29.10.1975
Neðri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Ég vildi n.í í upphafi máls míns að mjög greinilega gefnu tilefni gera aths. við málflutning síðasta ræðumanns, hv. varaþm. prófessors Ólafs Ragnars Grímssonar. Málflutningur hans snerist raunar alls ekki um frv. það sem hér liggur fyrir til umr., heldur var hann, að mér þótti, með heldur frauðkenndar málalengingar sem ekki komu málinu við. Og ég vil segja það að ég bið fyrir væntanlegum kvöldfundum hv. d. ef slíkum málflutningi verður haldið hér áfram.

Það hefur borið nokkuð á því hjá þessum hv. þm. og hans flokksbræðrum að þeir hafa tamið sér það, sem ég hef ekki orðið vör við hjá öðrum þm., að skora á samþm. sína, allt að því mana þá til að gefa þessar og hinar yfirlýsingar. Stundum hafa þær yfirlýsingar átt að fela í sér skuldbindingar ríkissjóðs upp á milljarða fjárútlát. Við sluppum nú vel frá því að því leyti í kvöld, að því fylgdu ekki slíkar áskoranir.

Ég á ekki langa þingmennsku að baki, en nokkurn samanburð hef ég þó, og ég get ekki hjá því komist að tjá mig á þá leið að mér finnst málflutningur af þessu tagi í senn óþinglegur, ábyrgðarlaus, heldur heimskulegur og fram úr máta leiðigjarn. Það var, eins og ég sagði áðan, lítið rætt um það mál sem hér lá raun verulega fyrir. Það bar mikið á sanngirni og tillitssemi og umhyggjusemi fyrir hv. 3. þm. Austurl. Sverri Hermannssyni, sem hér er ekki viðstaddur. En hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson lét sig þó hafa það að honum fjarstöddum að vitna í viðtal við hann í Morgunblaðinu sem gaf sannarlega tilefni til andsvara hins fjarstadda þm. sem hann hafði þá auðvitað engin tök á að hafa hér í kvöld.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta mál sem er þó í sjálfu sér stórmál þegar á allar hliðar þess er litið. Ég get sagt það strax að ég tel Framkvæmdastofnunina, eins og hún er rekin í dag, í því formi sem hún er rekin, ekki þá stofnun sem ætti að fara með þau mikilvægu mál sem henni eru falin. Ég vil hins vegar láta í ljós þá skoðun mína um staðhæfingar fullum hálsi um að í þessari stofnun eigi sér stað pólitísk spilling og valdníðsla, sem heyrst hafa í umr. um þessi mál, að vegna þess að engin dæmi né rök hafa verið færð fyrir þessum alvarlegu ásökunum, þá hlýt ég að álita að sú gagnrýni, meðan hún er ekki rökstudd, hljóti að verða léttvæg fundin.

Ég vil líka segja það, að í máli hv. 4. þm. Austurl., Tómasar Árnasonar, fannst mér koma fram mjög gagnlegar upplýsingar, tölulegar upplýsingar og staðreyndir, þó að hv. síðasti ræðumaður gæfi hans ræðu þá einkunn að hún væri útþynntur fræðilegur fyrirlestur. Ég veit að hv. 4. þm. Austurl. er ekki prófessor í einu né neinu, en mér fannst ég ekki verða á neinn hátt vör við það yfirlæti og rembing sem fram kom í málflutningi prófessorsins, og sé fjarri mér að meta ræðu Tómasar Árnasonar minna fyrir það.

Það eina, sem mér þótti í rauninni málefnalegt í ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, var það sem hann sagði um áætlanagerð Framkvæmdastofnunarinnar. Ég veit vel að henni er enn sem komið er mjög ábótavant, og það hefur verið lesið upp úr ársskýrslu Framkvæmdastofnunarinnar lýsing á þeim vinnubrögðum sem þar væru viðhöfð og ég hugsa, því miður, að sé rétt. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson rakti nokkrar ástæður fyrir því. Hann hugði þær mundu vera m. a. mannfæð, skortur á sérmenntuðum mönnum og þar hygg ég að sé stærsta ástæðan fyrir því hvað okkar áætlanagerð miðar sorglega hægt. Stofnunin hefur verið í mannahraki og hefur alls ekki annað þeim verkefnum sem fyrir henni liggja.

