15.03.1976
Neðri deild: 79. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2550 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

158. mál, vátryggingariðgjöld fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég sé nú ekki í salnum lengur hv. frsm. meiri hl. sjútvn. (Gripið fram í.) Jú, hann er hér. Alltaf skal hann standa að baki mér, þessi blessaði hv. þm. Það var þá ástæðulaust að ætla að hann hefði stungið af þrátt fyrir það að hann leyfði sér að fara dálítið frjálslega með sannleikann hér, eins og stundum tíðkast því miður þegar verið er að ræða mál, jafnvel þótt þau séu af alvarlegra taginu eins og þetta.

Ég vil upplýsa það, eins og fram kemur raunar í nál. mínu á þskj. 414, að á þeim fundi, sem þetta mál var afgreitt í sjútvn. Nd., þá voru alls ekki þessir 4 á fundinum sem rita undir nál. (Gripið fram í.) Á þeim fundi, sem málið var afgreitt, voru alls ekki þessir 4 menn sem skrifa undir nál. meiri hl. Þeir voru aðeins 3. Og til þess að menn fái að heyra alveg um það, þeir sem vilja vita það, hvernig að þessum málum var staðið, þá ætla ég að leyfa mér að lesa upp — með leyfi hæstv. forseta — það nál. sem ég minntist á áðan, á þskj. 414. Nál. er á þessa leið og er frá minni hl. sjútvn., en í þessum minni hl. var ég einn vegna þess að ég var eini fulltrúi stjórnarandstöðunnar á fundinum, hinn var veikur:

„Sjútvn. hefur tekið mál þetta fyrir á fundum sínum“ - ég vil biðja hv. þm. að hlusta á þetta — „þar sem málið var lesið á fyrri fundi, þar sem 4 nm. voru saman komnir“ — þ. á m. var ég einn af þeim, þ.e.a.s. 3 úr stjórnarliðinu — „en afgreitt af þrem meirihlutamönnum á síðari fundi án þess að það væri skoðað rækilega eða sent til umsagnar, enda fundartími ekki lengri en 5 mínútur með löglegum fjölda fundarmanna.“ Þar voru sem sagt 4. Fundartíminn var sem sagt ekki með löglegum meiri hl. lengri en 4–5 mínútur.

„Ekki var sýnilegt af nál. hv. Ed. að málið hefði hlotið þar annars konar meðferð, því ekki var þar umsögnum eða útskýrandi gögnum fyrir að fara.

Kannske er ekki ástæða til að andæfa slíkri fljótaskrift, því að málið er ekki upp á meira en sem svarar eitt þúsund milljónum króna.

Minni hluti nefndarinnar hefur hins vegar óskað eftir ákveðnum upplýsingum, en ekki hlotið svör við spurningum sínum.

Minni bl. gerir aths. við þá upphæð sem innheimta skal af heildarsöluverðmæti afla gegnum viðskiptabanka útgerðar.

Minni hl. n. gerir aths. við hvert viðskiptabönkum er ætlað að skila þessu innheimta fé, og auk þess gerir minni hl. aths. við það ákvæði í 3. gr. frv., þar sem sagt er, að heimilt sé (en ekki skylt) að endurgreiða ofgreidd gjöld þegar gjaldskyldu hefur verið fullnægt.

Minni hl mun flytja brtt. á sérstöku þskj. sem af má sjá nánar í hverja átt aths. beinast. Að lokum vill minni hl. n. vekja athygli þeirra þm., sem nál. kunna að lesa, á því sem m.a. kemur fram í aths. við þetta frv. Þar segir: Áætlað aflaverðmæti árið 1976 er 20 milljarðar. Á sama tíma eru áætluð vátryggingaiðgjöld fiskiskipa allt að 1800 millj., eða um 9% af afla.

Hver maður sér að það hlýtur að vera óskikkanlegt að gjalda næstum tíund í tryggingar. Hér þarf að leita sparnaðarleiða og fara þær síðan.“

Þannig hljóðaði nál. Það, sem sett er fram í þessu nál. með afar knöppu orðalagi, stuttum texta, segir raunar allt um það hvernig staðið er að afgreiðslu stórra mála hér á hv. Alþ. Á fyrri fundi n. var ekkert gert annað en að lesa þetta frv. yfir. Hins vegar óskaði ég eftir því við formann hv. n. að fá svör við ýmsum spurningum, m.a. þeim, hvað bátar af ákveðnum bátastærðum hefðu greitt til Tryggingasjóðs á árunum á undan og hvaða líkur væru til þess að þeir þyrftu að greiða núna mikinn hluta af afla í tryggingar á þessu ári, t.d. hvað smábátarnir frá 6 upp í 50–60 tonn þyrftu að greiða, hvað bátar frá 60 til 150 tonn greiddu í hlutfalli af afla o.s.frv., en við þessu fengust engin svör.

