingar ekkert annað gert en að semja við breta. Sömu ráðh. hafa síðan æ ofan í æ tekið upp í málflutningi sínum áróður breta um hvað þeim gangi vel veiðarnar í skjóli herskipanna og hvað við séum máttlausir í tilraunum okkar til þess að trufla veiðar þeirra. Og af hálfu ríkisstj. hefur nær öllum till. stjórnarandstöðunnar og almennings í landinu um gagnráðstafanir og gagnsókn gegn bretum verið hafnað. Kröfum um viðbótarskip í gæsluna hefur ekki verið sinnt, þó að reynslan hafi sannað að þegar 4 varðskip eru saman á veiðisvæði er allt í uppnámi hjá breska veiðiflotanum. Við gætum auðveldlega haft 6–8 skip í gæslunni í stað fjögurra, og við hefðum getað verið búin að útvega okkur eitt hraðskreitt skip sem gengi hraðar en bresku freigáturnar gera.

Ríkisstj. hefur brugðist við herskipaíhlutun breta og ásiglingum þeirra á íslensk varðskip af dæmafáum aumingjaskap. Hún hefur nuddað og röflað, hangið í pilsi NATO. Hún hefur frestað og beðið, athugað málið, lagt fram hlægileg sýndarmótmæli, sagst vera að athuga málið vandlega og sagt svo að hún liti málið alvarlegum augum. Og þegar stjórnin loksins hefur sig í það að slíta stjórnmálasambandi við árásarþjóðina, þá gerir hún það þannig að öllum er ljóst hér heima og erlendis að hún gerir það til neydd, rekin áfram af öðrum. Og hver getur tekið stjórnmálaslitin alvarlega þegar forsrh. sjálfur og aðalmálgagn hans segja að stjórnmálaslit séu þýðingarlaus og merki í rauninni ekkert annað en það, að skipt sé um spjöld á sendiráðshúsum í London og Reykjavík?

Frá hálfu ríkisstj. kemur ekki fram nein alvarleg hótun, enda eiga Hattersley hinn breski og forustumenn NATO ekki nægilega stór orð og góð til að hæla Geir Hallgrímssyni fyrir góðan vilja hans til að semja. Og ég býst við að menn hafi tekið eftir því í þessum umr. hér í kvöld, að það, sem hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson hafði um landhelgismálið sérstaklega að segja, var þetta: Gripum ekki til fleiri aðgerða í landhelgismálinu. Nei í guðanna bænum gerum ekki meira. — Og svo þetta, í angist sinni sagði hann: Beinum ekki reiði okkar gegn öðrum en bretum. — Hann var víst eitthvað hræddur um NATO í þessu tilfelli.

Í landhelgismálinu hefur ríkisstj. þrátt fyrir meiri hl. sinn á Alþ. verið að tapa, en stefna stjórnarandstöðunnar og mikils meiri hl. þjóðarinnar hefur verið að vinna á. Ríkisstj. varð að taka aftur tilboð sitt um 65 þús. tonn til breta. Hún varð að hætta við samningamakk sitt og er vonandi hætt slíku makki fyrir fullt og allt. Hún var knúin til þess að slita stjórnmálasambandið við breta. Og í dag stendur málið þannig að þeir, sem fyrir rúmum mánuði, eins og t.d. Jón Olgeirsson, íslenskur konsúll í Grimsby, töldu að breskir togarar fiskuðu mikið við Ísland og bretar mundu ekki kæra sig um neina samninga því að allt gengi svo vel, þeir segja nú, m.a. Jón Olgeirsson, að bresku togararnir komi nú hálftómir heim af Íslandsmiðum og að bresku sjómennirnir séu alveg að gefast upp í taugastríðinu við íslensku landhelgisgæsluna.

Nú klippa varðskip okkar þrátt fyrir freigátuvernd og mundu auðvitað klippa miklu meira ef fleiri varðskip okkar væru á miðunum. Og nú eru bretar komnir í hina mestu klípu með stefnu sína í landhelgismálinu. Þeir standa nú orðið í deilum við Efnahagsbandalagsríkin og krefjast 100 mílna fiskveiðilandhelgi við Bretland, en berjast þó á sama tíma fyrir 12 mílum sér til handa hér við Ísland og krefjast svo 200 mílna fiskveiðilögsögu fyrir strandríki á Hafréttarráðstefnunni. Það er ofureðlilegt að öll stærstu blöðin í Bretlandi hafi snúist gegn stefnu ríkisstjórnar hennar hátignar í deilunni við íslendinga.

Og nú er staðan orðin sú að öll NATO-hersingin skelfur á beinunum af hræðslu um að íslendingar loki NATO-stöðinni þrátt fyrir vilja forsrh. og gangi úr hernaðarbandalagi því sem leyfir herskipum sínum að beita ofbeldi innan íslenskrar lögsögu.

