02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

131. mál, takmörkun þorskveiða

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 236 hef ég leyft mér að bera fram till. til þál. er hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá svo um að ekki verði veiddar meira en 250 þús. lestir af þorski á Íslandsmiðum árið 1976.“

Þessi till. var lögð fram hér á Alþ. á árinn 1975, og má því segja að það sé erfiðara viðfangs nú heldur en ég ætlaðist til að ræða hana, þar eð nú er þriðji mánuður þess árs sem hún átti að hjálpa til að takmarka veiðina á.

Öllum hv. þm. mun vera ljóst tilefni þessa tillöguflutnings. Á undanförnum árum hafa fiskifræðingar og sjómenn hvað eftir annað vakið athygli á gegndarlausri ofveiði okkar bolfiskstofna og þá einkum þorskstofnsins. Árið 1972 rituðu fiskifræðingar sjútvrn. tvisvar sinnum bréf þar sem vakin var athygli á alvarlegu ástandi þorskstofnsins, einkum hve hrygningarstofninn færi ört minnkandi. Fyrra bréfið ritar Sigfús Sehopka sjútvrn. 22. mars 1972, að afloknum fundi í Charlottenlund í Danmörku. Það var fundur í sameiginlegri vinnunefnd Alþjóðahafrannsóknarráðsins og Norðvestur-Atlantshafsnefndarinnar um ástand þorskstofnanna í Norður-Atlantshafi og horfur í þeim efnum með sérstöku tillíti til sóknarbreytinga. Eftir að hafa lýst því, hvernig afköst fiskiflotans hafa aukist um a.m.k. 3% á ári eða um 30% á undanförnum 10 árum vegna endurbóta á veiðarfærum, siglinga- og fiskleitartækjum, komust sérfræðingarnir að þeirri niðurstöðu að allir stærri þorskstofnarnir í Norður-Atlantshafi væru fullnýttir eða ofveiddir, og segja þeir síðan í lok bréfsins: „Það er því ljóst að þorskafli í Norður-Atlantshafi verður ekki aukinn meira en orðið er. Minnkandi sókn dregur að vísu aðeins úr aflamagni, en hins vegar mun afli á sóknareiningu vaxa, sem aftur stuðlar að aukinni hagkvæmni fiskveiðanna. Æskilegt er því að draga úr sókninni í þorskinn, í sumum tilvíkum jafnvel nauðsynlegt. Reiknaðist okkur til að æskilegasta sóknin sé um helmingur af núverandi sókn.“

Þetta sagði fiskifræðingurinn í bréfi sínu 22. mars. 1972.

14. júní 1972 gefa þeir Þórður Ásgeirsson og Jakob Magnússon rn. skýrslu um ársfund Norðvestur-Atlantshafsnefndarinnar sem haldinn var í Washington 25. maí til 2. júní 1972. Staðfestir skýrslan að þau sömu sjónarmið um fullnýtingu eða ofveiði stofnanna í Norður-Atlantshafi voru ríkjandi á aðalfundinum, sömu og ríkt höfðu á fundinum í Charlottenlund.

Þessar viðvaranir virtust þó ekki hafa veruleg áhrif á íslensk stjórnvöld. Sókn okkar hélt áfram að aukast og sókn útiendinga stóð nokkurn veginn í stað þrátt fyrir útfærslu landhelginnar í 50 mílur. Sókn útiendinga var um 50% á þessum árum og 1973 sömdum við við eina af þessum þjóðum um 130 þús. tonna ársafla í tvö ár. Er því sýnilegt að þarna var stigið mjög alvarlegt spor til viðhalds ofveiðinni.

Síðan kom svarta skýrslan svonefnda sem varð til að hrista upp í hugum margra íslendinga. Þar var loks kveðið fast að orði um framtíð fiskveiða okkar ef svo væri haldið áfram sem nú horfði. þar kom fram að þrátt fyrir hina miklu sóknaraukningu hefur afli staðið í stað nokkurn veginn síðustu árin. Enn fremur var lögð áhersla á þá staðreynd, að aðeins 1973-árgangurinn af þorski má teljast sterkur og hrygningarstofninn fer stöðugt minnkandi. Hvert stefnir má nokkuð sjá af neðangreindum tölum:

Árið 1958 veiddust hér 510 514 lestir af þorski, árið 1963 409 þús., árið 1968 379 þús. og árið 1374 374 987 lestir. Að sjálfsögðu er sagan ekki nema hálfsögð með þessum tölum því að á greindu tímabili hefur orðið gífurleg tækniþróun, bæði varðandi gerð veiðarfæra, mælitækja og skipa. Ef sömu aðstæður varðandi þessi tæknilegu atriði hefðu verið 1974 og þau voru 1958, þá hefði aðeins verið um óverulega veiði hér að ræða.

