11.03.1976
Sameinað þing: 62. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

135. mál, fiskileit og tilraunaveiðar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Um þessa litlu till. um fiskileit og tilraunaveiðar hafa nú orðið allvíðfeðmar umr. og menn komið viða við og ætla ég að vísu ekki að blanda mér mjög mikið inn í þær umr. En heyrðist mér rétt, — og því miður er nú hv. 2. þm. Austurl. ekki við, — en heyrðist mér rétt að hann væri í gríðarlega langri ræðu áðan að fullvissa menn um að hann væri sérstakur fiskverndari og fiskleitarmaður? Hafi svo verið, þá hef ég heyrt rétt. Hann rifjaði það upp, sem áður hefur komið fram, að í ársbyrjun 1972 þingaði Norður Atlantshafsfiskveiðiráðið um ástand fiskstofna í Norður-Atlantshafi. Þótti tími til kominn að bera saman bækurnar um hið alvarlega ástand, sér í lagi hið alvarlega ástand þorskstofna Norður-Atlantshafsins. Niðurstaða þessarar ráðstefnu varð sú, að þorskstofnar í Norðaustur-Atlantshafi hefðu þegar árið 1962 verði fullnýttir og þegar þar var komið sögu, árið 1972, löngu ofnýttir, þar með talinn hinn íslenski þorskstofn, enda þótt íslenskir fiskifræðingar siðar meir eða í framhaldi af þessari ráðstefnu hefðu nokkuð aðra skoðun í þessum efnum. Og niðurstaða ráðstefnunnar, sem var haldin í Danmörku, var sú að æskilegasta sóknin væri helmingi minni en sú sem var árið 1972, og ég legg áherslu á að hinn íslenski þorskstofn var ekki undanskilinn í þessu efni.

Hv. 2. þm. Austurl. rifjaði það upp að við hefðum sem mest að vinna við ýmsar friðunarráðstafanir þegar árið 1972, útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur. Það er alveg hárrétt, það höfðum við. En við höfðum einnig sem mest að vinna í öðrum efnum, m.a. að því að afla okkur nýrra stórvirkra fiskveiðitækja, nýju togaranna, 60–70 talsins eða hvað þeir eru orðnir nú. Og við unnum ýmis önnur verk sem ekki verða beinlínis talin fiskverndarverk, eins og að semja við breta um 130 þús. tonn af fiski árið 1973. Ég er ekki að gagnrýna hann fyrir það, ég samþ. þetta sjálfur enda þótt mitt atkv. væri ekki leigugreiðsla fyrir ráðherrastól eins og hans, eins og hann hefur sjálfur lýst átakanlega margsinnis. En þessi skýrsla, sem gefin var á miðju sumri árið 1972, var að sínu leyti alls ekki bjartari yfirlitum en sú skýrsla sem á síðasta ári var gefin út og nefnd hefur verið svarta skýrslan. Og spurningin er: Hvers vegna urðu svo lítil viðbrögð við þessu þá, árið 1972, sem raun ber vitni, þessu áliti Norður-Atlantshafsfiskveiðiráðsins? Það var ritað bréf upp úr miðju ári til sjútvrn., þar sem þessi skýrsla var lögð fram og alls ekki sem leyndarmál. Engin sérstök viðbrögð voru við þessari svörtu skýrslu. sem þá barst, umfram það sem við höfðum þegar markað okkur í fiskveiðimálum okkar, útfærsla landhelginnar og friðun og verndun bæði svæða og fiskstofna.

Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið mistök að taka þá skýrslu ekki alvarlegar en gert var. Ég er ekki þar með að segja að ég sé einn í þeim hópi sem tekur hina seinni svörtu skýrslu eins alvarlega og virðist vera að gangi hreint taugaveiklun nær, m.a., eins og minnst hefur verið á, tillaga gerð í þá átt að leggja hinum nýja fiskiskipaflota okkar. Það nær auðvitað engu tali og er óþarft. Þó að við verðum að taka fyllsta tillit til þess sem nú liggur fyrir og mjög rík áhersla hefur verið lögð á, þá er er óþarft gjörsamlega að missa stjórn á sér. En svo er helst að sjá sem ýmsir, sem maður hefði þó vænst, að héldu höfði sínu, séu hreint ekki með réttu ráði þegar þessi mál ber á góma nú.