Prófessorinn minntist á Vestfjarðaáætlun, og mér verður nú á að vitna í umrædda skýrslu Framkvæmdastofnunarinnar þar sem sagt er að Vestfjarðaáætlunin sé nú í fullum gangi, og það hýrnaði yfir mér er ég sá þessa staðhæfingu í svo trúverðugu plaggi sem ég vildi álíta þessa ársskýrslu. Ég er hrædd um að þarna sé nokkuð stórt upp í sig tekið, og ég viðurkenni það fúslega að ég er áhyggjufull yfir framgangi þeirrar áætlunar sem annarra landshlutaáætlana sem biða úrvinnslu og meðferðar hjá þessari stofnun. Ég vil hins vegar ekki láta ógert að minna prófessor Ólaf Ragnar Grímsson á að Vestfjarðaáætlun er þegar komin í framkvæmd að nokkru leyti, og á ég þá við vegáætlun Vestfjarða sem honum eins og mér er vel kunnugt um að er nú framkvæmd að miklu leyti og henni eigum við að þakka okkar góðu vestfirsku fjallvegi, eins og þeir eru í dag, þannig að óþarfi er að gera lítið úr þeim þætti hennar. En vissulega eru enn margir þættir atvinnu; félags- og menningarmála Vestfjarða sem bíða óleystir hvað áætlanagerð snertir.

Mig langar til að víkja aðeins að ræðu hv. 6. landsk., Guðmundar H. Garðarssonar, sem gerði Framkvæmdastofnunina að umtalsefni og þá aðallega Byggðasjóðinn. Hann vitnaði í og var sár og gramur yfir þeirri staðreynd að á s. l. ári hefði lán til Reykjavíkur verið eitt og það hefði numið 1.1% af lánveitingum Byggðasjóðs. Þetta er staðreynd og þetta er eðlileg staðreynd. Ég skil satt að segja ekkert í hv. þm. sem gera sig seka um að opinbera jafnmikinn misskilning á eðli þessa máls eins og kom fram í málflutningi hans og raunar líka 4. þm. Reykn., hv. þm. Jóns Skaftasonar. Við vitum öll jafnvel til hvers Byggðasjóður var stofnaður. Hann var stofnaður til mótvægis við þann geigvænlega fólksflótta sem átti sér stað úr öllum byggðarlögum landsins til Reykjavíkur og Reykjavíkursvæðisins. Þetta benti Tómas Árnason mjög rækilega á í ræðu sinni í dag og þarf ég ekki að endurtaka það í löngu máli hér. En þetta er mergurinn málsins, enda vitnaði hv. 6. landsk., Guðmundur H. Garðarsson, í lög um Byggðasjóð þar sem stendur skýrum stöfum að til hans hafi verið stofnað til þess að koma í veg fyrir að lífvænleg byggðarlög leggðust í eyði.

Þarna erum við komin að kjarna málsins. Það var aldrei meiningin að Reykjavík og Reykjavíkursvæðið nytu nokkurrar fyrirgreiðslu úr Byggðasjóði. Það var leitt að 6. landsk. var ekki hér og heyrði það sem ég sagði um hans ræðu. En ég ætlaði að halda áfram aðeins að gera aths. við ræðu Guðmundar H. Garðarssonar. Hann benti á þetta 1.l% sem honum fannst heldur lítill hlutur Reykjavíkur í lánveitingum Byggðasjóðs. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði um það nú á síðustu mínútu. Mér verður hins vegar á að benda hv. þm., sem tala í sama tón um hlutverk Byggðasjóðs, að fletta upp t. d. í skrá yfir lánveitingar frá Byggingarsjóði ríkisins. Þar verður nokkuð annað uppi á teningnum. Ég hef hér skrá yfir lánveitingar úr Byggðasjóði ríkisins á árunum 1972–1974. Ég held, að ég þurfi ekki að taka nema síðustu tvö árin, það gefur nægilega gott sýnishorn af þeim tölum sem þar koma fram.

