23.03.1976
Sameinað þing: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2717 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

193. mál, innlend orka til upphitunar húsa

Flm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Á þskj. 405 hef ég ásamt hv. þm. Ingvari Gíslasyni, Stefáni Valgeirssyni, Jóni G. Sólnes, Lárusi Jónssyni og Stefáni Jónssyni leyft mér að flytja till. til þál. um notkun innlendrar orku til upphitunar húsa í Norðurlandskjördæmi eystra. Þáltill. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela iðnrn. að beita sér fyrir gerð áætlunar um notkun og dreifingu innlendrar orku til hitunar húsa í Norðurl. e. ásamt kostnaðaráætlun um nauðsynlegar endurbætur á dreifikerfi raforku. Kostnaður við áætlunargerðina greiðist úr ríkissjóði.“

Það er ekki óeðlilegt, þegar menn heyra þessa till., að einhverjir kunni að spyrja hvers vegna svona till. sé miðuð við eitt einstakt kjördæmi og hvers vegna endilega við Norðurl. e. Ég er manna fúsastur til að fallast á að áætlun sem þessa, könnun sem þessa þurfi að gera um allt land. Það er orðið okkur brýnt fjárhagslegt verkefni að gera okkur grein fyrir því hvernig við ætlum að nota okkur innlenda orkugjafa til upphitunar húsa og annarra nota, og það er nauðsynlegt að unnið verði að því sem fyrst og sem myndarlegast að gera sem skynsamlegasta áætlun um það hvar við eigum að nota heitt vatn til upphitunar og hvar við eigum að notfæra okkur raforkuna til upphitunar. Hins vegar álít ég að það sé heppilegur framgangsmáti að taka út úr einstaka landshluta og gera um þá áætlanir. Þannig fæst t.d. veruleg reynsla í gerð slíkra áætlana og það á ekki að þurfa að tefja að neinu leyti heildargerð áætlunar þó að einstakir landshlutar séu teknir út úr.

Ástæðan til þess, að við flytjum till. um slíka áætlunargerð í Norðurl. e., er augljóslega í fyrsta lagi sú, að við flm. erum þm. þess kjördæmis, en auk þess má benda á að þetta svæði stendur á verulegum tímamótum í orkumálum. Nú er verið að virkja jarðgufu til raforkuframleiðslu í Kröflu, svo sem öllum er kunnugt, og að undanförnu hafa farið fram verulegar boranir eftir heitu vatni á svæðinu. Þess vegna er komið svo að hægt er að gera sér gleggri grein fyrir því þarna en a.m.k. sums staðar annars staðar á landinu hvar jarðhita er að finna til húshitunar.

Skv. upplýsingum frá Orkustofnun hafa verið gerðar mjög verulegar athuganir á jarðhita í Norðurl. e., bæði þar sem þegar hefur verið borað og eins annars staðar. Þeir staðir, sem einkum eru nefndir í þessu sambandi, eru eftirfarandi: Fyrst nefni ég Grímsey. Þar hefur ekki farið fram borun, en talið að möguleikar muni vera að ná heitu vatni. Ólafsfjörður, þar sem hefur verið lengi starfrækt hitaveita sem byggist á sjálfrennsli frá borholum. Þar var borað eftir vatni til viðbótar á s.l. ári og kom upp verulegt magn vatns þannig að eins og er, þá er sæmilega séð fyrir húshitunarþörf kaupstaðarins. Á Dalvík er hitaveita. Þar hefur vatn fengist úr einni borholu til skamms tíma, en á s.l. sumri var boruð fullkomnari vinnsluhola fyrir hitaveituna og jókst þá nokkuð vatnsmagn og hiti vatnsins. Í Hrísey hefur nýlega verið tekin í notkun hitaveita, sem líkur eru til að nægi næstu árin. Á Akureyri hafa farið fram miklar rannsóknir í sambandi við jarðhita. Í vetur varð sá árangur af borun að upp kom mikið magn af heitu vatni hjá Syðra-Laugalandi í Eyjafirði og menn gera sér nú vonir um að þar fáist nægilegt heitt vatn til þess að hita Akureyri og nágrannabyggðir eftir því sem hagkvæmt verður talið. Á Svalbarðseyri og Grenivík er jarðhiti. Hann hefur ekki nema að takmörkuðu leyti verið kannaður, en talið er að þar muni möguleikar að ná heitu vatni með borun. Á Húsavík er hitaveita sem fær vatn sitt frá Hveravöllum í Reykjahverfi. Þar var borað sumarið 1974 með ágætum árangri. Á Hveravöllum er mjög stórt jarðhitasvæði, og á tímabili var rætt um það í fullri alvöru að leggja þaðan hitaveitu til Akureyrar um mjög langan veg. Þá hafa verið gerðar rannsóknir víðar í sveitum á þessu svæði. Það hefur verið borað eftir heitu vatni á Hrafnagili í Eyjafirði, á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði, Laugum í Reykjadal, í Aðaldal og e.t.v. eitthvað víðar.

Þessi könnun á tiltölulega breiðum grundvelli hefur gefið þær upplýsingar að víða á svæðinu, a.m.k. í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu, er heitt vatn að fá til upphitunar húsa.

