16.03.1976
Sameinað þing: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2601 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

150. mál, heyverkunaraðferðir

Flm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram till. til þál. á þskj. 312, um rannsóknir og áætlanagerð um heyverkunaraðferðir. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hún hlutist til um að Rannsóknastofnun landbúnaðarins efni á næsta sumri til frekari rannsókna á heyverkunaraðferðum með það fyrir augum að finna með hverjum hætti verði staðið svo að heyskap að hann verði áfallalaus og fóðurgildi uppskerunnar verði vel tryggt.

Með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna skal gera áætlun um skipulegar framkvæmdir við bættan húsakost og tækjabúnað sem þætti þurfa að hrinda fram til þess að ná besta árangri og hagkvæmni við heyskap og hvers konar fóðuröflun.

Áætlun þessa skal leggja fyrir næsta reglulegt Alþ. eða svo fljótt sem verða má.“

Í grg. með till. er í stuttu máli fjallað um efni hennar, þýðingu málsins fyrir íslenskan landbúnað og hugsanlegar leiðir til úrbóta. Mér þykir þó hlýða að fara frekari orðum um málið í heild ef það mætti verða til þess að styðja skjótari afgreiðslu till. hér á Alþ. og bættum búnaðarháttum í landinu.

Það fer ekki milli mála að tíðarfarið í gróandanum og á heyskapartímanum hefur enn í dag meiri áhrif á afkomu bænda en margur hefði ætlað. Reynslan frá s.l. sumri er þar um órækasta sönnunin. Segja má að á svæðinu frá sunnanverðum Austfjörðum vestur og norður um land allt austur til Skagafjarðar hafi heyskapartíð verið fádæma vond. Í júlí og ágúst voru örfáir þurrir dagar og þá jafnan stakir dagar, svo að sólskinsstundir nýttust illa við þær aðferðir við heyskap sem algengast er að beita á þessu svæði.

Þótt tækni við heyskap hafi fleygt fram hin síðari ár, þá virðist vanta herslumun til þess að bændur nái góðum heyjum þegar tíðarfarið er misjafnt. Rétt er nú þegar að skýra frá því að á haustnóttum var gerð könnun á því yfir allt land hversu gott eða vont það fóður var í reynd sem aflað var á síðasta sumri. Stóðu þar að verki bæði Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Rannsóknastofa Norðurlands og naut aðstoðar héraðsráðunauta við töku sýna vítt og breitt um landið. Niðurstöður þessar segja þá sögu að óþurrkarnir hafi rýrt fóðurgildi heyjanna mjög víða um 20–25%. Þær tölur, sem ég hef fyrir framan mig um fóðurgildi heyjanna frá s.l. sumri, eru fengnar snemma í haust og því um takmarkaðan fjölda sýnishorna að ræða. En þeir, sem tóku sýnin úr heystæðunum, hafa náð því að meta aðstæður furðurétt, því að það hefur komið í ljós við rannsóknir á fjölmörgum sýnum, sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins hafa borist síðar, að niðurstöður hafa ekki raskast, ekki komið fram sá munur að hann sé merkjanlegur þegar meðaltöl eru fundin.

Sé gerður samanburður á heyverkun á s.l. sumri og meðaltal áranna 1967–1974, þá kemur eftirfarandi í ljós: Á Vesturlandi þurfti að meðaltali á 7 ára tímabili 1.95 kg af töðu í fóðureiningu. Árið 1974 var taðan ívið betri en í meðalári, en 1975 þarf 2.38 kg í fóðureiningu eða heygæðin hafa rýrnað um ca. 22% frá meðaltalsárum. Á Vestfjörðum þarf 1.78 kg af töðu í fóðureiningu á viðmiðunarárunum, en 1975 þarf 2.2 kg í fóðureiningin og fóðurgildi minnkar um ca. 13%. Ekki eru mér tiltækar tölur um meðaltöl fyrri ára af Norðurlandi, en sumarið 1975 voru niðurstöður þessar: Í Húnavatnssýslum þurfti 2.1 kg í fóðureiningu, í Skagafirði 2 kg í fóðureiningu, í Eyjafirði þurfti 1.8 kg í fóðureiningu og í Þingeyjarsýslum þurfti 1.7 kg í fóðureiningu. Á Austurlandi þurfti 1.97 kg í fóðureiningu sumarið 1975 og hefur um 6% minna fóðurgildi en á árunum 1967–1974. Á Suðurlandi eru þessar niðurstöður óhagstæðastar, þar sem nú þurfti 2.46 kg af töðu í fóðureiningu á móti 1.96 á samanburðartímanum og er því um 25% lakari nú en í meðalári.