Árið 1973 er heildarlánaupphæð 1 milljarður 262 millj. 395 þús., þ. e. a. s. 1262 millj. Af þessum 1262 millj. fær Reykjavík í sinn hlut 642 millj. 615 þús. sem gerir 45.40%. Reykjaneskjördæmi fær á þessu ári af sömu upphæð 343 millj., þ. e. a. s. 24%. Þessi tvö kjördæmi, Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, fá á árinu 1973 78% af lánum Byggingarsjóðs. Árið áður nam prósentutala þessara tveggja kjördæma 81.5%. Þetta er allstór hlutur úr þessum mikilvæga sjóði. Á þessum árum var ekki einu sinni komin til löggjöf um leiguíbúðir úti á landi, sem varð til er landsbyggðin vaknaði við vondan draum um hvað var að gerast í húsbyggingarmálum þjóðarinnar. Húsnæðisvandi landsbyggðarinnar er eitt af hennar mestu vandamálum í byggðalegu tilliti. Það er staðreynd að margt ungt fólk hefur nú upp á síðkastið fullan hug á því að koma sér burt héðan úr þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins og út í hin strjálbýlli héruð, jafnvel hin allra strjálbýlustu. Það hefur oft á tíðum strandað á þeirri gallhörðu staðreynd að það er ekki húsnæði til að taka við þessu fólki sem gjarnan vildi flytjast héðan frá Suðvesturlandi og út á landsbyggðina. — Þetta var fyrir árið 1973, en ég skal ekki fara út í tölurnar 1974, en samsvarandi prósenta, þ. e. a. s. hlutur þessara tveggja kjördæma, Reykjaness og Reykjavíkur, er í lánveitingum þessa sjóðs, Byggingarsjóðs ríkisins, 70%. Það hefði verið eðlilegt að fá þessar tölur og e. t. v. dálítið uppörvandi fyrir reykvíkinga að heyra þessar tölur við hliðina á 1.1% úr Byggðasjóði.

Sama verður uppi á teningnum ef ég tek Byggingarsjóð verkamanna, útlán til verkamannabústaða. Þar var á árinu 1974 veitt heildarupphæðin 326 millj. 104 þús. kr. Af þessum 326 millj. koma 210 millj. eða 64.40% í hlut Reykjavíkur. Reykjaneskjördæmi er þar með allmiklu minna eða 8.6%

Ég hirði ekki um að fara út í fleiri sjóði til þess að sýna svart á hvítu að Reykjavík og Reykjanessvæðið þurfa ekki að kvarta yfir því að verða afskipt í opinberum fjárveitingum miðað við landsbyggðina. Sannleikurinn er sá, eins og við vitum öll, að það lá um tíma við landeyðingu í fjölda byggðarlaga, — það lá við landeyðingu. Og enn í dag er ástandið þannig að byggðin er það grisjuð orðin, að ef eitt eða tvö býli hverfa úr byggð í sumum þessara byggðarlaga, þá er brostinn á enn meiri flótti heldur en hefur orðið hingað til. Þess vegna er það ekkert hégómamál þegar talað er um jafnvægi í byggð landsins og nauðsyn á því að stöðva þá stórkostlegu byggðaröskun sem átti sér stað á árunum 1950–1970. Það er þjóðarnauðsyn ef við ætlum á annað borð að hafa landið allt í byggð. Það er raunar mark sem ég veit að allir eru einhuga um að keppa að.