Landhelgismálið er dæmigert mál um það hvernig réttmæt gagnrýni stjórnarandstöðu og meirihlutavilji þjóðarinnar getur gripið inn í og knúð skammsýna ríkisstj., sem er að svíkja gefin loforð og í þann veginn að glutra niður stórmáli, til þess að beygja sig og snúa inn á rétta braut.

Í landhelgismálinu blasir nú við sigur íslendinga ef rétt er á málum haldið. Eina hættan er sú að ríkisstj. gefist upp eða komi í veg fyrir að þau vopn verði notuð sem örugglega mundu færa okkur sigur.

Ekki er forusta ríkisstj. í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar betri en forusta hennar í landhelgismálinu. Eftir eins og hálfs árs stjórnartímabil veður allt á súðum í fjárhags- og efnahagsmálum. Á fyrsta starfsári stjórnarinnar jókst dýrtíðin um 54.4% og hafði auðvitað aldrei vaxið annað eins á einu ári, þar af um 40% samkv. beinum ákvörðunum ríkisstj. sjálfrar, vegna tveggja gengislækkana hennar og gengissigs, vegna hækkunar á söluskatti, álagningar sérstaks innflutningsgjalds og verðlagshækkana á þjónustugjöldum, aðallega opinberra fyrirtækja sem ríkisstj. ákvað sjálf. Þrátt fyrir það að ríkisstj. hafi staðið svona að þýðingarmestu efnahagsmálum, þá skilur hæstv. dómsmrh. ekki með nokkru móti að það sé ástæða til af flytja vantraust á ríkisstj. Þetta þykir honum harla gott.

Ríkisstj. er orðin að athlægi allra vegna óstjórnar í fjármálum ríkissjóðs. Fyrstu fjárlög stjórnarinnar, fjárlögin fyrir árið 1975, stóðu í einn og hálfan mánuð, þá varð að rífa þau upp þar sem þau voru fyrirsjáanlega alröng. Þá var gengið lækkað rétt einu sinni. Sú gengislækkun entist í þrjá mánuði. Þá þurfti að leggja á sérstakt 12% innflutningsgjald. Tveimur og hálfum mánuði siðar var þó tilkynnt af ríkisstj. að það mundi verða 1 milljarðs kr. halli á ríkisbúskapnum. Tveimur mánuðum síðar tilkynntu forsrh. og fjmrh. á Alþ. að hallinn hjá ríkissjóði yrði 3.5-4 milljarðar kr. En svo leið mánuður og þá kom tilkynning frá fjmrn. um að hallinn hafi reynst 5 milljarðar kr. á árinu. En nú er Seðlabankinn búinn að endurskoða þetta og segir að hallinn hafi orðið 6.8 milljarðar kr. Þannig hefur fjármálayfirsýn ríkisstj. birst þjóðinni.

Nú stendur yfir allsherjarverkfall og nær öll framleiðsla í landinu er stöðvuð. Samkv. opinberum skýrslum rýrnaði kaupmáttur launa á s.l. ári um 17% og hefur rýrnað um 25% í tíð núv. ríkisstj. Þessi rýrnun er langt umfram minnkun þjóðartekna og verður ekki afsökuð með versnandi víðskiptakjörum nema að litlu leyti. Það er vegna þessarar þróunar sem nú stendur yfir allsherjarverkfall. Launafólk krefst launabóta vegna dýrtíðarflóðsins. Og svo kemur fram í þessum umr. einn af ráðh. Framsfl. og segir að vinnudeilurnar komi ríkisstj. ekkert við, þær séu deilur atvinnurekenda og verkafólks, þeir eigi að gera út um þetta, ríkisstj. eigi ekki að vera að skipta sér af þessu, — hvað séu menn að tala um? Og hann bætir því við að verkfallið sé miðlungi vel þokkað, eins og hann hafi þarna hvergi komið nærri. Veit hæstv. ráðh. Framsfl. ekki að nú blasir við sú staðreynd samkv. nýlegum útreikningum Hagstofu Íslands og Þjóðhagsstofnunar að verðlag mun hækka á þessu ári, á næstu mánuðum, um 13–17%, — það eru til tvær spár, önnur upp á 13%. hin upp á 17%, — þó að engar launahækkanir kæmu til, eigi launafólk hins vegar að halda óbreyttum kaupmætti launa þyrftu laun að hækka nokkuð yfir 20%? Ég endurtek. Þó að nú verði samið um rúmlega 20% launahækkun mundi launafólk aðeins tryggja sig gegn nýjum þegar ákveðnum, fyrirsjáanlegum verðlagshækkunum, en kaupmáttur launa stæði eftir sem áður óbreyttur. Þannig er málum nú komið eftir eins og hálfs árs íhalds-framsóknarstjórn.