Í Norðurl. e. búa nú um 24 þús. manns. Það má gera ráð fyrir að þeir, sem nú njóta heits vatns til upphitunar húsa sinna, séu nálægt eða rúmlega 3 þús. að tölu. Ef Akureyri fær heitt vatn til húsahitunar, þá bætist þar við byggð með 12–14 þús. manns sem mundi njóta hitaveitu frá borholum í Eyjafirði. Þetta sýnir að það er ekki nema á að giska þriðjungur til fjórði partur af íbúum kjördæmisins sem ekki getur búist við því að fá heitt vatn til hitunar húsa sinna.

Dreifing jarðhitaorku er dýr, þannig að nauðsynlegt er að athuga með gaumgæfni hvar er hagkvæmt að leggja hitavatnsleiðslur um dreifbýli og milli minni þéttbýlisstaða. Það er líka dýrt að dreifa raforkunni, en henni þarf að dreifa hvort eð er, þannig að það er líklegt að þar sem byggð er strjál sé hagkvæmara að hita hús með raforku heldur en hitavatnsorku, svo fremi sem raforkan er seld á sambærilegu verði við hitavatnsorkuna. Vegna þess að nú hefur komið upp verulegt magn af heitu vatni í Norðurl. e., þá er nú mjög brýnt að gera sér grein fyrir því, hvar hagkvæmt er að nota þetta vatn og hvar hagkvæmara mundi vera bæði fyrir einstaklingana og þjóðarbúið að nota fremur raforku til upphitunar.

Í Norður-Þingeyjarsýslu er jarðhiti fyrir botni Öxarfjarðar í verulegum mæli, en ekki er talið líklegt að hann verði notaður í miklum mæli til húsahitunar að óbreyttum aðstæðum. Annars staðar í Norður-Þingeyjarsýslu er ekki kunnugt um verulegan jarðhita, þannig að allar líkur benda til að þéttbýlisstaðina í Norður-Þingeyjarsýslu þurfi að hita upp með raforku ef innlendir orkugjafar verða notaðir. Dreifikerfi raforkunnar í Norður-Þingeyjarsýslu er fyrst og fremst miðað við það að dreifa raforku um svæðið til lágmarksheimilisnotkunar. Ef flutningslínan frá Laxárvirkjun norður á Þórshöfn á að flytja nægilega raforku til hitunar allra húsa á þessu svæði þarf að styrkja hana verulega. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því sem fyrst hve miklu þarf þar til að kosta, því að auðvitað liggur í augum uppi að verulegur gjaldeyrissparnaður fengist með því að nota innlenda orku til húshitunar á þessu svæði. Önnur ástæða til þess að nauðsynlegt er að huga að dreifikerfi raforku í Norður-Þingeyjarsýslu, er sú, að það hefur komið í ljós að bilunarhætta er allmikil á línum á þessu svæði og fram að þessu a.m.k. hefur varaafl verið af skornum skammti í Norður-Þingeyjarsýslu. Í Suður-Þingeyjarsýslu mun vera nokkuð misjafnt hvort dreifikerfi raforkunnar dugar til þess að bæta inn á það almennri húshitun. Rétt er að geta þess, að allmargt húsa, sérstaklega á Akureyri og raunar í sveitum, er hitað upp með rafmagni, þannig að raforkuhitun er þarna nú þegar í verulegum mæli.

Í þáltill. þessari er gert ráð fyrir að hugað sé að nauðsynlegum endurbótum á dreifikerfi raforku, eins og ég gat um áðan. Eitt af því, sem nauðsynlegt er að huga að, er hvort ekki sé hagkvæmt og nauðsynlegt að breyta einfasa dreifikerfi í þriggja fasa dreifikerfi. Þessu atriði hefur e.t.v. verið gefinn allt of lítill gaumur. En því er ekki að neita að það er mjög mikill aðstöðumunur þeirra orkunotenda, sem annars vegar geta notað sér þriggja fasa raforku, og hinna, sem verða að láta sér lynda einfasa raforku. Þetta kemur einkum fram í því að allar rafknúnar vélar, stærri mótorar, eru miklu dýrari fyrir einfasa rafmagn heldur en fyrir þriggja fasa rafmagn og endast verr. Nýlega var sá munur u.þ.b. þrefaldur, þannig að rafmótorar fyrir þriggja fasa rafmagn voru um þrisvar sinnum ódýrari en rafmótorar fyrir einfasa rafmagn. Og eins mikil raforka og er notuð til þess að knýja ýmiss konar rafmótora í dreifbýlinu, þá er þarna um mjög umtalsverðan kostnaðarmun að ræða fyrir þá sem nýta raforkuna.

Í þáltill. þessari er gert ráð fyrir því að kostnaður við áætlunargerð verði greiddur úr ríkissjóði. Mig brestur þekkingu til að gera mér grein fyrir hversu mikið slík áætlunargerð sem þessi mundi kosta, en þó hef ég ástæðu til að ætla að hún sé ákaflega umfangsmikil. Mér finnst eðlilegt að þessi áætlun verði gerð á vegum iðnrn., hver svo sem framkvæmir hana að öðru leyti. Ég vil leyfa mér að benda á að hugsanlegt væri að bjóða út verk sem þetta. Það liggur í augum uppi að við þurfum að vinna fleiri svipuð verk áður en langir tímar líða, og það er mjög sennilegt að verktakar á þessu sviði mundu verða fúsir til að spreyta sig á verkefni sem þessu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt meira að þessu sinni. Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til síðari umr. og hv. fjvn.