Hv. þm. Jón Skaftason þótti það mjög miður eða ekki fékk ég skilið málflutning hans öðruvísi en honum þætti miður að nú hefði þróunin allt að því snúist við, nú væri fjölgunin yfir landið orðin meiri en á Reykjavíkursvæðinu. Þetta er staðreynd. Í ársskýrslu Framkvæmdastofnunarinnar er skrá yfir fólksfjölgun á landinu á árunum 1973 og 1974. Höfuðstaðarsvæðið er þar með fjölgun 2.02%, Reykjanessvæði 4.45%, Suðurland án Vestmannaeyja 6.16%, en ef lítið er á allt landið í þessu tilliti, þá er fólksfjölgun 2.53%, þ. e. a. s. heildartalan er fyrir ofan Reykjavík, töluvert miklu fyrir neðan Reykjanessvæðið, svo að hv. þm. má hughægjast þegar hann hugleiðir þá staðreynd, og mjög miklu fyrir neðan Suðurland sem er með 6.16% fjölgun á móti 2.55% sem heildarfjölgun yfir allt landið. Mér finnst þetta gleðileg þróun, ég held ekki bara fyrir landsbyggðina, heldur ekkert síður fyrir Reykjavík. Ég veit að reykvíkingar hafa áhyggjur út af ýmsum hlutum fremur en þeim að þessi stanslausi, yfirþyrmandi fólksstraumur sé stöðvaður til borgarinnar. Ég þarf ekki að orðlengja það, að það skapaði Reykjavíkurborg risavaxinn vandamál. sem hún átti fullerfitt með að axla, meðan fólksflutningurinn var hvað mestur frá landsbyggðinni.

Um Fiskveiðasjóðinn gerðist hv. 6. landsk. Guðmundur H. Garðarsson nokkuð fjölyrtur og honum þótti hlutur Reykjavíkur harla lítill þar líka. Ég vil biðja minn ágæta samherja að gera sér grein fyrir þeirri augljósu staðreynd að atvinnulíf hér í Reykjavík er gróflega ólíkt þeim stöðum úti á landi sem byggja alla sína afkomu á fiskveiðum. Hér í Reykjavík er miðstöð iðnaðar, verslunar og hvers konar þjónustu. Sjávarþorpin okkar mörg úti á landi hafa svo sem ekkert annað að byggja sitt lífsviðurværi og lífsafkomu á heldur en fiskinn, fiskvinnslu, fiskiskip, þannig að það er engin goðgá þó að Fiskveiðisjóður styðji þessa staði fremur til sjálfsbjargar heldur en Reykjavík með hennar fjölbreytta atvinnulíf sem mörgum stoðum er skotið undir umfram landsbyggðina. Þó er hlutur Reykjavíkur í útlánum Fiskveiðasjóðs ekki hverfandi lítill. Svo að ég taki beint upp úr ræðu hv. 6. landsk., þá eru þó á árinu 1972 8.6% af útlánum Fiskveiðasjóðs sem koma í hlut Reykjavíkur, eða 108 millj. Árið 1913 er prósentan 13.2%, þá fékk Reykjavíkurborg 296.5 millj. úr Fiskveiðisjóðnum. 1974 fellur að vísu þessi tala mjög langt niður og ég skil vel áhyggjur Reykjavíkurþm. út af því að þarna verður, að mér sýnist, miðað hin árin, óeðlilega mikið fall niður á við í þessum lánum frá Fiskveiðasjóði.

Í Atvinnuleysistryggingasjóðnum, ef við hverfum til hans, er hlutur Reykjavíkur ekki heldur hverfandi lítill. Hann er árið 1972 27.1%, árið 1973 29.3% og árið 1974 42.8%, sem er þó 2% hærra en íbúaprósenta Reykjavíkur miðað við alla þjóðina, en hann mun vera um 40% í dag.

