04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessarar till. hefur gert skýra og glögga grein fyrir þessu máli og er þar ekki miklu við að bæta. Þó get ég ekki orða bundist þegar hv. þm. Albert Guðmundsson, 12. þm. Reykv., kemur hér í ræðustól og heldur því fram að þetta sé vanhugsuð till., það sé vanhugsað að hækka tolla á vörum frá þeirri þjóð sem beitir okkur hernaðarofbeldi hér á miðunum í kringum landið.

Ég vil leyfa mér að minna á í þessu sambandi, vegna þess að ég held að það hafi ekki komið fram í þessum umr., að við íslendingar höfum gert viðskiptasamninga við lönd Efnahagsbandalagsins, þ. á m. Bretland, þar sem gert er ráð fyrir því að báðir aðilar lækki tolla á vörum sem fluttar eru inn frá þessum aðilum. Við íslendingar stóðum við okkar hluta þessa samnings með því að lækka tolla á vörum frá löndum Efnahagsbandalagsins í ársbyrjun 1974. En svo brá við að Efnahagsbandalagið sveik sinn hluta samningsins og neitaði að lækka tolla á vörum frá Íslandi, og við það hefur setið allt fram á þennan dag, að Efnahagsbandalagið hefur algjörlega neitað að stranda við sinn þátt í þessum gagnkvæmu skuldbindingum. Það vakti því ekki litla undrun um s.l. áramót þegar íslenska ríkisstj. ákvað að stiga enn eitt skref í sömu átt með því að lækka tolla á vörum frá Efnahagsbandalagslöndunum, þ. á m. frá Bretlandi, á sama tíma og þessi ríki beita okkur beinum viðskiptaþvingunum.

Ég þarf ekki að orðlengja þetta mál frestar, en mig langar bara ósköp einfaldlega til að spyrja hv. þm. Albert Guðmundsson, og ég vona að hann treysti sér til að svara því: Var það vel hugsuð eða vanhugsuð ákvörðun af íslensku ríkisstj. að lækka tolla á vörum frá Efnahagsbandalagslöndunum og Bretlandi um s.l. áramót sem nam 800 millj. kr.? Þessi ráðstöfun er ekki aðeins óskiljanleg frá því sjónarmiði í hvaða aðstöðu við erum gagnvart þessum ríkjum í landhelgisdeilunni, heldur líka frá mörgum öðrum sjónarmiðum, m.a. því sjónarmiði að samkeppnisaðstaða íslensks iðnaðar á eftir að versna mjög verulega af þessum sökum á næstu mánuðum og missirum og var þó ekki á bætandi við þá erfiðu aðstöðu sem íslenskir atvinnuvegir hafa verið í. Þar að auki þýðir þetta að sjálfsögðu tekjutap fyrir ríkissjóð sem nemur 800 millj. kr. En hv. þm. hefur einmitt verið einn af þeim sem hafa haft hvað mestar áhyggjur af fjármálum ríkisins hér á hv. Alþ. og talað mikið um að þar þyrfti að halda betur á spilunum.

Ég vil sem sagt leyfa mér að spyrja hv. þm., úr því að hann var svona snöggur til að dæma þessa till. sem vanhugsaða, hvort hann er þá jafnreiðubúinn að lýsa því yfir að hin ákvörðunin, að lækka tolla á þessum vörum, eins og gert var fyrir aðeins tveim mánuðum, hafi verið að sama skapi vel hugsuð ráðstöfun.