Eins og sjá má af þessum niðurstöðum fara heygæðin að mestu eftir tíðarfarinu um sláttinn, og sannar það að bændur búa við öryggisleysi að þessu leyti og það í miklu ríkari mæli en margur mundi ætla og þolandi er. Þegar litið er til þess er rétt, áður en lengra er haldið, að leitast við að gera sér grein fyrir hverja þýðingu það hefur að heyforði bænda hefur eftir s.l. sumar um 13–25% minna fóðurgildi en í meðalári.

Ætla má að heymagn á haustnóttum sé nú nálægt því að vera í meðallagi að vöxtum, sennilega lítið eitt minna en árið 1974, sem var gott heyskaparár víðast hvar og hey heldur betri þá en í meðallagi. En eftir þeim upplýsingum, sem búnaðarmálastjóri hefur fengið, áætlar hann að gildi heyforðans í ár sé um 40 millj. fóðureiningum minna nú, en það jafngildir rúmum 40 þús. smál. af kjarnfóðri sem væru að verðmæti um 1.5 milljarðar kr. Þessi fjárhæð mun alla vega rýra hag bænda sem þessu nemur, því að ef þeir spara sér kjarnfóðurkaupin frá því sem þarf til að vega upp á móti vondum heyjum, þá minnkar afrakstur búanna að sama skapi og ber því að sama brunni.

Skaðinn er þegar orðinn og verður ekki bættur þjóðinni með öðrum hætti en þeim að finna leiðir til þess að bæta heyverkun hjá bændum til frambúðar, svo að slík vá sé ekki fyrir dyrum að riflegur hluti af áætluðum launum þeirra skolist í burtu með rigningarvatninu. Mönnum kann að þykja þessi fullyrðing mín vafasöm. En með óyggjandi tölum má sanna að bóndi með verðlagsgrundvallarbú, sem hefur svo slæm hey sem víða eru nú á Suður- og Vesturlandi, þarf að auka kjarnfóðurkaup um allt að 15 þús. fóðureiningar, hann verður að greiða fyrir það a.m.k. 500 þús. kr. og ætla ég að menn muni um minna.

Eins og áður sagði, er rík þörf fyrir samstillt átak til að sporna við slíkum áföllum sem þeim er hér hafa verið rædd. Margar aðferðir hafa verið reyndar við þurrkun og geymslu heys og af ýmsum aðilum. Það má minna á votheysverkun sem reynd hefur verið meira og minna í fyllilega hálfa öld, víða með góðum árangri, en hefur þó ekki rutt sér svo til rúms að bændur hafi almennt nýtt hana í stórum stíl. E.t.v. er sú heyverkun beinasta leiðin út úr þeim ógöngum sem við stöndum í á þessu ári. En marga vankanta þarf að laga og finna þarf aðgengilegri aðstöðu við meðferð votheys áður en það eitt leysir vandann, og kem ég nánar að því síðar.

Á sama hátt hefur margs konar aðferðum verið beitt við súgþurrkun og gefa þær allgóða raun, en hafa þó ekki náð þeirri fullkomnun að hægt sé að benda á hana sem allsherjartryggingu í verulegri óþurrkatíð, nema fyrir hendi sé yfirdrifinn og ódýr jarðhiti, sem þó hefur í för með sér viss vandamál sem leysa þarf, svo sem eins og ofþurrkun á hluta af heyinu í hlöðunni. í þessu sambandi er einnig rétt að gera sér grein fyrir því, að hverja þá leið sem við kjósum að fara við heyverkun, hvort sem það er votheysgerð, súgþurrkun eða þurrkun úti, heybinding eða meðferð heys í sæti, þá þarf sú aðferð að vera í samræmi við húsakost býlisins og þá tækni, sem við verður komið við meðhöndlun heysins, jafnt á sumri og vetri.

