26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hér er á dagskrá frv. til l. um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o.fl. Þetta frv. gerir ráð fyrir framlengingu á 1% söluskattsgjaldi og gerir jafnframt grein fyrir skiptingu á því fé sem þannig aflast. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti þessum tilgangi frv. En ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að sú aðferð, sem gildir um niðurgreiðslu eða styrk vegna olíukostnaðar, vegna kyndingarkostnaðar á íbúðarhúsnæði, sé bæði ógeðfelld og ófær. Ég var á sínum tíma algjörlega andvigur þessum lögum þegar frv. um þau var flutt hér í fyrsta sinn, og af þessari ástæðu greiddi ég einn þm. atkv. gegn þessu frv. Ég vil lýsa því yfir að ég mun áfram gera það, greiða atkv. gegn þessu frv., til þess að lýsa andstöðu minni á þeirri aðferð sem notuð er við niðurgreiðslu á hitunarkostnaði. Sú aðferð, eins og öllum er kunnugt af umr. og af lestri þessa frv., er í því fólgin að greiða niður kostnað vegna olíukyndingar miðað við tölu þeirra sem í viðkomandi íbúð búa, algjörlega án tillits til stærðar íbúðarinnar, húsagerðar eða húsakynna, algjörlega án tillits til þess hvort kostnaðurinn sé mikill eða lítill, hvort húsnæðið sé í notkun — eða yfirleitt ekki tekið tillit til raunverulegs kyndingarkostnaðar og þarfar viðkomandi húseiganda til þess að fá olíuna greidda niður. Niðurstaðan hefur líka verið sú í framkvæmd að þetta fyrirkomulag hefur verið misnotað. Það hefur boðið upp á ranglæti og jafnframt valdið ákaflega miklum erfiðleikum og vandamálum fyrir þá aðila sem framkvæma eiga lögin, þ.e.a.s. viðkomandi sveitarfélög.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson taldi að þetta væri rétt, að ýmsir gallar væru á þessu fyrirkomulagi, en lýsti því svo að ófært væri að grípa til annarra aðferða, m.a. þeirrar, sem bent hefur verið á, að greiða almennt niður olíuna. Ég hef ekki sannfærst um að það sé rétt, að ekki sé hægt að greiða niður olíuna almennt. Ég er þeirrar skoðunar að vel mætti framkvæma af olíufélögum eða þeim, sem selja olíuna, þá aðferð að greiða olíuna almennt niður og sjá svo til að sú olía, sem sé greidd niður, sé notuð til þess að kynda upp íbúðarhúsnæði. Það er áreiðanlega mögulegt. Vitaskuld má gera ráð fyrir að það verði einhver misnotkun á því. Það er aldrei hægt að fyrirbyggja það með lögum að ekki sé misnotað eða mismunað. En ég held að sú aðferð væri réttlátari og mundi sneiða hjá því hróplega ranglæti og þeirri misnotkun sem nú á sér stað og ég held að öllum sé kunnugt um.

Hér hefur verið lögð fram till. af hv. þm. Karvel Pálmasyni að leggja 20% aukagjald á gjaldskrár hitaveitna og nota þetta gjald til þess að hraða hitaveitu- og raforkuframkvæmdum vegna hitunar íbúða. Hann hefur lýst því svo að á því sé mikill munur hvað fólk borgar til kyndikostnaðar eftir því hvort það notar olíu eða hitaveitu, og ég tek undir það, það er ákaflega mikill munur og óeðlilegur hvað þetta snertir. En ég lýsi mig algjörlega andvígan þessari till. vegna þess að hún gerir ráð fyrir því að þeim, sem hafa komið sér upp ódýrara kerfi, sé refsað með því að þurfa að greiða sérstakt gjald. Ef við viljum jafna þann mun, sem ú þessum vettvangi er eins og annars staðar, þá eigum við náttúrlega ekki að gera það með því að leggja sérstök gjöld á þá sem sleppa ódýrara í dag, heldur eigum við að reyna að lækka þann kostnað sem á þeim er sem hærri kostnað hafa.

Það er öllum ljóst að olía eða kol eða rafmagn eða hvað það er sem notað er til upphitunar er miklu dýrara en heita vatnið. Það var einmitt af þeim ástæðum sem ráðist var í þær framkvæmdir hér í Reykjavík á sínum tíma að kynda hús upp með heitu vatni. Það framtak var mjög lofsvert og varð til þess að aðrir fetuðu í fótspor reykvíkinga. Fyrir að lækka þannig kostnaðinn með sjálfsstæðu framtaki og átaki á sínum tíma má auðvitað ekki refsa reykvíkingum með því að leggja sérstakt gjald á þá núna til þess að minnka þann mun sem sannarlega er fyrir hendi. Eða til hvers eiga sveitarfélög eða byggðarlög að vera að koma sér upp hitaveitu eða fyrirkomulagi sem er ódýrara en að kynda upp með olíu ef það er allt saman jafnað upp og gert jafndýrt eins og fyrir þá sem nota olíuna? Það auðvitað dregur úr því að

sveitarfélög eða byggðarlög leggi almennt út í það. Borgararnir hafa ekki mikla löngun til þess að reyna að ráðast í slíkar framkvæmdir og koma sér upp hitaveitu ef það er strax sett á þá sérstakt gjald, sem auðvitað er ekkert annað en sérstakt refsigjald. Ég vek líka athygli á því að þessi till. Karvels Pálmasonar er ekki til þess að lækka kyndikostnaðinn strax nú á þeim sem hafa olíukostnað, heldur er það til þess að veita þessu fé í Orkusjóð og hraða hitaveituframkvæmdum fyrir framtíðina. Ég er sammála því að það skuli setja fé í Orkusjóð til þessara framkvæmda, og það er líka gert ráð fyrir því í því frv. sem hér liggur fyrir. Þá aðferð má viðhafa áfram.

Hér var aðeins vikið að Hitaveitu Reykjavíkur og rekstri á því fyrirtæki. Ég skal ekki blanda mér í þær umr. Ég er sammála því að það fyrirtæki er vel rekið. En auðvitað er sá rekstur háður því að fyrirtækið fái samþ. þá gjaldskrá sem það leggur fram og telur sig þurfa að hafa til að reksturinn haldi áfram með viðeigandi hætti. Ég minni aðeins á í þessu sambandi að nú standa yfir hitaveituframkvæmdir í nágrenni Reykjavíkur sem framkvæmdar eru af Hitaveitu Reykjavíkur, og þessi sama hitaveita, sem er í eigu reykvíkinga, hefur farið fram á hækkun á gjaldskrá sem stafar af þessum framkvæmdum. Ef þessi gjaldskrá verður nú samþ. þessi hækkunartill. verður samþ., þá eru það aukin útgjöld fyrir þá sem búa í Reykjavík og njóta hitaveitunnar hér og það er beinlínis gert til þess að lækka kyndikostnað hjá öðrum og til þess að koma á hitaveitu hjá þeim. Af þessu má sjá að reykvíkingar hafa nú þegar og munu sjálfsagt í framtíðinni leggja sinn skerf til þess að lækka kyndikostnað hjá þeim sem nú búa við mjög háan kostnað vegna olíukyndingar.

Herra forseti. Ég vildi strax við þessa umr. lýsa því yfir að ég er andvígur þeirri aðferð, sem notuð er við niðurgreiðslu á olíukostnaði, og mun því greiða atkv. gegn þessu frv.