Samtök launafólks eru því nú í varnarstríði gegn afleiðingunum af stefnu ríkisstj.Og svo koma hér hæstv. ráðh. og þykjast ekkert skilja í þessum vandræðum, ekkert skilja í þessum þrætum á milli launafólks í landinu og atvinnurekenda.

Það er staðreynd sem allir þekkja í þessu landi að laun á Íslandi eru nú helmingi lægri en í öllum nálægum löndum. En samt, þrátt fyrir þessi laun, er okkur sagt að allur rekstur hér á Íslandi skili tapi. Iðnaðurinn tapar, sjávarútvegurinn tapar, verslunin tapar og mestu tapar þó aumingja ríkissjóður. Hvert fer allt þetta tap? Hver græðir? Svarið er að finna í því að stefna ríkisstj. er alröng. Hún leiðir til minnkandi framleiðslu, til minnkandi þjóðarköku sem til skiptanna kemur. Það, sem gera þarf til að snúa þessari óheillaþróun við, er að hafna með öllu samdráttarstefnu, kauplækkunarstefnu, dýrtíðar- og gengislækkunarstefnu ríkisstj.

Svo spyr hæstv. dómsmrh.: Hvaða stjórn vilja þeir fá sem flytja hér vantraust? því er fljótsvarað: Við viljum ekki svona vonda stjórn eins og þá sem hér hefur verið. Næstum allar stjórnir sem kæmu hlytu að vera eitthvað skárri en þessi. Það þarf að takast samstarf á breiðum grundvelli sem flestra frjálslyndra manna um nýja stefnu, — stefnu sem stærstu og þýðingarmestu fjöldasamtök í landinu, samtök launafólks, gætu stutt. Sú stefna, sem taka þarf upp, ætti m.a. að miðast við eftirfarandi:

1) Engir samningar verði gerðir við breta um fiskveiðiheimildir og unnið að niðurfellingu þýsku samninganna. Þetta er grundvallaratriði.

2) Höfuðáhersla verði lögð á aukna framleiðslu, einkum útflutningsframleiðslu. Í því skyni verði fjármagni þjóðarinnar fyrst og fremst beint til atvinnuveganna.

3) Vextir verði lækkaðir a.m.k. um 4–5% strax og vaxtalækkuninni fylgt eftir með verðlagslækkunum. Við eigum ekki að láta það sjást lengur að vaxtaútgjöld margra fyrirtækja í okkar landi séu orðin hærri en öll vinnulaun sem fyrirtækin greiða.

4) Innflutningur á óþarfavörum verði stöðvaður á meðan gjaldeyrisstöðunni er kippt í lag og öflugar ráðstafanir gerðar til þess að styðja við innlenda framleiðslu.

5) Söluskattur verði lækkaður strax um 3–4 stig í stað þess að hækka söluskattinn eins og núv. ríkisstj. hefur nýlega gert.

6) Skattar á atvinnurekstri verði hins vegar hækkaðir og stranglega gengið eftir því að þeir greiði réttlátan hlut af sköttum sem nú skjóta sér undan allri skattgreiðslu. Þannig er hægt að jafna tekjurýrnun ríkissjóðs við lækkun á söluskatti.

7) Gert verði öflugt átak til þess að draga úr eyðslu ríkisins og opinberra stofnana, — það er tvímælalaust hægt, — og þeir, sem við atvinnurekstur fást, verði miskunnarlaust látnir bera ábyrgð á rekstri sínum í stað þess að varpa vandanum yfir á þjóðarheildina eins og nú er allt of oft gert.

Grundvallaratriði nýrrar stefnu þarf að vera aukin framleiðsla, full atvinna, full nýting allra framleiðslutækja þjóðarinnar og réttlátari skipting þjóðarteknanna.

Hér þarf til að koma ný framfarasókn. Við þurfum að vinna okkur fram úr vandanum í stað þess að grafast dýpra og dýpra í efnahagsfenið með vaxtaokurspólitík, samdrætti og launaniðurskurði eins og nú á sér stað.

Núv. ríkisstj. er óhæf til að leysa þann vanda sem við er að fást. Það hefur best sannast í þessum umr. í kvöld, því að ráðh. virðast ekki einu sinni skilja að það er þeirra stefna, það er það sem þeir hafa verið að gera sem reyrir hnútinn fastan. Ráðh. virðast telja að þeir hafi staðið sig vei í landhelgismálinu, þeir hafi staðið sig vel í dýrtíðarmálunum, — þeir hafa staðið sig vel í því að eyða gjaldeyrinum, — og þeir hafi staðið sig vel í launa- og kjaramálum. Auðvitað þarf stjórn, sem skipuð er ráðh. sem svona hugsa, að víkja. Sú stjórn er afturhaldsstjórn sem getur ekki notið trausts vinnandi fólks. Hún á að víkja og því fyrr því betra. — Góða nótt.