04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hér höfðu farið fram mjög áhugaverðar umr. þegar þetta mál var til 1. umr. hér. En það, sem mig langaði til að vekja athygli á, er að það er til stór hópur fólks í þessu landi sem hefur að mínu viti öðrum fremur þörf fyrir fullorðinsmenntun eða aðstöðu til fullorðinsmenntunar. Þetta er hópur öryrkja. Að svo er byggist fyrst og fremst á því, að margir verða öryrkjar vegna slysa eða vegna sjúkdóma á fullorðinsárum, þ.e. þegar venjulegum skólaaldri er lokið, og þessi örorka getur orðið til þess að gjörbreyta lífsviðhorfum þeirra og gjörbreyta þörfinni fyrir viðbótarmenntun hjá þessu fólki. Við skulum taka dæmi um mann sem hefur verið hljómlistarmaður og fær síðan liðagigt í hendur. Hann hefur kannske enga aðstöðu til þess að geta stundað sín fyrri störf áfram, en hann getur haft mikla möguleika til starfs ef hann fær aðra menntun. Þetta getur þýtt fyrir þennan mann fullkomna endurmenntun, og það er vegna þessa fólks sem mér finnst að við þurfum að gera betur en gert hefur verið hvað varðar fullorðinsfræðslu.

Fyrir nokkrum árum var sett á stofn n. á vegum félmrn. Sú n. heitir Endurhæfingarráð. Hennar hlutverk er í raun og veru að undirbúa öryrkja undir ævistarf, og þetta er gert með því í fyrsta lagi að láta fram fara hæfnispróf á þessu fólki. Ef það kemur í ljós við hæfnispróf að þetta fólk er til einhverra hluta nytsamlegt og getur starfað með aukinni menntun eða aukinni þjálfun, þá er það þessa ráðs að sjá til þess að sú aðstaða sé til í landinu sem þarf til að það geti hlotið menntun.

Þegar ég las 5. gr. frv., ákveðið í a-lið 5. gr., um að ríkið veiti styrki til aðila atvinnulífsins, svo og til félagasamtaka og fræðslusambanda, þá kom mér í hug að þarna þyrfti í raun og veru að bæta við Endurhæfingarráði, vegna þess að það má kannske segja að Endurhæfingarráð sé hvorki aðili atvinnulífsins né heldur félag eða samtök, en það hefur nokkra sérstöðu og væri því ástæða til að það væri þarna sérstaklega tekið fram, einkum þar sem fjárskortur hefur háð starfsemi Endurhæfingarráðs á undanförnum árum.

Það, sem minnst er á fatlaða í þessu frv., er fyrst og fremst í 17. gr., þar sem segir svo: „Rn. setur reglur um skipan og fyrirkomulag þessara aðalfræðsluþátta, svo og annarra er styrkhæfir teljast, svo sem námskeiða, stuðningskennslu, fullorðinsfræðslu á stofnunum fyrir fatlaða og fleira.“

Þarna er tekið fram að fatlaðir skuli njóta aðstoðar þessara laga og er það vel. Ég minnist þess að um árabil, a.m.k. tvo til þrjá áratugi, hafði ég á hendi stjórn á nokkurri fræðslu fyrir fatlaða á stofnun. Þetta gekk stundum vel og stundum ekki vel, en lengst af vorum við í hálfgerðu basli með fjárhaginn. Þó var þetta komið í allgott lag á tímabili og vorum við komnir upp á Reykjalundi með iðnskóla sem útskrifaði ágætis iðnaðarmenn. Síðan var skipulagi fræðslumála eitthvað breytt og þetta lagðist niður. En á svona stofnunum, sem hafa öryrkja innan sinna vébanda, er a.m.k. alltaf mikil þörf fyrir námskeið og ýmiss konar stuðningskennslu, jafnvel þótt iðnskólafræðsla eða framhaldsskólafræðsla geti farið fram í skólum nágrennisins, eins og reyndar í nágrenni Reykjalundar nú. Þar hefur fræðsla fyrir fatlaða verið tekin upp í nálægum gagnfræðaskóla. En vegna þess hvað þarna er náið samband á milli og hvað mér finnst að öryrkjar hafi mikla þörf fyrir aðstoð skv. þessum lögum, þá hef ég lagt til og vil vekja athygli hæstv. menntmn. á því, að mér fyndist athugandi hvort ekki væri rétt að samtök öryrkja fengju einn af þeim mörgu fulltrúum sem eiga að starfa í svonefndu fræðsluráði. Það eru þarna fjórir fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins, það eru þrír fulltrúar fræðslusambanda og tveir fulltrúar hins opinbera, og mér finnst ekki óeðlilegt þó að þessi stóri hópur, sem á mjög mikið undir framkvæmd þessara laga, fengi einn mann í þetta fræðslusamband.

Þetta var nú það helsta sem mig langaði til að vekja athygli á. Ég held að þessi löggjöf geti reynst okkur mjög merkileg og gagnleg, ekki síst ef hún hjálpar þarna hóp sem hingað til hefur átt í erfiðleikum, ekki síst á sviði starfsmenntunar og reyndar allrar menntunaraðstöðu.

