26.02.1976
Efri deild: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2251 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

181. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á l. um námslán og námsstyrki, en það var lagt fram í Nd. og hefur hlotið afgreiðslu þar. Ég vil geta þess, að ég kynnti þetta frv. fyrir þingflokkunum í gær og fór þess á leit að greitt yrði fyrir framgangi þess. Það var síðan kynnt í öllum þingflokkunum. Frv. til nýrra l. um námslán og námsstyrki var lagt fyrir Alþ. í þessari viku, en það hefur að sjálfsögðu ekki hlotið afgreiðslu ennþá. Í aths. með þessu frv. segir aðeins:

„Óhjákvæmilegt er að úthluta námslánum nú þegar. Vart kemur til greina að veita lengur óverðtryggð lán. Því er lagt til að gera þá breyt. á lögum um námslán og námsstyrki, sem felst í þessu frv.“

Herra forseti. Ég orðlengi þetta ekki frekar og með vísan til þess, sem ég áðan sagði um kynningu málsins, þá geri ég ekki till. um að vísa málinu til nefndar.