Hlutur útlendinga í heildarveiðunum við Ísland hefur farið minnkandi síðustu árin, en þó ekki neitt verulega. Árið 1960 mun hlutur Íslands hafa verið um 50% í heildarbotnfiskaflanum, en árið 1974 um 55%. Það er því nokkuð augljóst að það er fyrst og fremst hlutur útlendinganna sem við þurfum að minnka sem allra mest, en þar er við ramman reip að draga.

Á undanförnum árum hefur aflahlutur okkar af þorski verið sem hér segir: Árið 1972 veiddum við 229 þús. lestir, árið 1973 236 þús. lestir og árið 1974 um 239 þús. lestir. Árið 1975 mun það vera um 330 þús. lestir sem við veiðum. Þessi aflaaukning hefur, svo sem öllum er kunnugt, fengist með gífurlegri sóknaraukningu sem byggist bæði á tækniþróun og á fjölgun og stækkun skipa.

Það, sem uggvænlegast er þó, er það að gífurleg sókn í þriggja og fjögurra ára þorsk hefur skapað þessa miklu veiði, en afleiðingar munu aftur á móti koma fram í minnkandi afla á næstu árum og frekari rýrnun hrygningarstofnsins. Fiskifræðingarnir spá því að ef við sjáum ekki að okkur og takmörkum þorskveiðina nú þegar, þá muni verða hrun í þorskstofninum með að sjálfsögðu ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Öllum er ljóst að þjóðfélag okkar þolir ekki hrun þorskstofnsins. Slíkt mundi riðla öllu okkar efnahagskerfi og árafjölda mundi taka að færa atvinnulífið inn á nýjar brautir. Þess vegna er okkur lífsnauðsyn að sporna við því svo sem unnt er að þorskveiði fari að marki fram úr þeirri tölu er Hafrannsóknastofnunin telur æskilega. Hún telur 230 þús. tonna ársafla árið 1976 æskilegan, en ég geri ráð fyrir því að okkur sé óhætt að láta veiða um 250 þús. tonn á Íslandsmiðum og byggi það á því að í fyrsta lagi mun 1972 stofninn vera heldur vanmetinn í áætlun fiskifræðinganna og í öðru lagi er líklegt að við getum veitt meira af Grænlandsþorski heldur en gert er ráð fyrir og það án hættu á stórkostlegri ofveiði.

Nú er ekki því að neita, að frá því að þessi till. var lögð fram á Alþ., þ.e.a.s. í des. 1975 hafa aðstæður breyst nokkuð. Líklegt er að afli breta hafi verið meiri en ég hafði reiknað með, og enn hafa engar takmarkanir verið gerðar á okkar eigin þorskveiði enda þótt nú séu rúmir tveir mánuðir liðnir af árinu. Ég hafði verið svo bjartsýnn að búast við því að takast mætti að semja við breta um 35 þús. tonna þorskafla árið 1916 og að frændur okkar færeyingar mundu skilja vanda okkar og draga úr veiðum sínum hér sjálfviljugir þetta eina ár, því að sú ljósglæta er í svörtu skýrslunni að ef við gætum náð okkar afla niður á árinu 1976, þá eigum við að geta leyft okkur 280–300 þús. tonna ársafla úr því og það strax árið 1977. En nú virðist aftur á móti ekki líklegt að þessu marki verði náð.

En hvernig getum við þá unnið að þessu svo að gagn verði að enda þótt aðstæður séu svo erfiðar? Við verðum í fyrsta lagi að gera okkur grein fyrir því að framtíð okkar velferðarríkis er undir því komin að okkur takist að bjarga þorskstofninum, í öðru lagi að ef við stigum skrefið til fulls og látum ekki veiða meira en 250 þús. tonn af þorski á árinu 1976, þá er líklegt að framtíð stofnsins sé tryggð enda þótt við veiðum upp undir 300 þús. tonn strax á árinu 1977. Hvernig er þá líklegt að þetta megi ske?

