04.03.1976
Neðri deild: 73. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

158. mál, vátryggingariðgjöld fiskiskipa

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er um greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa og er þess efnis að viðskiptabanka útgerðarmanna skal gert skylt að halda eftir fjárhæð sem nemi 5% af heildarsöluverðmæti afla sem landað er hérlendis, um 4% af heildarsöluverðmæti afla, sem landað er erlendis og skal þeirri fjárhæð varið til greiðslu iðgjalda af vátryggingu fiskiskipa.

Eftir að sú kerfisbreyting var gerð nú fyrir skömmu að stórlækka tekjur Tryggingarsjóðs þannig að iðgjöld verða nú ekki greidd úr honum nema að litlu leyti þykir nauðsynlegt að tryggja að af aflaandvirði verði greitt jafnóðum og afli er greiddur inn á reikning hvers báts hjá viðkomandi tryggingarfélagi. Það er ætlunin samkv. þessu frv. að viðskiptabankarnir skili andvirði þessa á sérreikning Landssambands ísl. útvegsmanna hjá viðkomandi banka þegar greiðsla til bankans hefur farið fram og síðan mun Landssamband ísl. útvegsmanna skila þessu andvirði mánaðarlega til viðkomandi vátryggingarfélaga inn á reikning viðkomandi báts.

Þetta er talið nauðsynlegt að gera til þess að koma í veg fyrir að það myndist stórskuldir við þessa kerfisbreytingu. Að þessu standa samtök útvegsmanna og vilji sjómannasamtakanna sömuleiðis, að koma þessum hætti á.

Um þetta mál var enginn ágreiningur í Ed. N. var þar sammála. Hér er um sjálfsagt fyrirkomulagsatriði að ræða sem ég held að eigi ekki að valda neinum ágreiningi.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til sjútvn., og vænti þess, að hv. sjútvn. afgr. þetta mál sem fyrst til þess að þegar fyrsta greiðsla fer fram verði þetta orðið að lögum, þannig að viðskiptabönkunum sé gert skylt að halda þessu eftir af fiskandvirðinu.