Ég skal ekki orðlengja þetta miklu frekar. Ég hef fátt uppbyggjandi til málanna að leggja um form Framkvæmdastofnunarinnar. Mér sýnist að það hafi farið með hana eins og svo víða hjá okkur að það hefur vaxið upp þarna bákn, óþarflega flókið, og hefði e. t. v. mátt leysa verkefni hennar í öðrum stofnunum sem þegar voru fyrir, enda er það staðreynd að sumar stofnanir, sem fóru með þessi mál áður, hafa hreinlega verið lagðar niður. Hvort ástæða var til þess að hverfa að stofnun Framkvæmdastofnunar, það læt ég ósagt um, þó að mér sé nær að ætla að þessi stofnun eigi ekki skilið allt það moldviðri og og fjaðrafok sem búið er að gera út af henni. Hinir þrír pólitísku kommissarar, það var að vísu mjög ógeðfelld vinnuaðferð, það þótti mér í einlægni sagt. Hitt skulum við þó hafa í hyggju, að vitanlega er efnahagsmálum þjóðarinnar stjórnað samkv. stefnu þeirri sem ríkisstj. hverju sinni markar, þannig að það þarf ekki að koma neinum á óvart þó að í slíkri stofnun sé pólitísk stjórn í þeim skilningi að þessi stofnun hlýtur að framfylgja stefnu þeirrar ríkisstj. sem situr hverju sinni.

Ég sé ekki betur en að frv. sem hér liggur fyrir, geri enn ráð fyrir að ríkisstj. skipi aðalframkvæmdastjóra þessarar stofnunar, en formið er öðruvísi, og ég þarf ekki að fara að skýra það út fyrir hv. þm. d., þeim er jafnvel kunnugt um það og mér. Án þess að ég ímyndi mér að það væri nokkurt lausnarorð í þessu efni, þá finnst mér þó sá háttur geðfelldari og eðlilegri en að hafa þm. í þessum framkvæmdastjórastöðum. Og óheppilega og óeðlilega vill það til að það séu tveir þm. úr sama kjördæmi. Það er óheppileg staðreynd. Ég vil jafnframt taka fram að ég lýsi yfir fullu trausti á þá tvo menn sem gegna þessum framkvæmdastjórastöðum í dag sem sennilega ættu ekki að vera þó til. En ég tel að í árásum þeim, sem orðið hafa á þessa stofnun, hafi þeir orðið fyrir ómaklegum árásum. A. m. k. vil ég ekki taka þær gildar, þá gagnrýni og það ámæli sem þeir hafa hlotið, fyrr en ég heyri það betur rökstutt.

Það hefur verið talað um hreppapólitík, ríg og togstreitu í þessum umr. hér á þingi. Oft var þörf, en nú, er held ég brýn nauðsyn á að alþm. hefji sig upp yfir slíkt, ríg, togstreitu og hreppapólitík. Við höfum nú nýverið fengið til meðferðar og afgreiðslu frv. til fjárlaga sem ekki má hækka í meðförum þingsins, þ. e. a. s. eigi okkur að takast að bægja frá þeim efnahagslega voða sem vofir yfir íslensku þjóðinni. Ég þarf ekki að útlista þann vanda hér, það hefur verið gert á undan mér áður og betur en ég fengi orðum að komið. Það er því gefið mál að fjárlagaafgreiðslan í ár er ekkert tilhlökkunarefni. Það mun reyna meir, að ég hygg, en nokkru sinni áður á skilning, sanngirni og yfirsýn þm. gagnvart þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag. En sem þm. strjálbýliskjördæmis sem á í byggðalegu tillíti í vök að verjast og er eina kjördæmi landsins sem enn stendur frammi fyrir fólksfækkun, — sem slíkur strjálbýlisþm. vil ég að lokum lýsa því yfir að ég hlýt að trúa því og treysta að sanngjörn og rökstudd byggðastefnusjónarmið muni fá byr hér á Alþ. við fjárlagaafgreiðsluna sem og áfram í þingstörfum, það muni fá þann byr sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur heitið þessu máli.