17.03.1976
Neðri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2654 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

3. mál, skákleiðsögn í skólum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hef þegar sagt það sem ég tel þörf á að segja um meðferð þessa máls og hef engu við að bæta. Hitt vil ég aðeins leiðrétta, að gagnrýni mín hafi beinst að hv. menntmn., sem auðvitað átti sér ekki stað þar eð ég hóf mál mitt með því að lýsa því yfir að ég væri fylgjandi og mundi greiða atkv. með einróma áliti n. vegna þeirra bréfaskrifta sem farið höfðu fram af hálfu menntmrn. til n. Hinu kemst ég ekki hjá í örfáum orðum að andmæla, að meðferð málsins hafi að öllu leyti verið eðlileg. Hún hefur að öllu leyti verið óeðlileg. Það er óeðlileg meðferð máls, þegar frv. er flutt í byrjun þings að gerðu samkomulagi við ríkisstj. í lok síðasta þings, að þá skuli líða októbermánuður, nóvembermánuður, janúarmánuður og næstum allur febrúarmánuður án þess að málið sé afgr. — þrátt fyrir gert opinbert samkomulag flm. frv. við tvo hæstv. ráðh. á s.l. vori, væntanlega, að því er mér skilst, að hafðri stuttri umr. í ríkisstj. um málið. Samt líða margir mánuðir án þess að málið hljóti afgreiðslu, en efni málsins afgr. með ráðherraákvörðun sem tekin er án þess að láta svo lítið að skýra flm. frv. frá henni þrátt fyrir áður gert samkomulag, en ekki afgr. með samþykkt frv. Það er þessi málsmeðferð, sem ég hef verið að átelja, og annað ekki. Till. n. mun ég að sjálfsögðu samþ.

Um upphaf á ræðu form. n. vil ég engin orð hafa. Ég vildi óska hans vegna að hann hefði látið vera að mæla þau.