Ég stóð ekki aðallega upp hér til að orðfæra þessi atriði sérstaklega, heldur til að minna á það, að ég hef nokkrum sinnum flutt till. hér á hinu háa Alþ. um bæði fiskileit og fiskrækt og fengið daufar undirtektir, að ekki sé meira sagt. Ég minnist þess ekki að einn einasti maður hafi yfirleitt tekið til máls um þær, t.d. till. sem ég flutti árið 1973 — till. til þál. um leit að nýjum karfamiðum í úthafinu, mál sem hafði verið rannsakað fyrir mig gaumgæfilega af sérfræðingum. Það var ekkert skeytt um þessa till. Þetta var í ráðherratíð hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar. Það er talið að hér suður og vestur af landinu sé gríðarlega stór karfastofn í úthafinu. Það hafa aðeins verið farnir fjórir leiðangrar á allt of litlu skipi búnu of litlu vélarafli til þess að rannsaka þennan karfastofn. Það er þó vitað að hann er gífurlega stór, en hefur ekki enn þá verið fundið, hvenær hann þéttist þannig að hann verði veiðanlegur. En það hlýtur þó að ske, eða a.m.k. ætla menn að svo sé um fengitímann. Engar rannsóknir hafa farið fram sem leitt hafa okkur í sanninn um hvort hér sé um veiðanlegan fiskstofn að tefla. Er þó einsýnt að ef þetta tekst, sem sérfræðingar binda vonir sinar við, þá mundum við í stað þess að leggja skipum okkar í tvo eða fjóra mánuði geta e.t.v. sent þessi stórvirku tæki á ný mið í stofn sem er alveg ónýttur enn. En viðbrögðin urðu sem sé engin við þessari till. minni né heldur fiskræktartill., sem ég hef áður flutt.

Ég get svo að lokum aðeins lýst því yfir að ég styð till. hv. þm. Tómasar Árnasonar um fiskileit og tilraunaveiðar. Hann fjallar hér um kolmunna og spærling, og rétt er það að þar virðast vera til stofnar sem mætti sækja fastar í eða öllu heldur — eins og með kolmunnann — nýr stofn sem við næstum því alls ekki höfum sótt í, en er með þeim stærstu og öflugustu í Norður-Atlantshafi. En ég vil leggja áherslu á við þá n. sem fær þetta til meðferðar, að hún taki til athugunar þá till. sem ég flutti á sínum tíma um leið að nýjum karfamiðum. Það er eins og ég segi, þær upplýsingar, sem lágu henni til grundvallar, voru unnar af sérfræðingi, þannig að þar er ekki um neinar lausafréttir að tefla, heldur rækilega rannsakað mál. Sá maður, sem mest hefur um þetta fjallað á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar, dr. Jakob Magnússon, hefur geysilega mikinn og einlægan áhuga á því að þessu máli verði hrundið í framkvæmd. Til þess þarf öflugt togskip, en við eigum nóg af slíkum skipum nú. Það var rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson sem reyndist, eins og ég sagði, bæði of lítill og vélarvana til þess að hann hefði nægilegt afl til að rannsaka þetta á því dýpi sem þessi fiskstofn er yfirleitt finnanlegur.

Ég hvet til þess að menn taki mikið mark á álíti sérfræðinga okkar og meira en áður. Það fer ekkert milli mála um þær upplýsingar, sem lágu fyrir á miðju ári 1972, að allt of lítið tillit var tekið til þeirra. Hins vegar sýnist mér nú sem menn gjörsamlega gangi um skör fram í viðbrögðum sínum og æðibunugangi að kalla má við þeim að vísu áhyggjumiklu upplýsingum sem nú hafa verið fram fluttar vegna ástands þorskstofnsins íslenska. Við þurfum að leggja aukna áherslu á hvers konar fiskileit og rannsóknir og ræktun. Þetta kostar allt mikið fé, en því er áreiðanlega vel varið og verður vel varið. Við þurfum auðvitað skipakost Hafrannsóknastofnunarinnar. Og umfram allt verðum við að hlíta og fara eftir þeim ráðum sem vísindamenn okkar gefa okkur. T.d. þyrftum við að ganga af þeirri trú að fiskigöngur fari eftir lagabókstaf, en með þeim hætti hefur verið hér í þing gengið frá málum að kalla. Við þurfum að hafa rúma rammalöggjöf. Ég hef margsinnis tekið fram skoðun mína um nýtingu fiskveiðilögsögunnar. Við þurfum að stjórna nýtingunni hratt frá degi til dags að kalla að ráðum hinna færustu manna. Þetta er eitt dæmi um það. Þótt ég sé mikill þingræðissinni og krefjist aukins valds til handa stjórnmálamönnum, þá er þetta eitt dæmi um nýtingu fiskveiðilögsögunnar þar sem stjórnmálamenn eiga hvergi nærri að koma, heldur sérfræðingar á því sviði. Ég hef átt sæti í fiskveiðilaganefnd sem hefur að undanförnu fjallað um þessi mál. Mér er stórlega til efs að niðurstaða af rannsóknum hennar og umr. verði á þá lund sem ég hefði helst kosið. En eins og jafnan vill verða, þá er það málamiðlun sem þarf að nást, menn fá gjarnan ekki allt sem þeir ella hefðu kosið. Þó mun væntanlega það vinnast á að hægt sé að grípa til skyndiaðgerða til verndunar ákveðnum svæðum þar sem hætta er á ofveiði eða veiði á smáfiski. Og innan tíðar væntanlega sér þetta frv. dagsins ljós.

Við eigum eftir að vísu ótalmargt órannsakað til þess að þeir geti nokkra dóma kveðið upp, sérfræðingar okkar í þessum efnum, en allt að einu verðum við að fara í meginatriðum eftir till. þeirra. Það getur aldrei orðið okkur nema til góðs.