Ég ítrekaði það við formann hv. n. hvort ekki væri ráðlegt að senda þetta mál til umsagnar, eins og siður hefur verið að gera hér lengi. Þá fengust engin svör önnur en þau, að það væri búið að kanna þetta mál svo vel, það væri búið að rannsaka þetta svo vel í n. hér úti í bæ að það væri ekki ástæða til þess að fara að fetta fingur út í það og fara að leita eftir einhverjum leiðinlegum upplýsingum sem kannske féllu ekki nákvæmlega í kramið.

Þessi svör höfum við áður fengið. Við fengum slík svör frá ýmsum þm. Ég man eftir svari frá hv. þm. Sverri Hermannssyni þegar verið var að ræða eitt mikilsvert mál hér um sjávarútveg, þegar var verið að fjalla um breytingar á sjóðakerfinu, þar sem um var að ræða miklu stærra mál, upp á mörg þús. millj. kr. Það þótti engin ástæða til þess hér í hv. Alþ. að rannsaka það mál náið. Það var búið að kanna það svo vel úti í bæ. Það var n. úti í bæ sem var búin að rannsaka málið svo vel, það var búið að gefa út svo fallegar þrjár grænar bækur að það þurfti ekki á því að halda að Alþ. færi að grufla neitt ofan í það.

Svo koma þessir sömu menn og tala um að það sé verið að gera Alþ. að afgreiðslustofnun o.s.frv. Hvað er verið að gera með þessu? Það eru menn úr rn. og ýmsir aðrir, sem eru settir í n. til þess að vinna að málunum, þeir fullgera þau og síðan er sagt hér: Þið skuluð bara vera þegar strákarnir og rétta upp hendurnar eins og um er beðið, það þarf ekkert að skoða það nánar og Alþ. kemur þetta mál ekkert meira við. N. er búin að ljúka störfum. En Alþ. á bara að afgreiða það. — Slíkur afgreiðslumáti er auðvitað fyrir neðan allar hellur.

Og það að taka ákvörðun í þessu máli, sem er um það hvernig eigi að fara að því að innheimta 1700–1800 millj. kr., hvert það fé eigi að fara, það er afgreitt af þrem mönnum á álíka mörgum mínútum af stjórnarliðinu. Ég held að ég hljóti að lýsa vanþóknun minni einu sinni enn á slíkum vinnubrögðum.

Sannleikurinn er sá, að málið fékkst ekki einu sinni rætt almennilega á þessum fundum. Það er staðreynd. Og þó að þessir 4 hv. þm. skrifi hér undir, þá voru þeir alls ekki á þeim fundi þegar ákvörðun var tekin. Ég veit ekki hversu alvarlegt það er út af fyrir sig, þetta hefur kannske stundum verið gert. En menn eru að skrifa þarna undir plagg sem þeir tóku ekki þátt í að afgreiða. Ég er ekki að segja að þetta sé neitt skjalafals eða slíkt, en þetta er óviðeigandi.

Ég hef á þskj. 415 komið með nokkrar brtt. og þær eru varðandi þau atriði sem fram koma í nál.

1. brtt. er við 1. gr., og hún er þess efnis að ekki verði tekið af útgerðinni beint 5% af brúttóafla til þess að tryggja tryggingafélögum þessa peninga sjálfkrafa. Ég legg til að í staðinn fyrir 5% komi 3%. 5% af 20 þús. millj., sem er brúttóaflaverðmætið, það gerir svo mikið sem 10 hundruð millj., þ.e.a.s. 1 milljarð. 3% gera hins vegar 600 millj. Það þarf auðvitað ekki að vera að reikna þetta fyrir fólk hér. En það kemur fram líklegast í aths. við þetta frv. að það fé, sem rennur til trygginganna, komi úr tveimur áttum, þ.e.a.s. af 6% útflutningsgjaldinu komi 600 millj., en af þessum 5%, sem er ætlað að taka af brúttóaflaverðmæti beint til viðskiptabankanna, komi 1000 millj., en áætlaðar heildargreiðslur eru, eins og ég sagði áðan, milli 17 og 18 hundruð millj., sem auðvitað er alveg hrikaleg upphæð, að greiða 9% af aflanum til þess að tryggja bátana.

