14.10.1975
Neðri deild: 3. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

4. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Forseti. Þegar reglugerð um útfærslu landhelginnar í 200 sjómílur er gefin út 15. júlí, þá er henni ætlað að taka gildi á morgun eða frá og með 15. okt. Því ber nauðsyn til að setja lög um breyt. á l. nr. 102 frá 1973 til að fastákveða að ákvæði laganna, þ. á m. um veiðiheimildir, veiðitakmarkanir, veiðileyfi og viðurlög við brotum, taki í heild til allrar hinnar nýju 200 sjómílna fiskveiðilandhelgi.

Það var um tvennt að velja að gefa út brbl. til breyt. á þessum lögum, þannig að ákvæði frá 1972 næðu til hinnar nýju reglugerðar, eða þá að leggja þetta frv. hér fram á Alþ. í trausti þess að það fái afgreiðslu á þessum sama degi, því að reglugerðin á að koma til framkvæmda frá miðnætti í nótt. Ég leitaði til fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna allra og bar undir þá hvorn háttinn þeir teldu vera æskilegri í þessu sambandi. Voru þeir allir sammála um að það væri réttara að leggja frv. fyrir Alþ. og hétu þeir því að stuðla að framgangi málsins á einum degi. En það var ekki hægt að taka frv. til umr. fyrr en nefndir höfðu verið kjörnar hér í d. Ég ætla því ekki að hafa fleiri orð um þetta, en vænti þess, að allir aðrir alþm. geri sitt til þess að flýta fyrir afgreiðslu málsins, og legg til, forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til sjútvn. sem ég vona að geti afgr. frv. á nokkrum mínútum, þannig að Nd. geti haldið áfram afgreiðslu málsins og vísað frv. til Ed. ekki síðar en um kl. 4 í dag.