04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

14. mál, raforkumál á Snæfellsnesi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um nauðsyn þess að endurbæta rafmagnskerfið á Snæfellsnesi. En það er nú þannig að tjón af völdum spennufalls mun hafa orðið miklu meira í Borgarfirðinum, uppsveitum Borgarfjarðar, heldur en á Snæfellsnesinu, mjög alvarlegt stundum, eins og t. d. um páskana síðustu. Eftir það efndi Búnaðarsamband Borgarfjarðar- og Mýrasýslu til könnunar á þessu og upplýsingar liggja nú fyrir. Það er eftir að vinna úr þeim, en það eru komnar skýrslur frá 40 bæjum þar sem er um að r:eða alvarlegt tjón af þessum sökum, aðallega á mjaltavélum, mjaltavélamótorum og dælumótorum og öðru slíku, sjálfsagt milljónatjón, kannske tugmilljónatjón. Menn spyrja þar efra hvort ekki væri rétt að gera rafveitur skaðabótaskyldar þegar um óhæfilegt spennufall er að ræða. Þessu vildi ég koma á framfæri. Ég vil bæta því við að ástæðan til þess, að þetta gerðist um páskana, var sú að þá var rafmagnið ekki skammtað eins og venjulega þegar spennan verður takmörkuð, og menn spurðu: Af hverju er rafmagnið ekki skammtað um páskana? „Það var ekki skammtað um páskana,“ sögðu viðkomandi yfirvöld hér syðra „vegna þess að það voru svo margir gestir í sumarbústöðunum þar efra í Borgarfirði“. Það mátti sem sé ekki hætta á að þéttbýlisfólkið fengi kvef vegna kulda og kannske færi sér að voða í myrkrinu.