Ég drap á það áðan að e.t.v. væri votheysgerð beinasta leiðin til þess að leysa vandann þegar óþurrkar ganga. Þetta er sagt vegna þess að ýmsar aðferðir eru þekktar og hafa verið hagnýttar í mörg ár sem eru hvort tveggja í senn viðráðanlegar sem vinnubrögð í vætutíð og tryggja allvel gæði heysins ef rétt er að heyverkuninni staðið Þó er það svo að það þarf enn að kanna vissa þætti þessarar heyverkunaraðferðar, t.d. hvort íblöndun maurasýru er nauðsynleg til að tryggja góða verkun, hvort betur henta flatgryfjur eða votheysturnar eða með hverjum öðrum e.t.v. ódýrari hætti mætti nú sama árangri, t.d. með því að saxa heyið í smærri búta, með ódýrari gerð geymsluhúsanna, með lofttæmingu eins og þeirri sem Einar Guðjónsson hefur beitt sér fyrir og vinnur stöðugt að að endurbæta. Sú aðferð hefur verið notuð í Hvammi undir Eyjafjöllum allt frá 1968 og viðar hin síðari ár og virðist skila góðu fóðri. Þá er rétt að minna á votheysverkun í útistökkum undir plasti sem búnaðardeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hefur gert tilraun með að undanförnu. En allt um það, hverri aðferð sem beitt er við votheysgerð, þá mun það þegar allt kemur til alls ráða úrslitum um hversu þær nýfast að menn séu ekki neyddir til að búa við úreltar aðstæður og erfiðar, t.d. eins og þær að bera votheyið í höndunum fyrir fénaðinn. Það er því áríðandi að halda áfram þeim athugunum sem hafa verið í gangi hjá bútæknideildinni um notagildi hinna ýmsu tækja, sem hér eru á markaði og eru til þess gerð að létta vinnubrögð á búunum, svo sem hjólakvísl, fóðurvagnar, heyhnífar, rafknúnir eða dráttarvéladrifnir, rafmagnstallur á rennibrautum með gripklóm og fleira sem til greina kemur þegar leysa þarf þann vanda sem við er að fást þegar nota skal vothey í stórum stíl handa öllum gripum. Þá getur það ráðið úrslitum og öllu um afstöðu bænda að unnt sé að beita tækni við gjöf og alla meðhöndlun votheysins að vetrinum sem gæli sparað vinnu, gert vinnuna léttari og þrifalegri, en votheysgjöf þykir víða vera erfið og sóðaleg þar sem aðstöðu er ábótavant.

Margra hugur stefnir að því að endurbæta svo súgþurrkunaraðferðir að með þeim hætti sé hægt að mæta misjöfnu tíðarfari. Súgþurrkun hefur verið reynd hér í nokkra áratugi og hefur vissulega orðið að verulegu liði við heyskapinn og þá alveg sérstaklega í þá veru að koma í veg fyrir heybruna og skaða af langvarandi hita í heyi. Hins vegar er varla hægt að ná besta árangri þegar mikill raki er í loftinu, t.d. með upphitun.

Ég ætla mér ekki að gera hér neinn samanburð á þeim aðferðum sem reyndar hafa verið af tilraunamönnum. En til gamans vil ég rifja upp, að ég hygg að það hafi verið Sigurlinni Pétursson sem fyrstur manna kom fram með þá hugmynd hér að þurrka hey í hlöðu með undirblæstri. Fyrstu tilraunina mun hann hafa gert hér í Reykjavík, við Laugaveg, árið 1929 og er að finna frásögn af því í grein eftir Sigurlinna í Morgunblaðinu 2. okt. í haust.

Umfangsmiklar athuganir hafa verið gerðar um súgþurrkun í ýmsu formi. Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands gekkst fyrir því að gera athugun á því hvað reynsla hefði fengist um súgþurrkun á Suðurlandsundirlendinu. Athugunina gerðu þrír menn tilnefndir af Búnaðarfélagi Íslands og Búnaðarsambandi Suðurlands á útmánuðum 1950 og tók sú athugun til 47 bæja á svæði Búnaðarsambandsins. Skýrsla um athugun þessa er birt í Búnaðarritinu árið 1951. Mér virðist að niðurstöðu þeirrar athugunar sé best lýst með þessum orðum nm. sem tekin eru úr skýrslu þeirra. Þar segir m.a.:

