02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

178. mál, veiting prestakalla

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Það hefur nú verið drepið á flest þau atriði sem ég var með í huga þegar ég kvaddi mér hljóðs og mun ég því ekki þurfa að segja mörg orð nú. Ég vil aðeins víkja að því sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hv. 9. landsk., varðandi skoðanakönnun meðal fólksins.

Ég vil ítreka það, sem ég sagði í ræðu minni áðan, að það var af hálfu Kirkjuþings leitað mjög umsagna um allt land, og ég hygg að fá frumvörp hafi verið betur undirbúin hvað þetta snertir, þ.e.a.s. að leita eftir raunverulegum viðhorfum fólksins um landið. Ég lít svo á að sú n., sem verður kosin til starfa ef þessi þáltill. verður samþykkt, muni eiga greiðan aðgang að þeim gögnum, sem fyrir Kirkjuþing voru lögð, og hún taki sjálf ákvörðun um það hvort hún hefst handa um frekari aðgerðir í ljósi þess sem hún kann þar að verða áskynja.

Ég hygg að það taki nú að líða á þessar umr., og ég tel tómt mál að þessu sinni að deila um það hvort hér er verið að framfylgja lýðræði eða ekki lýðræði. Svo mikið er vist, að lýðræðið í prestkosningunum er allt annað en það lýðræði sem við hugsum um þegar kosið er með vissu millibili til sveitarstjórna eða þings. Það fer ekki á milli mála. Við getum e.t.v. verið í eitt skipti fyrir öll, eins og ég benti á áðan, að kjósa til 40 ára og enginn möguleiki á breytingu þar á því tímabili.

Ég vil aðeins segja það í sambandi við umr. um deilur um trúmálastefnur, að sem betur fer eru lærðir menn ekki allir sammála né heldur leikir hvað það snertir. Ég tek undir það, að ég hygg, að það sé ekki endilega kosið um það í prestkosningum. Það var látið liggja orð að því áðan. En hefur enginn heyrt talað um að það kunni einhver að hafa snúið í gang apparati sem stundum er kallað kosningamaskína stjórnmálaflokka og hún kunni að hafa verið í gangi vegna þess að viðkomandi stjórnmálaflokkar hafi talið æskilegt að þessi eða hinn frambjóðandinn væri kosinn af pólitískum ástæðum? Ég tel mjög æskilegt að slík áhrif kæmu ekki til.

En ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, var líka sú að hér kom fram í ræðu hv. 7. landsk. þm, og hæstv. utanrrh., að þegar málið kom til Ed. þar sem þeir sitja og sátu, og komið til menntmn., að það var n. sem svæfði málið með því að leggja til að því yrði vísað til ríkisstj. Að öðru leyti, efnislega séð, mun það ekki hafa komið til atkvgr. þar. Ég hygg að það séu forsendur fyrir því að máli sé vísað til ríkisstj. vegna þess að það þurfi líka frekari athugunar við, og ég er ekkert viss um að skoðanir alþm. nú, eins og þingið er samansett, falli endilega saman við þær skoðanir sem voru á því þingi. Sem betur fer endurnýjast þingið sífellt. Og ég hef þá trú að enda þótt ekki muni hafa verið fyrir hendi meiri hl. fyrir breytingu á síðasta þingi, þá bæði vegna umr. á Alþ. og meðal manna þokist skoðanir þm, í sömu átt og skoðanabreyting hefur átt sér stað á meðal hinna almennu sóknarbarna um landið í heild sem og hjá prestum.

Ég vildi leita eftir því hvort andmælendur þessarar þáltill. eru alfarið á móti því að þáltill. verði samþykkt, hvort þeir eru svo á móti allri breytingu að þeir geti ekki frestað því að taka afstöðu til málsins þar til sýnt er hvort þessi 7 manna þingmannanefnd nær samkomulagi um einhverjar þær breytingar frá þeim hugmyndum, sem eru á jöðrum í þessu máli, nær samkomulagi um breytingar sem viðunandi eru fyrir báða málsaðila.