Í umr. þegar þetta mál var áður til 1. umr. var minnst á ýmsa áhugaverða þætti fræðslunnar og þ. á m. endurskoðun framhaldsskólastigsins í heild og tekið fram af hæstv. ráðh. að sú endurskoðun væri í gangi og mætti vænta till. frá endurskoðunarnefnd innan skamms. Þegar grunnskólalögin voru hér í hv. d. til umr. 1973 lét ég þess getið að mér fyndist það ekki í samræmi við nútímann hvernig skyldufræðslunni hjá okkur skv. þeim lögum er hagað. Mitt álit var það, að skólaskyldan ætti að hefjast fyrr, við 5–6 ára aldur, en henni ætti að vera lokið um fermingaraldur, um 14 ára aldur. Ég lagði til að skyldunámið hæfist fyrr vegna þess að það er nú að verða mjög almennt að börn á þessum aldri, 4–7 ára aldrinum, séu á dagheimilum. Síðan er svo það að á mörgum heimilum hafa foreldrarnir enga aðstöðu til þess að sinna börnunum eins og skyldi, og það er okkur gífurlega mikils virði að þessi dagheimili séu ekki geymslustofnanir, heldur sé þetta forskóli sem hæfir þeim árgöngum sem þar dveljast. Það er orðið vitað mál og sannað að börn á þessum aldri eru mjög móttækileg fyrir hvers konar fræðslu ef henni er beitt af þar til hæfum kennslukröftum. Þess vegna lít ég svo á að skyldunámið eigi að hefjast fyrr, en hins vegar sé ég enga ástæðu til þess að eftir 14 ára aldur sé um skyldunám að ræða. Mér finnst að þegar endurskoðun framhaldsskólastigsins í heild fer fram, þá eigi að gera ráð fyrir því að um 14 ára aldur geti skólafólkið okkar tekið lokapróf í skyldunáminu og farið í framhaldsskóla, það sem þess óskar.

Ég er enn fremur á því að okkar langa skólaganga unglinga sé óþörf og jafnvel hættuleg og eftir 14 ára aldur eigi unglingarnir ekki að vera meira en 6 mánuði í skóla á ári og þá helst tvisvar sinnum 3 mánuði og hinn tímann, undanteknum venjulegum sumarleyfum, taki þeir þátt í atvinnulífinu. Það er ekki nokkur vafi á því að sú tilraun, sem gerð hefur verið á Norðurlöndum og í Ameríku, að lengja námið sí og æ, er að ýmsu leyti varhugaverð. Það hefur verið gert meira og minna vegna ástands atvinnulífsins miklu frekar en með þarfir unglinganna í huga. En ég held að það sé af ótta við atvinnu-leysi unglinga sem þessi stöðuga aukning er og lenging á árlegum skólatíma, en alls ekki að það sé skoðun lærðra manna að það sé nokkrum til gagns að þeir séu 10 mánuði á ári í skóla.

Eins og nú lítur út fyrir bæði hjá okkur og ekki síður í okkar nágrannalöndum, þá er líklegt að 20, 22, 25 ára gamlir æskumenn og konur komi til starfa án þess í raun og veru að þekkja nokkurn skapaðan hlut til annarra þátta þjóðfélagsins en mjög takmarkaðs skóla og þess fólks sem þar er hægt að umgangast. Þetta er að mínu viti mjög hættuleg þróun, og ég er sannfærður um að ef unga fólkinu væri gert það að skyldu að taka þátt í atvinnulífinu allt frá 14–15 ára aldri og fram úr, þar til menn taka að sér það lífsstarf sem þeir hafa ákveðið, þá mundum við fá allt aðra kynslóð, miklu fjölbreyttara fólk að þekkingu og menntun, og þar að auki mundi þetta verða fjárhagslega miklu léttara á öllum aðilum sem um fjárhag þessa fólks eigra að sjá.

Í öðru lagi hef ég þá skoðun að þetta sé líka heilsufarslega, bæði líkamlega og andlega, mjög mikil nauðsyn, því að það má mikið passa upp á heilsu þessa fólks, ekki síst líkamlega heilsu, til þess að geta haft það í skólum frá 5–7 ára aldri og fram á 25–26 ára aldur, þannig að það komi jafngott að líkamlegri heilsu út úr skólanum. En þátttaka í atvinnulífinu mundi aftur á móti sjá fyrir þeirri þjálfun sem er hverjum manni nauðsyn og þar að auki mundi sú fjölbreytni í umgegni við venjulegt fólk skapa þá andlegu þjálfun, sem er hverju ungmenni nauðsynleg, og miklu fjölbreyttari en skólinn hefur aðstöðu til að veita.

Þetta var það sem mér datt í hug að vekja hér athygli á vegna þess að getið var um það að endurskoðun framhaldsskólastigsins væri í gangi. Það gladdi mig mjög að heyra að nú væri lögð áhersla á að fara að hagnýta sjónvarpið betur í fræðslunni. Það er ekki nokkur vafi á því að hvað sem skólavist og öðrum menntunarstofnunum líður, þá fá bæði ungir og aldnir mjög mikla fræðslu gegnum fjölmiðlana, mjög miklu meiri fræðslu en úður var, og þetta er eins konar fullorðinsfræðsla að verulegu leyti og því betur sem hún er rækt, að því meira haldi. getur hún komið okkur öllum.

Í sambandi við fullorðinsfræðsluna má einnig geta þess að aldraðir geta haft af henni mikil not, ekki fyrst og fremst til þess að búa sig undir starf, heldur fyrst og fremst sem tómstundaiðju sem marga aldraða vantar. En það er nú víða svo komið að farið er að hafa sérdeildir, eins konar dagheimili fyrir aldraða, þar sem nám og einhvers konar fullorðinsfræðsla er mikill þáttur í því að láta daginn líða, og það er talið af þeim, sem reynt hafa, að þetta geti skapað gamla fólkinu aukna lífsfyllingu.