„Að okkar áliti hefur súgþurrkun yfirleitt gefist vel og langflestir, sem hafa haft hana, hafa stórhagnast á henni. Nokkur reynsla hefur fengist um það hvaða tæki henta best við súgþurrkun, og enn fremur hefur fengist reynsla fyrir því á hvern hátt best sé að verka heyið. Þó vantar alveg að gerðar verði vísindalegar tilraunir með súgþurrkun.“

Ég hygg, að þessi orð séu í gildi enn í dag. Þá vil ég minna á sérstaka n. eða vinnuhóp sem á vegum Orkustofnunar var starfandi á árunum 1951, 1952 og 1953 og kannaði aðstæður viða um land og safnaði upplýsingum um reynslu bænda og fleiri atriði, og voru niðurstöður birtar í skýrslu 1954. Þá hefur Baldur Líndal efnaverkfræðingur dregið saman upplýsingar um fyrri rannsóknir á heyþurrkun við jarðhita. Sú skýrsla var unnin á vegum Rannsóknaráðs ríkisins og birt í okt. 1974. Sú skýrsla geymir meginniðurstöður sem fengist hafa á undangengnum árum, einkum eftir 1960, við rannsóknir á heyþurrkun við heitt loft og verður að teljast hin mikilvægasta þegar efnt er til frekari rannsókna í því efni. Fleiri aðferðir eru raunar fyrir hendi en notkun jarðhita til þess að ná rakanum úr því lofti sem blásið er í gegnum heyið, og þarf vandlega að huga að því á hvern hátt mætti nota raforku í því skyni þar sem jarðhiti getur ekki komið að notum hjá bændum almennt.

Áður gat ég um þurrkun úti á túni, heybindingu og ýmsar venjubundnar aðferðir, svo sem að láta hey standa í sæti, svo og að hirða laust hey beint í hlöðu. Í skýrslu búnaðardeildar frá 1972 er þetta m.a. staðfest: Þurrkun heys á töðuveili er allt of ráðandi aðferð við innlenda fóðuröflun. Mjög víða um land má gera ráð fyrir að um eða yfir 90% af töðufengnum sé þurrkað úti að mestu leyti. Í þessu sambandi þykir mér rétt að minna á það að eftir landshlutum er þetta dálítið ólíkt, og þó hygg ég að enginn skeri sig úr að þessu leyti neitt í svipaða átt og Vestfirðir. Ég hef hér upplýsingar um það að á sumrinu 1975 var t.d. í Fellshreppi 92% af fóðrinu verkað sem vothey, í Kirkjubólshreppi 86% af heyfengnum og í Óspakseyrarhreppi 75%. Meðaltalstölur af Vestfjörðum öllum munu vera þær að um 50% af heyfengnum sé verkað sem vothey. M.a væri ástæða til að kanna í hverju það liggur að þessi landshluti sker sig svo úr í þessu efni.

Ég var að tala um þurrkunina úti á töðuvellinum. Um hana vil ég segja að það, hvernig þurrkun heppnast, ræður miklu um framleiðslukostnað heysins, fóðurgildi þess og nýtingu uppskerunnar þegar svona stór hluti er þurrkaður úti. Við útiþurrkunina ræður veðrið mestu um hvernig þurrkunin gengur. Þeir veðurþættir, sem mestu máli skipta fyrir heyþurrkunina, eru úrkoma, sólfar, loftbiti, loftraki og vindur, en allir þessir þættir eru örum breytingum undirorpnir hér á landi. Þessi atriði þarf öll að rannsaka nánar og halda áfram þeim athugunum, sem hafa verið í gangi og framkvæmdar af bútæknideild Rannsóknastofnunarinnar, um leið og fóðurtilraunir og efnagreiningar verða auknar til þess að tengja saman þessa tvo höfuðþætti landbúnaðarins: nýtingu grassins og gripaeldið, því að það, sem skiptir öllu máli að lokum, er með hverjum hætti við fáum best hey, þ.e.a.s. hvernig við tryggjum best fóðurgildi þeirrar uppskeru sem til er sáð og kostað er til með áburðargjöf Það fer ekki á milli mála að við erum vel í stakk búnir um rannsóknarmenn og aðstöðu á Keldnaholti, og það ætti ekki að þurfa að kosta verulegu fjármagni til svo að aðstaða væri nægjanleg á tilraunastöðvum úti um land til þess að undirbyggja þær rannsóknir sem till. þessi gerir ráð fyrir að unnið verði að.

