01.03.1976
Efri deild: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg að það sé óhætt að lofa hæstv. iðnrh. því, að frv. þetta muni fá af hálfu okkar alþb.-manna í Ed. álíka góðar undirtektir og af hálfu alþb.- manna í Nd. þar sem samningsgerð, sem hér er um fjallað, var talin fráleit. Þó kann svo að fara að umfjöllun í Nd. muni leiða til þess að hún fái hér öllu verri undirtektir, því að ýmislegt það kom í ljós við lokaafgreiðslu málsins í Nd. sem gerir mál þetta öllu verra en það virtist þegar frv. var lagt fram í fyrstu.

Ég mun ekki halda hér langa ræðu að sinni, aðeins vekja athygli á því að hér er svo ráð fyrir gert að við heimilum Alusuisse að stækka verksmiðju sína í Straumsvík um 1/7 hluta eða því sem næst með skilyrðum, efnahagslegum og pólitískum, sem ekki ná neinni átt.

Það er rétt, sem hæstv. iðnrh. sagði, að þegar við gerðum samninginn við Alusuisse árið 1966 hafði orkuverð verið allstöðugt um langa hríð, og það er ekki fyrr en upp úr 1973, sem orkuverð fer svo ört hækkandi sem rann ber vitni. Eigi að síður var fráleitt að binda landsmenn fram til ársins 1990 um svo til óbreytt eða mjög lítið breytt orkuverð, og þó það allra fráleitasta að fela það á vald erlendum dómstólum að fella úrskurð í deilumálum sem rísa hlutu um framkvæmd þessa samnings á svo löngum tíma.

Ég tel að það tækifæri, sem okkur gafst nú þegar Alusuisse sótti á okkur um meiri raforku til aukinnar framleiðslu á áli í Straumsvík, — tækifæri, sem okkur gafst nú til þess að knýja á um raunverulegar breytingar á þessum samningi sem okkur hefur reynst mjög illa, hafi hvergi nærri verið notað sem skyldi. Einnig liggur í augum uppi að sú verðhækkun á raforku,sem hér fæst fram, er langt frá því sem hlyti að teljast eðlilegt við okkar gefnu aðstæður, að við sættum okkur við orkuverð fyrir neðan 50 aura kwst. Á sama tíma og þó öllu heldur nokkrum missirum eftir að talið var hæfilegt að semja við nýtt fyrirtæki í tengslum við erlendan auðhring hér á landi, málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, um orkuverð sem samsvarar 10 mill og samtímis því sem norðmenn boða samkv. síðustu fréttum hækkun á raforkuverði til orkufreks iðnaðar upp í 1.80 ísl. kr., þá liggur í augum uppi að fyrirhugað verð á raforku okkar til Alusuisse er fyrir neðan allar hellur.

Þá vek ég athygli á að í frv. því, sem hér um ræðir, er alls ekki frá því gengið að Alusuisse komi upp nauðsynlegum hreinsitækjum við verksmiðju sína. Að vísu er kveðið á um að það verði við viðbótarhluta verksmiðjunnar, en það er alls ekki frá því gengið að bætt verði úr þeirri hróplegu vanrækslu sem okkar samningamönnum varð á, þegar samið var við Alusuisse 1066, þegar ekki var kveðið á um fullkomin hreinsitæki við þessa verksmiðju. Afleiðingin blasir nú þegar við okkur í bláa flúormekkinum í kringum verksmiðjuna og í gróðri hið næsta verksmiðjunni.

Mér skilst að við umfjöllun um þetta mál í iðnn. Nd. hafi þrátt fyrir hólið, sem hæstv. ráðh. bar á n. fyrir störf, nokkuð brostið á að til voru kvaddir allir þeir aðilar sem leita ætti ráða til í þessu máli. Þar á meðal virðist mér að á hafi brostið að rætt hafi verið við bæjarstjórn eða bæjarráð Hafnarfjarðar um þetta mál, en á hafnfirðingum mæðir nú mest mengunin frá þessari verksmiðju.

Eins og ég sagði áðan, þá ætla ég ekki að halda hér langa ræðu um frv. að þessu sinni, mun e.t.v. halda hana lengri þegar skilað verður nál., og vil bera fram þá ósk mína að frv. fái ítarlega meðferð í iðnn. Ed.