17.03.1976
Efri deild: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2636 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það hafa nú spunnist allmiklar umr. um þetta mál. Við fyrstu sýn virðist það kannske ekki mjög umfangsmikið, en er áreiðanlega viðkvæmt, a.m.k. einn þátturinn sem hæstv. ráðh. hefur lýst yfir að mundi fylgja í kjölfarið á breytingu á lögunum. Mér virðist augljóst að hér sé um þrjá þætti að ræða í þessu frv. Það er að fjölga bankastjórum úr tveimur í þrjá, það hefur verið undirstrikað hér. Annað er að samræma lög um Búnaðarbanka Íslands lögum hinna ríkisbankanna tveggja, þó ekki nema að hluta, og er hér um áfangaleið að ræða. Og þriðja er að tryggja starfsemina, en opna jafnframt fyrir gjaldeyrissölu hjá þessum ríkisbanka. En hér tel ég að sé komið að viðkvæmasta efninu og um leið spurning um hvort þörf er á því að hafa fleiri til að selja þann gjaldeyri sem svo lítið er til af. Ég dreg það í efa, og það mun verða mikið mál að athuga það og fá um það umsagnir hinna ríkisbankanna.

Hæstv. ráðh. túlkaði í fyrri ræðu sinni — og undirstrikaði aftur nú síðar — 19. gr. seðlabankalaganna að mínu mati allfrjálst og í skjóli þeirrar túlkunar eigi að vera hægt að koma á gjaldeyrissölu hjá Búnaðarbankanum. Ég tel við fljóta athugun á þessu máli að þurfi að breyta lögum Seðlabankans og samræma þau algerlega löggjöf þessara þriggja ríkisbanka. Auðvitað er það mál ríkisstj. hverju sinni hvað hún gerir í þessu efni, en hér er um allviðkvæmt og viðamikið mál að ræða, því að eins og 12. þm. Reykv. benti á, þá munu örugglega einkabankarnir gera kröfu til þess að fá jafna aðstöðu á við ríkisbankana, sem er út af fyrir sig réttmætt ef við gerum slíka uppskiptingu í bankakerfinu. En þá er þetta frv. orðið að stórmáli.

Að öðru leyti vil ég taka undir það sem hæstv. ráðh. sagði, að bankinn er vel rekinn, hann hefur dugandi bankastjóra, þeir hafa mikið að gera og hafa sinnt sínu starfi vel. Það er ánægjulegt að sjá að bankinn hefur þróast og vaxið og fengið vexti og vaxtavexti og vexti ofan á þá. Þetta virðist vera eina stofnunin nú á Íslandi sem sýnir svona góðan árangur og kannske sú eina rós sem springur út nú heldur vel fyrir hæstv. ríkisstj. og þá er sjálfsagt að halda henni vel á lofti. En ef allt fylgir eftir sem hæstv. ráðh. sagði varðandi gjaldeyrissöluna og þess háttar, þá er málið orðið virkilega stórt og viðkvæmt. Þá munu fleiri vakna og gera réttmæta kröfu að fá nú hlutdeild í þessari gjaldeyrissölu sem er svo ömurlega þröng og lítil. og rannar eigum við engan gjaldeyri, sbr. fréttirnar í gær og fréttirnar næstum daglega undanfarið, að gjaldeyrissjóður er ekki fyrir hendi. Við höfum aðeins yfirdráttar- og lánsheimildir til að úthluta.