Á það hefur verið bent að Rannsóknastofnun landbúnaðarins og bútæknideildin hafa unnið að athugunum og samanburði á ýmsum heyverkunaraðferðum. Sú vinna er hin mikilvægasta í þessu efni og þeirri vinnu verður byggt það rannsóknarstarf sem framundan er. Við þær aðstæður og þau vandamál sem upp komu við heyskapinn á s.l. óþurrkasumri, er kallað á nýjar athuganir, og trúlega verður hægt að lesa einnig úr eldri tilraunum svör sem ekki hefur verið gefinn nægilegur gaumur fyrr en nú þegar bændur um stóran hluta landsins standa frammi fyrir fjárhagsvandræðum sem ótíðin átti ríkastan þátt í að kalla fram. Ég er þess fullviss að þegar rannsóknarmenn, bútæknimenn, sérfræðingar á sviði búfjárræktar og fóðrunar ásamt ráðunautum um byggingar bera saman bækur sinar, þá megi finna leiðir til að tryggja bændur betur en enn hefur tekist fyrir skakkaföllum af völdum ótíðar eins og urðu á síðasta sumri.

Ég hef í þessari ræðu minni bent á ýmsar aðferðir sem til greina koma til að hamla gegn því öryggisleysi sem bændur eiga við að búa við heyöflunina. Ég hef rifjað upp, þó aðeins lauslega, þær niðurstöður sem birtar hafa verið um rannsóknir í þessu efni. Það þarf að sjálfsögðu að kanna miklu betur og gera fyllri tilraunir um ýmsa þætti þess. Ég hef trú á því að tæknin sé komin á bað stig um heyskap og fóðrun að bóndinn þurfi ekki að eiga allt sitt undir sól og regni lengur ef fjármagn skortir ekki til að breyta aðstöðu En til þess að það megi takast þarf að meta þá valkosti sem fyrir hendi eru, meta þýðingu þeirra til þess að varðveita sem best fóðurgildi hins nýslegna grass, meta hversu kostnaðarsamt kann að reynast að breyta um aðferðir til þess að ná besta árangri við fóðuröflunina og þá um leið sem ódýrustu fóðri. Þótt til mikils sé að vinna þarf að hafa það sífellt í huga að velja þann kost á hverju búi sem minnst fjárfestingarútgjöld fylgja, en leysir þó vandann á fullnægjandi hátt. Ég hef einnig bent á það hér og leitt að því rök að fjárhagsleg áföll þeirra bænda, sem búa við tíðarfar eins og það gerðist um mestan hluta landsins s.l. sumar, eru slík að ekki verður við það unað til framhúðar, þegar rekstrarkostnaður búanna fer langt fram úr þeim mörkum sem verðlagsákvarðanir eru byggðar á. Þeirri stöðu þarf að ná nú þegar að bændur geti mætt langvarandi óþurrkum eins og þeim, sem hafa hrjáð þá í sumar, án þess að stofna afkomu þeirra í verulega hættu. í þeirri fullvissu, að vandann megi leysa, hef ég leyft mér að flytja þessa till. til þál. og vænti þess að hv. Alþ. meti stöðu bænda svo, að úrbóta sé rík þörf að þessu leyti, og styðji hana.

Það er að mínum dómi þjóðarnauðsyn að öryggi og bjartsýni megi marka viðhorf manna til landbúnaðarins og þeirra sem við hann starfa. Þá er ekki síður mikilvægt að óþurrkasumar eins og það, sem við áttum viðaða búa nú síðast, skapi ekki landbúnaðarmönnum aukinn kostnað í rekstri og það svo að jaðrar við efnahagslega uppgjöf og stöðvun atvinnurekstrarins og þá um leið framleiðslu hinna lífsnauðsynlegu fæðutegunda, sem frá honum koma, svo og þess hráefnis fyrir eftirsóttar iðnaðarvörur úr skinnum og ull sem eru hátt metnar bæði innanlands og utan.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu um þessa þáltill. Ég vil leyfa mér að leggja til að umr. um hana verði frestað á einhverju stigi og henni vísað til atvmn. til athugunar.