Þarna hlýtur að vera einhver maðkur í mysunni. Það er fyllilega ástæða til að kanna það mál gaumgæfilega, hvernig stendur á því að við þurfum að greiða svo geysilegar upphæðir til þess að tryggja fiskiskipaflotann og hvort ekki sé hægt að leita raunhæfra leiða til þess að draga úr tjónum á þessum skipum. Það er vissulega rétt að hér á Íslandi eru hafnir margar ákaflega slæmar og hafnarskilyrði viða þannig að varla verður komist hjá skemmdum að meira eða minna leyti, og skiptapar eru því miður allt of algengir hér. En það eru vissulega til leiðir til þess að draga úr þessu, og allar slíkar leiðir, sem leitt gætu til minni greiðslubyrði í þennan þátt, væru vissulega vel athugandi og sjálfsagt að fara þær ef þær finnast.

Varðandi þessa brtt. vil ég líka segja það, að með því að taka aðeins 3% þannig beint af afla í gegnum viðskiptabankana kæmu sem sagt af útflutningsgjöldum 600 millj. af þessum 3%, aðrar 600 millj. og þá væru eftir 4–5–6 hundruð millj. sem tryggingafélögin þyrftu þá að rukka inn frá þeim sem eiga að greiða þetta, þ.e.a.s. af útgerðinni, og þeir eru ekkert of góðir til þess að rukka sjálfir inn a.m.k. einhvern hluta þeirra gjalda sem þeir eiga að fá til trygginganna. Þess vegna sýnist mér að þarna hafi alls ekki verið gróflega á tekið eða of freklega farið í tillögugerð heldur, að þarna sé þessu sanngjarnlega skipt. Þeir þurfa að innheimta tæpan þriðjung, en fá sjálfkrafa innheimt í gegnum viðskiptabankana liðlega 2/3 af vátryggingagjöldum.

2. brtt., sem ég flyt við frv. er við 2. gr., að þar komi í staðinn fyrir Landssamband ísl. útvegsmanna Tryggingasjóður fiskiskipa. Það er sem sagt gert ráð fyrir því í frv. að inn á reikning L.Í.Ú. skuli leggja 1000 millj., sem það á síðan að greiða vátryggingafélögunum. Þetta fé hlýtur að liggja inni á reikningi L.Í.Ú. svo og svo langan tíma, þannig að það hlýtur að hafa af þessu allvænar vaxtatekjur. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að taka þarna inn aðila þegar hægt er að notast við þann, sem hefur séð um þetta hingað til, þ.e.a.s. Tryggingasjóð fiskiskipa. Ég legg þess vegna til, að Tryggingasjóðurinn taki beint af viðskiptabönkunum við því fé sem þannig er innheimt.

3. brtt. er við 3. gr. og er raunar umorðun á 3. gr. frv. Í frv. er 3. gr. svo hljóðandi:

„Við árslok skal endurgreiða innistæðu skipsins er kann að verða umfram greiðslur vátryggingariðgjalda.“

Hugsa sér, að þeir skuli bara fá borgað til baka ef þeir eru búnir að borga allt of mikið 1 Þetta er mjög rausnarlegt. Og svo kemur síðari málsgr.:

„Þó er heimilt að endurgreiða skipseiganda innistæðu skipsins fyrr séu vátryggingargjöld skipsins að fullu greidd.“

Þ.e.a.s. það er leyfilegt, ef menn eru í sæmilegu skapi þann og þann daginn, að þeir, sem eru búnir að borga allt of mikið, geti fengið borgað til baka heldur fyrr en um næstu áramót. Þetta er jafnvel enn rýmilegra en fyrri málsgr. Það er aldeilis furðulegt, að svo skuli tekið til orða í lögum. Það ætti auðvitað að vera skylt að greiða mönnum til baka og það sem fyrst það sem þeir hafa ofgreitt.

4. brtt. er eiginlega samhljóða 2. till. Það er sama orðabreyting, en á aðeins við 4. gr. Kemur af sjálfu sér, að ef brtt. við 2. gr. verður samþ., þá hlýtur þessi breyt. einnig að koma á 4. gr. þar sem átt er við Tryggingasjóð fiskiskipa, en ekki Landssamband ísl. útvegsmanna.

Herra forseti Aðeins örfá orð í viðbót. Það er kannske ekki ástæða til þess að fara að flytja verulega langt mál um þessar brtt. eða þetta mál út af fyrir sig fram yfir það, sem sagt hefur verið. Það er meingallað. Mætti vera betur öðruvísi. En ég tel jafnvel fremur ástæðu til þess að vita hreinlega þessi vinnubrögð í starfsemi Alþingis, að stórmál skuli vera hespuð af á örfáum mínútum og það liggja engar umsagnir fyrir. Það er ekki svarað spurningum þegar maður leitar eftir ákveðnum upplýsingum. Það fást engin svör. Þarna er verið að mismuna málum í gegn á afar ógeðfelldan hátt og ég vil segja óþinglegan hátt.