Ég varpa nú fram þeirri einföldu spurningu: Er ekki nóg starfslið í hinum bönkunum tveimur til þess að annast þessa þjónustu? Ég verð ekki var við annað en að það sé meira en nóg og lítið um biðraðir í gjaldeyrisdeildunum svo að ekki þarf að leysa úr þeim vanda. Heldur hefur nú heyrst að hæstv. bankamrh. og æðsti maður gjaldeyrismála á Íslandi hafi látið þau orð falla, samráðh. hæstv. landbrh., formaður flokks hans, að rökrétt gæti nú verið að draga heldur úr sölunni fremur en að opna fleiri hurðir að þeirri eftirsóknarverðu lind sem sala á gjaldeyri virðist vera fyrir bankana. Það er svo annað mál hvort nauðsyn sé að fá fleiri bankastjóra sem slíka. Og ekki er unnt að tala um neinar ákveðnar tölur í því sambandi, hvort það eru 10 milljarðar eða 20 eða bara 5. Erlendis er einn bankastjóri og tveir í margfalt stærri bönkum og þykir mönnum sjálfsagt. Hins vegar eru þeir bankar öðruvísi skipulagðir. Það hafa margir undrast það að bankastjórar skuli þurfa að tala við og nærri taka í höndina á hverjum manni sem biður um víxil upp á 20–50 þús. kr. og kemur með tvo ábyrgðarmenn. Það undrast margir og ég undrast það líka. Þetta er úrelt kerfi, gersamlega úrelt kerfi. Annaðhvort á að hafa aðstoðarbankastjóra, og þeir eru auðvitað ábyrgir, eða deildarstjóra víxladeildar og úthluta þeim ákveðnum kvóta og þá afgreiða þeir víxla fyrir manninn á götunni eins og Búnaðarbankinn á mikið hrós skilið fyrir að hafa gert. Þá er ákveðin upphæð til ráðstöfunar, og það gengur fyrir sig þegjandi og hljóðalaust, tryggingar eðlilega fyrir hendi. Bankarnir hafa komið sér upp tölvukerfi sem gefur upplýsingar um greiðsluvenjur viðskiptamannanna og geta spurt þ.er hvernig þessi maður hafi staðið að sínum víxlagreiðslum undanfarið. Séu þær góðar og tryggar og inntar af hendi á gjalddaga, þá á að vera unnt að fá litlar upphæðir án þess að þurfa að hlaupa upp og sitja einn og tvo tíma til þess að taka í höndina á bankastjóra og búa til jafnvel sögu um nauðsyn þess að fá 50 þús. kr. Það er von að menn verði hálfslappir eftir slíkar yfirheyrslur klukkutímum saman. Það þarf ekki frv. á Alþ. til þess að breyta því, það er skipulagskerfi bankans.

Ég ætla ekki að fara út í ýmis atriði, sem hér hafa komið fram, út af fyrir sig. Ég get fallist á nauðsyn þess að endurskoða lögin. Hins vegar er það merkilegt eins og fram hefur komið hér í fyrstu ræðunni, hjá 5. þm. Norðurl. v., að í grg. er bókstaflega tekið fram að stór þáttur í starfsemi bankans bíði nánari endurskoðunar, þó að brýnt sé að hann komist í endurskoðun, og líka sá þátturinn sem var undirstaða undir vexti og viðgangi bankans. Samt sem áður á hann að bíða. Þetta vekur spurningar og þetta vekur athygli. Ef það er megintilgangurinn með þessari lagahreytingu að tryggja þriðja bankastjórann í starf sem aðalbankastjóra og opna fyrir gjaldeyrissölu, þá á að segja það hreint út og þarf ekki þennan málatilbúnað í kringum það. Þá hlýtur sú n., sem fær þetta, að vera rökrétt fjh.- og viðskn., en ekki landbn. Annars hefði málið gjarnan mátt fara í landbn. En nú þegar það er undirstrikað að hér á að fara inn á nýtt svið sem er mjög viðkvæmt og leiðir af sér togstreitu hjá einkabönkum, þá er málið komið á allt annað svið og hefur allt annan tilgang, og ég gat ekki fundið annað út úr seinni ræðu hæstv. ráðh. en hann undirstrikaði þetta, að opnað yrði fyrir gjaldeyrissöluna eftir að þetta frv. er orðið að lögum. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, sérstaklega vegna þess að þá finnst mér rökrétt að málið fari í fjh.- og viðskn. og hún kalli til sín aðra bankastjóra og seðlabankastjórana og yfirheyri þessa menn mjög rækilega um þarfir fyrir aukna gjaldeyrissölu, möguleika á því að Búnaðarbankinn fyrst og fremst og síðan einkabankarnir hugsanlega komi fram með kröfur, og ég veit það fyrir fram að þær munu koma frá einkabönkunum, og hvernig Alþ. á að svara þeim. Forráðamenn Iðnaðarbankans munu segja að hann þjóni iðnaðinum sem skapi mikinn gjaldeyri, talið í milljörðum núna, í útflutningi o.s.frv. Hvaða rök ætlum við að hafa uppi til að neita þeim um gjaldeyri? Þeir kannske bjóða endurskoðun á sinni löggjöf, kannske að fjölga bankastjórum upp í þrjá ef það er orðin þríheilög tala og vöxtur þessa banka miðaðist allur við þriðjungsvöxt, svo að það er eðlilegt að fara úr tveimur í þrjá. En þeir kannske verða þá að sýna góðar vaxtatölur og vaxtavaxtatölur til þess að ná þessum merka áfanga að fá gjaldeyri. Ég því miður tel að séu nógu margar hendur til að úthluta því sem lítið er af.