09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

159. mál, sjálfvirkt símkerfi um sveitir landsins

Jónas Árnason:

Herra forseti. Drjúgur hluti af fundartíma hér í dag hefur farið í það að ráðh. hafa endurtekið fyrri svör við fyrri fsp. Þetta átti sér stað áðan þegar hæstv. samgrh. svaraði fsp. um símamál. Það er segin saga að þegar svarað er fsp. um þessi mál, þá hljóða svörin upp á mjög góðan vilja til að laga þetta, en þm. fá litlar fréttir af því að raunverulega sé unnið að því.

Ég vil skjóta því til vinar míns, hæstv. samgrh., að það er ekki skemmtilegt afspurnar að ástandið hefur stórum versnað síðan hann tók við þessum málum. Þá gat að vísu verið vandkvæðum bundið að ná sambandi við Vesturland héðan úr Reykjavík. Nú hins vegar er þetta orðið þannig að það er alveg undir hælinn lagt hvort við þm. náum yfirleitt nokkru sambandi mið kjósendur okkar á Vesturlandi héðan úr Reykjavík. Ég vona nú að hæstv. ráðh. fari að taka rækilega til hendinni áður en svo fer, ef við Vesturl: þm. ætlum á annað borð að halda sambandi við kjósendur okkar, — að þá verðum við að fara og tala við þá persónulega, hætta að nota þetta merkilega tækniundur sem nefnist sími.