Í fyrsta lagi verðum við að friða miklu stærri svæði en áður og stærri en gert hefur verið, — svæðin þar sem smáfiskurinn heldur sig. Í öðru lagi verðum við að gefa ákveðnum aðilum fullkomið vald til skyndifriðana sem geta komið til framkvæmda þegar er vart verður ofveiði á smáfiski. Og í þriðja lagi verðum við að friða stærri hrygningarsvæði en áður hefur verið gert og í lengri tíma en áður, — svæði sem tryggja það að hrygningarstofninum verði við haldið og hann fari nú að stækka og snúa við þeirri öfugþróun sem verið hefur á undanförnum árum. Við verðum að veita Hafrannsóknastofnuninni meira vald en hún hefur áður haft og þannig að hún geti gripið til róttækra ráðstafana með litlum fyrirvara, — ráðstafana sem hún álitur að að haldi muni koma. Í fjórða lagi verðum við eins og gert hefur verið þegar ráð fyrir, að stækka möskvana, og ýmsar aðrar ráðstafanir, sem Hafrannsóknastofnunin hefur í undirbúningi, er okkur nauðsynlegt að komi til framkvæmda sem allra fyrst.

En auk þessara aðgerða mun okkur nauðsynlegt að gera ráðstafanir vegna þess að við búum nú við of stóran flota. Líklegt er að togaraflotinn okkar, skuttogaraflotinn, muni veiða a.m.k. tvo af hverjum þrem þorskum sem veiddir verða á árinu 1976, og þess vegna eru allar okkar aðgerðir lítils virði ef við snúum okkur ekki alvarlega að takmörkunum á þorskveiðum þess flota. Það, sem við getum gert í því efni að mínu áliti er í fyrsta lagi að stuðla að því að ákveðinn hluti togaraflotans okkar verði jafnan á veiðum fyrir erlendan markað. Með því móti fiska þeir aðeins helming tímans og dregur á þann hátt verulega úr aflamagninu. Í öðru lagi er hugsanlegt, að nokkur hluti af okkar togaraflota geti verið á saltfiskveiðum, en það mun einnig draga verulega úr heildaraflamagninu á þorski. Í þriðja lagi ættum við að geta sent nokkurn hluta af okkar togaraflota á önnur mið en Íslandsmið, Grænlandsmið, Nýfundnalandsmið og með því móti hlíft okkar viðkvæmu miðum. Og loksins er okkur mikil nauðsyn að halda jafnan einhverjum hluta af okkar togaraflota á ufsa- og karfaveiðum. Þetta samanlagt hel ég að mundi geta fært okkur nokkurn árangur einmitt á sviðum þar sem hættan er mest, þ.e.a.s. afla togaranna.

Hins vegar verður það að segjast að okkar óhamingju virðist ætla að verða allt að vopni á þessu ári. Það hafði verið ein af till. mínum að auka nú stórlega loðnuveiðina, setja fleiri skip á loðnuveiðar og jafnvel að þau skip, sem væru á loðnuveiðum, færu ekki á netafiskveiðar eftir að loðnuveiðinni yrði lokið. Nú vitum við allir hvernig farið hefur um slík áform. Loðnutímabilið er senn hálfnað og lítið farið að veiðast af loðnu enn af ástæðum sem okkur eru öllum kunnar, og þess vegna verður ekki grípið til slíkra ráða.

Eitt er víst, að ráðstafanir, sem við gerum til að vernda og tryggja framtíð okkar þorskstofns, eru ráðstafanir sem gerðar verða fyrst og fremst vegna framtíðarhags okkar sjómanna, okkar útgerðarmanna og okkar þjóðfélags í heild. Þess vegna er okkur siðferðileg skylda að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tefla ekki í tvísýn, heldur að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru, enda þótt sársaukafullar kunni að vera í bráðina, til þess að tryggja það að við getum viðhaldið okkar velferðarþjóðfélagi.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til atvmn.